Stórmarkaðafælnin.

Jæja þá er ég nú komin heim úr Reykjavíkinni. Þetta var nú svona frekar hefðbundið hjá mér. Ég byrjaði hjá Tótu og drakk þar a.m.k. þrjá kaffibolla og borðaði súkkulaðirúsínur og allskonar nammi með. Það er svo sorglegt þegar maður finnur þetta skýra gamla fólk byrja að tapa minni og segja manni a.m.k. þrisvar sama hlutinn.  Þetta fann ég núna með hana Tótu mína. En þetta gamla fólk sem býr enn heima er svo þakklátt ef maður lítur inn að það gerir bara ekkert til þó maður hlusti á það sama þrisvar sinnum á sama eina og hálfa klukkutímanum.


Ég fór til að heimsækja tengdamömmu og Ingabjörn en þar var enginn heima. Ég frétti svo í dag að hún var að láta klippa sig og lita á sér hárið. Já hún vill sko hafa þetta allt í fínu standi.


Ég var nú í hálfgerðu reiðileysi þegar í ljós kom að tengdamamma var ekki heima Ég ætlaði að koma snemma í saumóinn og prufaði að hringja til Eddu G en það svaraði enginn. Um kvöldið kom svo í ljós að ég var með vitlaust númer í gemsanum mínum, nefnilega vinnusímann hennar en hún vinnur bara til hádegis. 


Stórmarkaðirnir.


Ég átti um tvennt að velja þarna klukkan rúmlega fjögur. Annað var að nota nú tímann og fara í Kringluna eða Smáralind og hitt var að fara í Hafnarfjörðinn, en Haukur var á kvöldvakt svo ég vissi að það væri enginn heima þar. Þegar til kastanna kom þá bara gat ég ekki hugsað mér að fara í Kringluna eða í Smáralindina. Ég veit bara ekki hvað það er með mig og stórmarkaði. Ég vil bara gera allt annað en þvælast þangað. Það er helst að ég fari ef ég þarf að ná í ákveðinn hlut sem ekki fæst annars staðar eða ef ég fer með einhverjum og hvorugur aðilinn þarf að gera neitt sérstakt. Þá er hægt að rölta einn hring og fá sér kannski kaffi og skoða mannlífið. En í gær bara dreif ég mig í Hafnarfjörðinn og slappaði af þangað til ég fór í saumóinn. Það beið mín nú „surprize“ í saumaklúbbnum, afmælispakki, yndislegt ljóst ullarsjal eða svona trefill með kögri sem Edda var að gefa mér og æðisleg dönsk jólaklippimynd. Ástarþakkir enn og aftur Edda mín. Ég er nú ekki mikið fyrir að byrja of snemma að skreyta en ég bara varð að hengja myndina upp strax og ég kom heim.


Guðbjörg og Karlotta litu svo inn þegar ég var nýkomin heim og Karlotta hafði meðferðis litlar brauðbollur sem hún bakaði í heimilisfræði í skólanum. Ekki fékk maður nú matreiðslukennslu þegar maður byrjaði í barnaskóla. Þetta er frábær þróun.


Svo var bara að drífa sig í sundleikfimina. Í kvöld datt ég svo gjörsamlega í þá spennu að fylgjast með því hvora þokkadísina „Bachelorinn“ á Skjá 1 veldi sér sem verðandi eiginkonu. Ég tel að hann hafi nú valið þá sem var, hvað á maður að segja, betri kvenkostur, en maður hélt allan tímann að hann væri svo hrifinn af hinni og myndi velja hana.  Alveg er það makalaust að maður skuli detta niður í að fylgjast með svona rugli í margar vikur.


Nú er best að koma sér í rúmið og safna kröftum og reyna að vera duglegur á morgun. Ég er alltaf á leiðinni að bera aftur á gluggana hjá mér innanverða. Kannski ég láti nú verða af því fyrst ég er búin að setja það í dagbókina mína.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar