Kæra dagbók.

Ég er enn ekki farin að prufa strætóinn því ég er enn haltrandi og ætla því að bíða þar til ég er viss um að geta komist inn í strætóinn og út úr honum aftur. Ég fór til Jakobs sjúkraþjálfara í dag. Hann var ekki ánægður með ástandið á mér og sagði að ég væri öll skökk. Verkurinn líkist mjög brjósklosverk, en ég ætla nú að leyfa mér að vera bjartsýn á að hinn möguleikinn sem er sá, að þetta sé svona mikil bólga í festingum og klemmi taugina niður í fót, sé ástæðan. Það skýrist vonandi þegar ég hitti gigtarlækninn á fimmtudaginn. Ég var slæm af þessu þegar við fórum til Tenerife en þá dugðu bólgueyðandi lyfin til þess að við gátum notið lífsins þar. Nú ætla ég bara rétt að vona að þegar ég er komin svona nálægt gamla sjúkraþjálfaranum mínum og gigtarlækninum, þá verði fljótt og vel hægt að koma mér í gott stand svo ég geti farið að dansa, hamast í ræktinni með Hauki og njóta lífsins á nýja staðnum eins og til stóð.   Annars kemur þetta mér nú ekkert á óvart eftir flutningana. Við mjötluðum nefnilega öllu öðru en stóru hlutunum sjálf að austan og Þeir eru sko þó nokkrir kassarnir og dótið sem við erum búin að bera fyrir utan það að pakka öllu niður. það hefði frekar verið ótrúlegt ef þetta hefði engin áhrif haft á gamla gigtarskrokkinn.  Þetta eru bara timburmennirnir  og ég get bara sjálfri mér um kennt.

Ég vona að í fyrramálið verði ég í góðu standi til að keyra, því mér er boðið í morgunkaffi til Ingunnar Ragnars vinkonu minnar en nú ætlum við aftur að taka upp þráðinn og hittast reglulega þrjár gamlar (síungar) vinkonur eins og við vorum vanar að gera áður en ég flutti austur.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Kæra dagbók.

  1. Timburmenn!
    Jamm.. vonum það. Lærum við aldrei að við getum ekki gert það sama í dag og fyrir 30 árum án þess að finna fyrir því? Slappaðu af, en mundu að dans er líkamsheilsubætandi. Langt orð, en gulls ígildi. Kveðja úr mínum bæ.

  2. Sigurrós says:

    Ekki líst mér á ástandið á þér! En Árni og Jakob hljóta að ná að kippa þér í lag, því ef þeir ná því ekki, hver getur það þá?

    En hins vegar líst mér mjög vel á ykkur „stelpurnar“ að ætla að fara að hittast reglulega á ný 🙂

Skildu eftir svar