Góða helgi.

 Eftir þetta vanalega nudd og þrýsting á mína aumustu punkta, sem hann Jakob sjúkraþjálfari er svo fundvís á, og eftir að hafa legið í hálftíma með nálar sem stungið hafði verið á nokkra auma staði, þá lá ég reyrð niður á togbekkinn næsta hálftíma með eitthvað það bundið um iljarnar sem gaf rafstraum upp fæturna, mænuna og líklega alla leið upp í heila.  Eg held allavega að það hafi leitt upp í heila, því ég er ekki frá því að meðan á þessu stóð þá hafi  örvast eitthvað heilastarfsemin. Ég fór nefnilega allt í einu að muna eftir ýmsu sem ég gæti skrifað um í dagbókina mína.
En núna, þegar ég settist við tölvuna til þess að skrifa eitthvað af þessum góðu hugmyndum á síðuna mína, þá er allt gjörsamlega tómt í heilabúinu og  ekki týra á nokkurri peru.  Ég er með tvær ágiskanir um hvað hafi komið fyrir. Annars vegar,  að heilasellurnar hafi örvast tímabundið við rafstrauminn eða  hins vegar,  að það litla sem var á lífi í kollinum á mér áður en ég fór á píningarbekkinn í morgun, hafi brunnið yfir við rafstrauminn.  

Nú ætla ég að leggjast á minn tóma haus og sjá hvað gerist á morgun, eða hinn, eða hinn. Reyni að missa ekki vonina um að það kvikni aðeins á einhverri perunni aftur.

Ég segi bara góða nótt og  góða helgi.  

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar