Geta skal þess sem vel er gert.

Það er oft talað um unglingana okkar þegar eitthvað neikvætt er í gangi en sjaldnar er getið um góða hluti.  Ástæða þess að ég geri þetta að umræðuefni er sú að mig langar til að tala jákvætt um unglinga. Það er nefnilega mikið af ungu fólki að gera svo góða hluti og stunda af kappi íþróttir, dans og tónlist. Það er hinsvegar sjaldnar sem talað er um þessa jákvæðu hluti. Þó er ég ekki frá því, þegar ég hugsa um það, að neikvæð umræða í garð unglinga hafi heldur minnkað á síðustu árum.  

Eins og fleiri á þessum árstíma var ég í fermingarveislu s.l. sunnudag. Það var verið að ferma hann Sindra Snæ ömmubarn systur minnar.  Þetta er mikill fyrirmyndardrengur sem er í tónlist, íþróttum og æfir af kappi dans þar sem hann hefur unnið til verðlauna. 

Mér fannst þessi fermingarveisla svo skemmtileg fyrir það að það voru unglingar sem komu fram með skemmtiatriðin fyrir gestina.  Fermingardrengurinn ávarpaði sjálfur gestina með nokkrum orðum og bauð velkomna, eftir að hafa staðið með foreldrum sínum við útidyrnar og heilsað öllum sem komu inn.  Vinur hans spilaði síðan á píanó.  Nokkru síðar söng Edda Karen frænka hans svo fallega tvö lög og loks var sýnt myndband af Sindra Snæ og dansdömunni hans taka nokkra dansa. Þau höfðu ætlað að sýna dans í veislunni en dansdaman hans gat ekki komið og því var brugðið á það ráð að taka atriðið upp.

Amma hans sagði mér síðan daginn eftir, að um kvöldið þegar hann fór að taka upp gjafirnar þá hafi  honum fallist hendur og sagt að þetta væri allt of mikið sem hann hefði fengið.

Ég mátti til með að nefna þetta því það er allt of oft sem maður heyrir bara um neikvæðu hlutina. Það eru líka til jákvæðir hlutir og það á ekki að þegja yfir þeim. Ég óska Sindra Snæ til hamingju og óska honum allra heilla í framtíðinni. Vilborg og Óli þið eigið fyrirmyndar ungling.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Geta skal þess sem vel er gert.

  1. Vilborg says:

    Sæl Didda.
    Takk fyrir síðast og góð orð hér á síðunni þinni. Við vorum alsæl með daginn og mjög stolt af Sindra Snæ eins og alltaf. Ég er sammála því að við eigum að hrósa unglingunum fyrir það jákvæða sem þau gera, hef t.d. oft hugsað um það þegar við erum að koma heim af unglingalandsmótinu um verslunarm.helgina, þá eru fjölmiðlar fullir af sögum um drykkju og neyslu unglinganna en lítið minnst á þau mörg þúsund unglinga sem voru að stunda íþróttir alla helgina.
    Kveðja,Vilborg

  2. þórunn says:

    Vel mælt
    Þetta fannst mér falleg færsla, ég er sammála þér það má tala mikið meira um það sem vel er gert. Það er allt of mikið af neikvæðum fréttum, hvert sem litið er. Gaman að heyra frásögnina af þessum dreng og vinum hanns.

    Kveðja
    Þórunn

  3. flottur..
    Þetta er flottur strákur sem veit hvað hann syngur. Góða helgi mín kæra.

Skildu eftir svar