Slæmt og gott.

Ég hef nú svo sem ekki mikið til að tjá mig um því ég er búin að vera hálf slöpp sjálfsagt með einhverja af þessum blessuðu pestum sem eru í gangi. Þung í hausnum, illt í hálsinum og eitthvað ónóg sjálfri mér.


En eins og Pollyanna fann alltaf eitthvað gott þá ætla ég að bæta því við að það er frábært hvað henni Bylgju sjúkraþjálfaranum mínum tókst að rétta mig af og gera mig góða í bakinu á tiltölulega stuttum tíma.Svo nú get ég allavega hætt að væla yfir bakinu.  Nú er ég sem sagt orðin bein en ekki lengur svona mikið til vinstri. Mér var alveg hætt að standa á sama um hvað ég var orðin vinstri sinnuð.


Ég verð nú að fara að sætta mig við að vera komin með nýjan sjúkraþjálfara sem er líka góð á sinn hátt þó hún beiti öðrum aðferðum en hann Jakob.  Ég hafði nefnilega heimsins besta sjúkraþjálfara hann Jakob í meira en 15 ár og miða allt við það sem hann gerði og finnst hálfgert kák sem aðrir gera og ennþá sakna ég að hafa hann ekki í nálastungurnar. Mér leið alltaf svo vel með nálarnar í mér að það var undantekning ef ég steinsvaf ekki í þennan hálftíma sem nálarnar voru í. Ég hef ekki fundið það sama hér í nálastungunum.  En miðað við þetta síðasta afrek Bylgju þá verð ég að fara að meta hana meira þó aðferðirnar séu aðrar. Maður er bara svo vanafastur og íhaldssamur að engu má breyta.


Það stendur til að fara á villibráðarhlaðborð í Perluna annað kvöld með Ingunni, tengdamömmu, Ingabirni og hinum systkinunum og þeirra mökum.  Ég verð bara að sjá hvernig heilsan verður því það er lítið gaman að fara á flott hlaðborð og vera svona óhress. Það er best að sjá hvernig ástandið verður í fyrramálið.  Allavega verð ég að vera orðin hress á sunnudaginn því þá ætlar stórfjölskyldan að borða saman og kveðja Ingunni sem fer aftur heim eftir helgina. Já tíminn er fljótur að líða. Mér fannst hún bara vera að koma en það eru komnar þrjár vikur.


Best að koma sér í bólið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar