Léleg frammistaða.

Já það er orðin mjög léleg frammistaðan hjá mér við Dagbókina mína. Ég hef svo sem haft ýmsar afsakanir en þetta er svona eins og hvað annað sem verður vani að gera og svo dettur maður af einhverjum ástæðum út úr vananum og þá er eins og það sé svo erfitt að koma sér í vanann aftur. Ég er allavega orðin skriffær svo ég get ekki notað það sem afsökun.


Finnst ykkur ekki að það sé verið að flýta um of jólunum eða er ég bara svona gamaldags. Eru ekki fleiri sammála mér að auglýsingar og annað tilheyrandi jólunum mætti bíða þar til aðventan byrjar. Það á t.d. að kveikja á jólaljósunum hérna í bænum á morgun. Frænka mín á lítinn 5 ára snáða sem er svo gagntekinn af öllu jóladótinu í Blómavali og víðar að hann er ekki mönnum sinnandi af því mamma hans vill ekki fara að skreyta íbúðina hátt og lágt strax. Ég held það bitni einmitt mest á börnunum að flýta svona öllum auglýsingum og skreytingum. Það er langur tími fyrir barn frá nóvemberbyrjun til jóla þegar endalaust glymja auglýsingar um að jólin séu að koma.


Hins vegar má kannski segja að það sé allt í lagi að kveikja á útiseríum í byrjun aðventu til að lýsa upp svartasta skammdegið. Þetta var nú kannski helst til íhaldssamt hérna áður þegar ekki mátti kveikja á útiseríum fyrr en svona viku fyrir jól.


Ég er að skreppa í bæinn í dag til þess að fara í saumó til Eddu vinkonu minnar í kvöld og til að líta inn hjá gömlu konunum mínum sem ég reyni að heimsækja áður en ég fer í saumaklúbb. Það er svona rúnturinn þegar ég fer til Reykjavíkur að fara til Tótu á Ásveginn og til tengdamömmu og enda svo í saumaklúbb. 


Ég vona bara að það verði mesti ísinn farinn af götunum. Það er bara ein glæra að sjá hérna eftir götunni núna í morgunsárið. Ég tek reyndar stikkprufu á því á eftir þegar ég fer í sjúkraþjálfunina en mikið er ég nú fegin því að Haukur lét setja nagladekkin undir hjá mér strax og fyrsta snjófölin kom.


Kannski lít ég líka aðeins til Sigurrósar sem er heima með hvílíka hæsi að hún kom varla upp orði í gær. Við urðum að notast við MSN til þess að geta spjallað saman. Þess vegna segi ég kannski,  því ég veit ekki hvernig ástandið er í dag. Læknir sem hún talaði við í gær sagði henni bara einfaldlega „að þegja“ ef hún ætlaði að verða góð. Sjálfsagt ódýrt og gott læknisráð en svoldið erfitt sérstaklega þegar um kennara er að ræða sem ekki vill vera lengi frá „börnunum sínum“.


Guðbjörg og Kjartan eru búin að koma sér ágætlega fyrir og líklega er góður andi í húsinu hjá þeim því Oddur sem hefur verið að vakna allar nætur og koma uppí til mömmu sinnar sefur nú eins og steinn.


Best að hætta þessu og fara að taka sig til fyrir Reykjavíkurferðina.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar