Svolítið skömmustuleg.

Það var einstaklega fallegt veðrið í gærmorgun. Allt hvítt og sólin skein í heiði, meira að segja á Hellisheiðinni. Ég varð því mjög undrandi þegar ég var í óða önn að undirbúa að aka til Reykjavíkur í saumaklúbb, að Sigurrós hringdi og sagði mér að það væri svo mikil snjókoma í Kópavoginum að hún sæi bara rétt í næstu hús.  Síðan hringdi mín allrabesta hún Edda Garðars og sagðist vilja láta mig vita að það væri farið að snjóa og hún væri með áhyggjur af mér að keyra í bæinn, en hún hefur alltaf áhyggjur af henni vinkonu sinni sem þarf að keyra yfir Hellisheiðina til að komast í saumó.  Hún Kolla sem býr í USA var í heimsókn á landinu og ætlaði að koma og hitta okkur og mig langaði svo til að komast og hitta hana og auðvitað allar hinar svo ég vildi ógjarnan hætta við að fara.  Ég stóð með símann í höndunum og horfði upp á sólbjarta Hellisheiðina og fannst það meiriháttar skrýtið að það snjóaði í Reykjavík en væri sól á Hellisheiðinni. Það var sko alveg öfugt við þetta venjulega. Það fóru nú að renna á mig tvær grímur, ekki síst fyrir það að ég þurfti að aka suður í Straumsvík til þess að skila sumarbústaðalyklinum og það er oft svo erfitt að komast aftur inn á Reykjanesbrautina til baka. Ég tvísté nú og vissi ekki hvað ég ætti að gera þangað til Haukur tók af skarið og sagðist skyldu keyra mig og fara með lykilinn í Straumsvík og heimsækja síðan Bjarna bróður sinn á meðan ég væri að saumónum. 

Mér var auðvitað létt að þurfa ekki að fara á litla Jazzinum í ófærðina í bænum, en var samt svolítið skömmustuleg yfir því að leiðin til borgarinnar var alveg snjólaus og síðan kom í ljós að enginn snjór var á götum borgarinnar heldur. Ég verð að játa að það gladdi mig síðan pínkulítið, þegar ég sá eftir að ég var komin í saumóinn, að það var farið að snjóa og mér fannst ég ekki eins mikill aumingi að hafa ekki þorað á mínum bíl. Sú snjókoma dugði hinsvegar skammt því það var ekki snjókorn á leiðinni austur aftur svo ég verð bara að sitja uppi með skömmina.  Hinsvegar held ég að Haukur hafi bara verið ánægður með ferðina fékk nýbakaðar vöfflur hjá Bjarna bróður og hitti síðan Borghildi dóttur sína.

Nú er ég búin að setja inn myndir úr saumaklúbbnum.

Hér eru þær skvísur sem hafa verið með mér í saumó í 43 ár.
frá vinstri Anna, Edda, Kolla, Fjóla og Sonja. Ásta gat ekki komið
og undirrituð var afsökuð, enda á bak við myndavélina.

saumo10jpg.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

10 Responses to Svolítið skömmustuleg.

  1. Sigurrós says:

    Tja, allur er varinn góður. Betra að fá far með hvíta riddaranum heldur en að sitja föst uppi á heiði í litlum Jazz 😉 Enda græddi Haukur vöfflur á ferðinni svo að þetta var allt í besta lagi 🙂

  2. Svanfríður says:

    Það er aldrei of varlega farið, þannig er það bara:)

  3. Anna Sigga says:

    Kvitta fyrir mig.
    Sammála báðum innleggjendum hér að ofan. Og þar fyrir utan skemmtilegra að vera ekki einn á ferð. Farðu vel með þig Ragna mín!

  4. Hulla says:

    🙂
    Pabbi elskar vöfflur og gerir þær bestu í öllum heiminum og líka lummur.
    Frábært að þið fenguð bíltúr saman.
    Mikið er það ótrúlegt hvað þú og Edda eruð líkar….
    Knús frá öllum hér 😀

  5. Ragna says:

    Vinkonusvipur.
    Já, það er ekki í fyrsta sinn sem við Edda Garðars erum taldar líkar þó svo að önnur sé með blá augu en hin með brún. En við höfum verið bestu vinkonur síðan við vorum stelpur og það er mikill vinkonusvipur með okkur það er ekki spurning.

  6. afi says:

    Engin skömm.
    Allur er varinn góður. Engin skömm að hafa vaðið fyrir neðan sig. Alltaf ætti góð aðstoð að vera vel þegin. Einkum þegar hún er boðin af heilum hug. Nú geturðu tekið aftur gleði þína eftir velheppnaða ferð suður.

  7. jamm
    Ég hélt við fyrstu sýn að þú værir númer tvö frá vinstri á myndinni, þurfti að skoða aftur… Vetrarakstur á Íslandi er ekkert grín, ég vil helst ekki fara af bæ á þeim tíma svo ég skil þig mætavel. Kveðja frá okkur Bróa

  8. Svanfríður says:

    hahaha-ég hélt líka að þú værir önnur frá vinstri!

Skildu eftir svar