Einkennileg afgreiðsla.

Ég fór að versla í  Bónus rétt eftir hádegi á föstudag sem er nú svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir það hvað afgreiðslan sem ég fékk við kassann var og er mér algjörlega óskiljanleg.

Það var kona að vinna á kassanum og hún var að afgreiða konu sem var á undan mér í röðinni. Þegar nokkrar vörur voru eftir á færibandinu bað  ég þessa fyrir framan mig að rétta mér spjald til þess að setja á milli og ég byrjaði síðan að tína upp mínar vörur. Ég var að setja þriðja hlutinn á bandið þegar afgreiðslustúlkan hrópaði reiðilega að mér einhverju sem ég gat ekki með nokkru móti skilið, nema ég veit að það var eitthvert slavneskt mál sem hún talaði. Ég hrökk við og hætti að setja meira á bandið, en hún leit aftur illilega á mig. Þá datt mér i hug að hún vildi ekki fá neinar vörur upp fyrr en hún væri búin að renna öllu öðru í gegnum strikamerkingarnar svo ég tók þessar þrjár vörur aftur af bandinu og beið róleg þar til hún var búin að taka allt sem tilheyrði hinum kúnnanum en fór þá að tína upp vörurnar mínar. Aftur hrópaði hún eitthvað og ég sneri mér við og spurði þá sem voru fyrir aftan mig hvort þeir vissu hvað væri í gangi, en fólkið yppti bara öxlum en það kom í ljós að sá sem var næstur  fyrir aftan mig talaði sama mál og afgreiðslukonan og sagði eitthvað við hana -auðvitað eitthvað sem ég skildi ekki heldur og það breytti engu um framkomu hennar. 

Það sem mér mislíkaði þó mest var að konan henti reiðilega fré sér hverjum hlut eftir að hún renndi honum í gegnum strikamerkinguna og ég var að spá í hvort eggin sem ég keypti yrðu kannski ein eggjahræra og gos sem ég keypti hlakkaði ég ekki til að opna þegar ég þyrfti að nota það.  Meðan ég var að setja vörurnar í poka þá tók ég eftir því að færibandið sem vörurnar voru settar á fyrir hana til að taka af færðist ekki svo ég fór til baka og ýtti því sem var lengra frá henni nær svo hún ætti auðveldara með að ná því ef færibandið væri kannski bilað. En hún hélt sem sé áfram að henda frá sér hverjum einasta hlut sem ég keypti og ég verð að segja það alveg eins og er að ég var bara alveg miður mín yfir þessu. Kannski ekki síst fyrir það að mér er alveg óskiljanlegt hvað það var sem gerði konuna svona reiða.  Ég velti öllu mögulegu fyrir mér og datt síðan helst í hug að hún ætti eftir að komast í mat og hefði ekki viljað meiri afgreiðslu en þar sem hún talaði ekkert nema sitt tungumál  þá hefði hún átt að nota bendingar til að gera fólki skiljanlegt ef hún vildi að maður færi á næsta kassa. Það var líka röð fyrir aftan mig og þegar ég fór út þá sá ég að hún fór alla vega ekkert í burtu.

þegar ég kom heim þá reyndi ég að ná símasambandi við Bónusbúðina hérna á Selfossi  því mig langaði svo til þess að vita af hverju þessi reiði konunnar beindist gegn mér, en það var ekkert svarað í símann,  þó reyndi ég nokkrum sinnum.  Ég sendi þá E-mail og sagði mínar farir ekki sléttar en ekkert svar er komið ennþá.

það er þó nokkuð um að útlendingar vinni  í fyrirtækjum hérna á Selfossi  og ég hef átt  ágætis samskipti við það og það má alltaf finna leiðir til að skilja hvert annað og svo er bara brosað að öllu saman.  Mér finnst sjálfsagt að erlent fólk sem er hingað komið fái vinnu svo það geti séð fyrir sér og margt af þessu fólki og kannski allflest er bráðduglegt fólk sem maður sýnir vitanlega kurteisi en ég geri líka þá kröfu að það sýni okkur kurteisi.

Atvikið á föstudaginn er mér algjörlega hulin ráðgáta sem sennilega verður aldrei leyst.  Ég vona bara að hvorki ég né aðrir fái nokkurn tíman svona afgreiðslu aftur.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Einkennileg afgreiðsla.

  1. Svanfríður says:

    Þetta er ljótt að heyra og ég skil vel hvers vegna þú varðst miður þín því þetta virtist hafa verið ruddaskapur í konunni og ekkert annað.
    Rétt fannst mér hjá þér að reyna að hringja og skrifa e-mail en verra þykir mér að enginn svarar þér því það er dónaskapur líka.
    Mál innflytjenda er mér hugleikið, hvort sem það á við hér eða heima á Íslandi…ef þú ætlar að finna þinn stað í nýju þjóðfélagi þá VERÐUR þú að geta talað það mál sem fylgir nýja landinu, ég er ekki að segja að fólk þurfi að tala rétt eða farið með Hávamál aftur og bak og áfram en að geta gert sig skiljanlegt er nauðsyn svo að t.d svona aðstæður jafnt og þú lýsir, eiga sér ekki stað.
    Og þú af öllum!-átt ekki svona ruddaskap skilin, þú sem gerir engu lifandi mein og ert ljúf og yndisleg.
    Kærar kveðjur, Svanfríður sem segir bara Dobra Dan (góðan daginn á júgóslavnesku:)

  2. Ragna says:

    Dobra Dan,
    prufa það næst Svanfríður mín. Útlendingar sem eru hér við afgreiðslu tala yfirleitt eitt og eitt orð í íslensku, eitthvað smávegis í ensku og flestir kunna líka að brosa og vera vingjarnlegir. En að setja manneskju á kassa sem getur ekki sagt orð nema á slavnesku og líður sjálfsagt illa vegna þess gengur auðvitað ekki og bitnar svo bara á okkur viðskiptavinunum.

  3. Guðlaug Hestnes says:

    ljótt…
    er að heyra. Það er í raun óskiljanlegt að svona skuli viðgangast. Ég myndi ekki pluma mig vel við afgreiðslustörf í „Aserbædsjan“eingöngu uppá íslensku, en ég yrði kurteis og segði bara halló elskurnar! Reyndu ef hægt er að fá svör.

Skildu eftir svar