Á að stimpla alla fyrir einn ?

Okkur var boðið í heimsókn  á sunnudegi fyrir viku síðan til hennar Össu (eins og við köllum hana), sem nú býr í íbúðinni hans Hauks.

Það er alltaf öðru hvoru verið að hnýta í þá útlendinga sem hér eru.  Ég hef ekki verið neinn eftirbátur annarra í þeim efnum, þó engan útlending hafi ég þekkt.  Ég er á þeirri skoðun að allls ekki eigi að hleypa hverjum sem er inn í landið, því það er misjafn sauður í mörgu fé og allt of margir slæmir sauðir hafa ratað hingar eftir að allt opnaðist með Shengen.

Margir útlendingar koma hingað í atvinnuleit vegna þess að í heimalöndum þeirra er bæði atvinnuleysi og léleg laun í boði, ef einhver vinna fæst.    Okkur hefur jú vantað fólk til starfa  og því hefur þetta fólk verið velkomið, oft á tíðum til þeirra starfa sem íslendingar eru orðnir of fínir til að vinna, eins og umönnun á elliheimilum og hvers konar hreingerningar svo dæmi séu tekin.   

Svo ég víki nú aftur að henni Össu, þá er hún gott dæmi um þetta duglega, heiðarlega fólk sem hefur komið hingað til vinnu, en Assa er Pólsk. Betri leigjanda  er ekki hægt að hugsa sér, greiðslurnar koma alltaf á nákvæmlega réttum tíma og hún hugsar svo vel um íbúðina og innbúið hans Hauks, að ekki væri hægt að gera það betur. Það getur nefnilega verið svolítið mál að leigja íbúðina sína með öllu sem í henni er og ekki alltaf sem það gengur allskostar vel.  En þau skipti sem við höfum komið í íbúðina eftir að Assa flutti í hana þá er alltaf allt í röð og reglu og tandurhreint hvert sem litið er.  Áður en hún fór til Póllands í jólafrí þá hafði hún samband og sagði að við gætum farið í íbúðina og notað hana ef við þyrftum á meðan hún væri í burtu.- Hún væri alls ekki að fara fram á það að borga ekki leigu í þessar vikur sem hún yrði í burtu, bara að láta okkur vita.

Fyrir páska þá sendi hún okkur fallegt kort þar sem hún óskar okkur gleðilegra páska og á sunnudaginn þá bauð hún okkur sem sagt í heimsókn og þegar við kvöddum eftir að hafa drukkið kaffi hjá henni og spjallað góða stund, þá rétti hún  Hauki fallega öskju með rosalega góðu pólsku konfekti sem hún keypti í Póllandi í síðustu heimsókn þangað. Á öskjunni var lesning og sagði hún okkur að þessi lesning þýddi á Pólsku að þetta væri gefið frá hjartanu. Það sé pólskur siður að gefa svona konfekt þeim sem manni þyki vænt um.  Hún sagðist líka hafa keypt litla gjöf handa okkur, en sagðist ætla að koma með hana til okkar í Kópavoginn. Við vorum nefnilega margbúin að segja henni endilega að heimsækja okkur ef og þegar hana langaði til. Hún kemur að öllum líkindum á sunnudaginn eftir viku.

Mér finnst svo gaman að fylgjast með þessari ungu stúlku sem hugsar að mörgu leyti öðruvísi en margt ungt fólk hér á landi gerir.   Hún er t.d. búin að gera þá áætlun að hún ætli að kaupa sér hér íbúð árið 2010. Hún þurfi bara að halda áfram að SPARA og SPARA. Hún vinnur bæði í Himnesk Hollusta og var að bæta við sig starfi hjá Grænum Kosti, fyrir utan það að hún vinnur við að þrífa hjá nokkrum fjölskyldum. Hún er mjög ánægð með að geta tekið sér frí á sunnudögum, en það er eini frídagurinn. Svo segist hún stundum komast í sundlaugarnar á kvöldin.

Hún er svo hamingjusöm með þetta líf hérna á Íslandi og það að hafa vinnu og fá góð laun (að hennar mati), svo hún geti sparað fyrir eigin íbúð 2010. 

Ég hef ekki kynnst persónulega neinum öðrum útlendingum sem hafa sest hérna að, en oft hef ég myndað mér neikvæða skoðun þegar ég heyri fréttir af glæpum sem framdir eru af útlendingum sem hér eru.  Því vissulega hefur of mörgum slíkum verið hleypt inn í landið og þeir setja blett á hina sem ekkert hafa sér til sakar unnið og eru heiðarlegt og gott fólk.

En nú hef ég lært það af kynnum mínum af Össu, að það má alls ekki stimpla alla fyrir einn.  Unga fólkið okkar mætti læra mikið af svona stúlku sem veit að peningar vaxa ekki á trjánum, heldur þarf að vinna fyrir þeim.  Það þurfi að fara vel með hlutina og  það þýðir ekki kaupa fyrst og hugsa um peningamálin seinna.

Svo mörg voru nú þau orð.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Á að stimpla alla fyrir einn ?

  1. þórunn says:

    Heppin
    Þið voruð sannarlega heppin að fá svona góðan leigjanda. Já maður er stundum of fljótur að dæma fólk, og hefur gott af því að sjá að ekki eru allir eins. Margir hefðu gott af því að fara í kennslustund hjá svona hagsýnu fólki eins og Assa er.
    Bestu kveðjur frá okkur í Austurkoti
    Þórunn

  2. satt og rétt.
    Það er sem betur fer til fólk eins og Assa. Við vorum með pólskan kennara hér í 3 ár, hann byggði sér hús í Póllandi fyrir íslensku launin! Lifði líkt og Assa, og var góður maður. Kær kveðja í bæinn.

  3. Ingunn says:

    Ég held að flestir Pólverjar séu hið fínasta fólk. Þeir hafa verið á Íslandi í fleirri fleirri ár og aldrei verið neitt vesen. Ég var sjálf að vinna með mörgum pólskum á Hótel Holt og þær voru duglegustu starfskraftar sem ég hef séð.
    Málið er ekki að loka landamærunum heldur laga þennsluástandið sem gerir það að verkum að allir sem vilja komast í vinnu hér, vinnuveitendur voru(eru) hættir að geta valið úr.

  4. Svanfríður says:

    Allt sem þú segir er hárrétt. Ég fyllist oft gremju í garð þess fólks sem lifir lífinu eins og við-og þá eins og Assa-vinnur hörðum höndum, skilar sínu og er heiðarlegt-en fær álút augnalit vegna þess eins að það er af erlendu bergi brotin. Ég get skilið þetta fólk, því eins og Kermit sagði; it’s not easy being green.

Skildu eftir svar