Tölvuheila er hægt að uppfæra og bæta við minnið en….

Munurinn er mikill á tölvuheilanum í tölvunni hjá mér, sem er ótrúlega fullkominn og  heilanum sem situr í kúlunni efst á líkamanum. Sá fyrrnefndi lætur útlitslega ekkert á sjá og ef hann þarf á auknu minni að halda þá er hægt að skipta út minniskubbnum og fá stærri og öflugri.  Þetta hef ég reynt með góðum árangri

Það er hinsvegar allt annað upp á teningnum með síðarnefnda heilann. Hann er staðsettur í kúlu sem með  hverju árinu sem líður verður útlitslega séð hrörlegri og hrörlegri. 
Fyrst var kúla þessi þakin dökku liðuðu hári sem náði yfir rúmlega helming kúlunnar og á hinum helmingnum var slétt skinn mótað eftir kúnstarinnar reglum og skreytt bæði með bláum lit, svörtum  og rauðum. Litir þessir hafa allir dofnað til muna og hárið gránar með hverjum deginum sem líður.  Skinnið sem áður var slétt er nú þakið í skorum, litlum og stórum og þarfnast daglegs viðhalds.  Minniskubburinn sem áður var ágætlega virkur og snöggur að finna upplýsingar og tilsvör virðist vera orðinn eins og gatasigti sem lítið finnst í.  Nöfn þýðir t.d.  ekkert að festa í honum lengur og aðrar upplýsingar sem á að geyma, er nú orðið vissara að skrifa á blað svo þær glatist ekki alveg.  Það versta er síðan með þennan heila að í hann er ekki hægt að fá neitt auka minni eða nýja uppfærslu.

Vitanlega þykir manni slæmt að vera með tæki sem smám saman ónýtist en samt er maður nú innst inni ánægður með gamla gripinn því maður hefur átt hann svo lengi og þykir orðið vænt um hann þó hrörlegur sé að verða.

Ég ætla því að halda viðhaldsvinnunni áfram og sjá hvort ekki megi notast við greyið í einhvern tíma enn.  Það er oft eitthvað vinalegt við gamla hluti, líka þá sem hafa aðeins rispast og látið á sjá í gegnum tíðina.

Ætli það sé ekki vissara að bjóða    Góða helgi  þó aðeins sé miðvikudagur, því minniskubburinn verður í hleðslu um helgina utan þjónustusvæðis.

Hamingjan felst í því að geta notið
regnsins í öllum sínum myndum
allt frá fíngerðum úða til úrhellis.

Ja nú reynir á að láta þessi orð sannast.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Tölvuheila er hægt að uppfæra og bæta við minnið en….

  1. Svanfríður says:

    Þú getur líka horft á það þannig að ef þú ert lengi í gang þá ertu bara mun betri þegar þú ert komin á ferð:)
    Myndin af ykkur Oddi og Sigurrósu er yndisleg og takk fyrir að leyfa okkur að njóta.
    Svanfríður.

  2. Heyr heyr..
    Ég hef sko séð þig.. þú ert falleg…held að heilinn sé líka fallegur, en auðvitað erum við ekki tvítugar, og vildum kannski alls ekki vera það. Góða helgi og dansið frá ykkur allt heilavit. Kveðja í kotið

  3. Amma mín var hagyrt og ég á margar rímur, vísur og stökur eftir hana.
    Datt þessi í hug þegar ég las þinn pistil;
    Hamingjan er ekki bundin
    aldri né árum
    hún er gefin og fundin
    bæði i brosum og tárum.

  4. Ragna says:

    Ekki á bömmer.
    Ég þakka kveðjurnar. Þið megið nú ekki halda að ég sé alveg á bömmer þó svona hugsunum skjóti stundum upp í kollinn á manni. Ég hef nefnilega þrátt fyrir allt þá trú, að það sé betra að eldast þó maður láti á sjá, heldur en að lífinu sé lokið áður en hrukkutímabilið hefst.

Skildu eftir svar