Engin fyrirsögn.

Það er nú ýmislegt á döfinni og það er gaman að eiga góða hluti í vændum, en ég ætla samt að vera svo vond að draga ykkur aðeins á frekari fréttum.

—————————–

Enn er ég ófær um að taka þátt í líkamsræktinni og dansinum vegna fjárans brjósklosins sem enn vill ekki gefa sig, en þrátt fyrir allt hef ég þó náð að gera ýmislegt skemmtilegt. T.d. að fara í afmæli systur minnar á Selfossi, í saumaklúbb og kemst vonandi aftur í afmæli á morgun.  Allt í lagi á meðan ég er ekki að ganga mikið um.

En best líður mér auðvitað á daginn, sérstaklega fyrri partinn. Svo framarlega sem ég er ekki eitthvað að pjakkast og gera hérna heima, því  þá er fj…. laus og allt fer aftur í klemmu.

Það er greinilegt að ég þarf að hafa góða þjónustu í kringum mig og það gæti ég haft, ef ég bara kynni að nota mér hana. Það er bara svo, að ég hef aldrei lært þá kúnst að láta aðra snúast í kringum mig og þoli bara ekki að sitja og láta þjóna mér –  svo framarlega sem ég get á einhvern hátt gert hlutina hjálparlaust.  

Það er sem sé nokkuð augljóst að ég á einhverja sök á því sjálf, að vera ekki orðin góð. Sjúkraþjálfarinn sagði mér nefnilega að ef ég vildi sleppa við að fara í aðgerð, þá væri best að liggja í rúminu á meðan brjósklosið gengi yfir.  
Ég get bara ekki hugsað mér að liggja í rúminu alheilbrigð, bara af því að ég er með verki og leyfi mér að emja þegar ég hósta eða hnerra því það er svo svakalega sárt og á öðru hvoru erfitt með að stíga í fótinn. Nei, það er bara eitthvað sem ég get ekki. 

Ég ætla samt að reyna að breyta um hugarfar (eftir Hvítasunnuna) ef það gæti komið að gagni, svo ég geti lært að koma mér í það hugarástand að ég sé drottning með þjón á hverjum fingri.  Ég eigi bara að gefa fyrirskipanir, halla mér makindalega afturábak í stólnum og bíða þess að mér sé þjónað. Síðan fari dagurinn í það að bíða eftir því að tíminn líði fram að næsta matar eða kaffitíma, eða því að fara að sofa á kvöldin.  Úff, tilhugsunin er skelfileg.

Njótum helgarinnar
í því ástandi sem við erum.
Hugsum um það hvað við eigum þrátt fyrir allt gott,
því svo margir hafa það miklu verra.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Engin fyrirsögn.

  1. Sigurrós says:

    Nú hlýðir þú Jakobi og liggur þetta af þér! Ég á nóg af spennandi hljóðbókum handa þér svo að þér ætti ekki að leiðast. Kem með þær við fyrsta tækifæri.

  2. Ragna says:

    Takk, takk Sigurrós mín, en þú tókst vonandi eftir því að ég sagði „Eftir Hvítasunnu“.

  3. Guðlaug Hestnes says:

    vertu nú góð
    Brjósklos er ekki þægilegt ástand, og fyrir alla muni gerðu eins og þér er sagt. Var sjálf skorin fyrir 10 árum…7 9 13, hef ekki fundið til síðan. Góða helgi, en ég er forvitin!

  4. Ragna says:

    Já Guðlaug mín, auðvitað ætti ég líka að hafa lært af reynslunni búin að fá brjósklos tvisvar áður og verið skorin einu sinni. Nú er þetta á þriðja staðnum. Það er alla vega fjölbreytni í þessu.

Skildu eftir svar