Nýtt slátur, nammi namm.

Jæja, þá er maður nú enn búinn að bæta við ári í lífshlaup sitt. Ég fékk margar góðar hringingar í gær, verst var þó að missa af hringingunni frá Eddu Garðars, sem hringdi meðan ég var í sjúkraþjálfuninni. Hún virðist nefnilega stödd í útlöndum allavega kom 00 354 á undan númerinu svo það fer ekki á milli mála. Spennandi að vita hvar hún hefur verið. Edda og Jón komu og fengu sér kaffi. Haukur kom úr bænum og síðan komu Guðbjörg og krakkarnir og Kjartan gaf sér smá tíma frá klippingunum til að skreppa í kaffisopa. Það er nú eitt af því góða hérna á Selfossi að maður er aldrei nema 2 – 3 mínútur að skreppa á milli staða. 


Loks kom svo Jens pabbi Jóa, en sem betur fer vissi hann nú ekki að það væri afmæli. Hann var að sækja sófa sem Guðbjörg kom hvergi fyrir eftir samruna þeirra Kjartans, en samkvæmt mælingum passar hann fínt hjá Sigurrós. Ég hefði átt að setja miða undir þennan sófa og skrifa á hann hvar hann  hefur verið því þessi annars ágæti leðursófi virðist altaf vera á hrakhólum og er miskunnarlaust komið í fóstur út og suður. Sigurrós og Jói eru alsæl að vera búin að fá hann núna svo vonandi verður hann um kyrrt.


Haukur bauð mér svo á Steikhúsið í gærkvöldi. Sem sagt fínn dagur.


Ég fór til þess að kveðja Ingunni á sunnudaginn en sleppti því að fara á villibráðahlaðborðið á laugardaginn. Alltaf gaman að hitta allt tengdafólkið mitt. Nú er Ingunn komin til Chicago til að dvelja þar í viku hjá gamalli vinkonu (á áttræðisaldri).


Jæja,, nú veit ég hvaðan Edda mín Garðars hringdi í gær því hún náði í mig í dag.  Hún var stödd í Kóngsins Kaupmannahöfn. Ég heyri meira um það í næstu viku því þá verður saumó hjá henni.


………….


Okkur var boðið í nýtt soðið slátur hjá Eddu systur minni og Jóni í kvöld. Nammi, nammi, namm.  Mikið er langt síðan maður hefur fengið nýtt slátur. Ég er sjálf alveg hætt að gera slátur. Ég hætti því þegar ég átti nánast allt eftir frá því haustið áður. Þá fannst mér sjálfhætt að standa í þessu. En mikið finnst mér þetta góður matur.


Jæja, best að fara að koma sér í rúmið. Ég er að fá svo mikinn hálsríg, hef líklega eitthvað misteigt mig í leikfiminni í dag. Þá er ég að verða komin hringinn með þetta gigtarvesen mitt. Fyrst öxlin síðan bakið og þá hálsinn. Það mætti halda að ég væri farin að vinna aftur. Ég ætla að bera á þetta hitakrem svo ég verði orðin góð á morgun.


Bless í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Nýtt slátur, nammi namm.

  1. Anna says:

    Já, slátur er nammi, namm!
    Sæl Ragna mín!
    Til hamingju með miðvikudaginn. Það er alltaf gaman að kíkja í heimsókn og lesa hvað þú ert að bralla, en bráðum verður það ekki nóg, held að ég fari að vinna í því að komast í heimsókn!!! Farðu vel með þig. Bestu kveðjur.

Skildu eftir svar