Fyrsta verkefni ársins.

Mér hlotnaðist sá heiður eftir áramótin að fá að fara með hann Ragnar Fannberg í aðlögun á leikskólann. Þetta er heilmikið prógram og ég fékk stundaskrá til þess að vita nú alla tilhögunina. Hann nafni minn var sá eini af börnunum sem kom með ömmu með sér því foreldrar komu með hinum börnunum. En þegar maður á foreldra sem báðir eru kennarar og þeir þurfa að vera mættir á sama tíma til þess að taka á móti öðrum börnum,  þá er gott að luma á ömmu sem er sko alveg til í svona verkefni.

Amma hafði nú smá áhyggjur af því hvernig sá stutti myndi bregðast við því að eiga að vera skilinn eftir á ókunnugum stað. Áhyggjur ömmu voru hinsvegar óþarfar því  minn var svo spenntur að skoða allt sem í boði var og svo var hægt að kíkja út um gluggann og sjá bílana á planinu fyrir framan. Þar var bæði mjólkurbíll og lögreglubíll. Löggan var samt ekkert að eltast við mjólkurbílstjórann heldur voru hvorttveggja feður að leiða börnin sín fyrstu skrefin út í lífið. Eftir að hann nafni minn var búinn að skoða öll ljósin á staðnum, kíkja út um alla gluggana, skoða hvað var til af dóti  og sýna ömmu bókakostinn, þá var ömmu sagt það fyrst af öllum að þetta gengi nú svo vel að amma mætti fara frá í klukkutíma en koma þá aftur. 

 leiksk2jpg.jpg

Auðvitað var amma nú montin að vera fyrst send í burtu.  Þegar hún kom út þá þorði hún þó ekki annað en kíkja aðeins inn um gluggann til þess að sjá hvort allt væri í lagi, þá mætti hún augnaráði litla snúðs sem vinkaði glaðlega þá fór amma róleg í burtu þennan klukkutíma.

Það var ausandi regnveður og hvasst þennan dag svo ömmu datt ekki í hug að börnin yrðu látin vera úti, en þegar hún kom aftur eftir klukkutímann  voru börnin í aðlöguninni úti á leikskólalóðinni að leika sér. Amma áræddi, þrátt fyrir kvef og vesaldóm, að fara aðeins út og smella mynd af litla snúð þar sem hann var umkringdur yngismeyjum.

Hann var ekkert alveg á því að yfirgefa þennan flotta félagsskap, lái honum hver sem vill.

leiksk1.jpg

Amma fór með litla snúðinn áfram þessa tilskildu daga og hann var jafn sæll og glaður allan tímann og er enn. Nú er verkefni ömmu hinsvegar lokið en mikið er hún nú ánægð með að þetta skyldi vera fyrsta verkefni hins nýja árs.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Fyrsta verkefni ársins.

  1. Sigurrós says:

    Hann er svo duglegur hann frændi minn! 🙂

  2. Anna Sigga says:

    Ja, hérna hvað tíminn flýgur!
    Nafni þinn þarf greinilega ekki langan aðlögunartíma. En mikið sem tíminn líður eitthvað hratt, maður hefur varla undan að reyna að njóta hans. Mér finnst svo stutt síðan mínir drengir fæddust en þeir eru víst að verða 12 ára á árinu. Bestu kveðjur til frændfólksins.

  3. Ekki amalegt…
    að hafa fengið þetta ábyrgðar starf..svo gekk allt eins og í sögu! Flott hjá ykkur, Kær kveðja

  4. Hulla says:

    Mikið eru barnabörnin þín heppin að eiga þig sem ömmu 🙂 og þú að eiga þau.
    Það er ómetanlegt að eiga góða ömmu. Best af öllu 🙂
    Knús á þig og pabba frá öllum hér.

  5. Linda says:

    Það er aldeilis að hann nafni þinn er fljótur að aðlagast.. Enda hefur hann líka fundið að ömmu getur hann treyst og að hún myndi aldrei skilja við hann ef á stað sem honum myndi líða illa á..

    Bestu kveðjur,
    Linda

  6. afi says:

    Ábyrgð.
    Ábyrgð fylgir vegsemd hverri, Það er sannarlega ábyrgðarmikið hlutverk að vera amma. Og þér tekst það alveg ljómandi vel. Enda er drenghnokkinn mikill efnis piltur.

  7. þórunn says:

    Það er ekki amalegt að eiga ömmu eins og þig, en hvað tíminn flýgur mér finnst svo stutt síðan þú varst að gera eitthvað svipað með stærri stubbnum. Mikið varstu heppin hvað hann er duglegur, ömmur eiga stundum svo bágt þegar barnabörnin gráta og eru leið.
    Bestu kveðjur til ykkar Hauks frá okkur Palla, Þórunn

Skildu eftir svar