Óvænta afmælisveislan í dag.

Hún Sonja í saumaklúkbbnum varð 70 ára í gær föstudag. Það hittist nú svo á að það var saumaklúbbur hjá henni á mánudaginn og þá spurðum við hana hvort hún ætlaði að halda eitthvað uppá afmælið á föstudaginn. Nei, hún sagðist bara ekki nenna að hugsa um það og ætlaði bara að vera heima í rólegheitunum og fara kannski til dóttur sinnar í fjölskyldukaffi á laugardaginn því barnabarn hennar ætti afmæli þá.

Það sem hún vissi hinsvegar ekki var það, að dætur hennar voru á fullu að skipuleggja óvænta afmælisveislu fyrir mömmu sína og það var sem sé búið að bjóða okkur saumaklúbbssystrum að mæta. Við vinkonurnar urðum því að vera með pókersvip og passa að tala ekki af okkur svo ekkert kæmist óvart upp.

Eftir saumaklúbbinn hjá Sonju á mánudaginn þá ókum við á næsta stóra bílaplan og tróðumst þar allar inn í einn bíl til þess að þurfa ekki að standa úti í rokinu og rigningunni sem þá var.  Þar héldum við svo fund til þess að ræða um það hvað við ættum að gefa afmælisbarninu í gjöf og skipulagið á því.  Allt voða spennandi.

Í dag var svo laugardagurinn kominn. Allt var klárt og mikið hlakkaði ég til að fara, tók bara meira af sterka Ibufeninu og var til í slaginn. Við vinkonurnar vorum mættar fyrir klukkan þrjú og þá streymdi að gestina og allir að flýta sér til að vera komnir á réttum tíma því það átti síðan að sækja afmælisbarnið (sem betur fer er ekki á bíl sjálf) og þá áttu allir að vera mættir. Þegar gefið yrði merki áttu allir að steinþegja og barnabarn hennar átti að setja á uppáhaldslagið hennar og það var það eina sem hún átti að heyra þegar hún kæmi inn, bakdyramegin því þá kæmi hún inn í eldhúsið sem síðan er opið inn í stofuna. 

Hún Sonja okkar er nú þekkt fyrir annað en það að verða orðlaus, eða að láta hlutina koma sér úr jafnvægi. Núna missti hún hinsvegar gjörsamlega málið og undrunarsvipurinn á henni var óborganlegur þegar hún kom inn og sá alla gestina sem biðu eftir henni.  Ég vona bara að myndirnar hennar Eddu vinkonu komi vel út. Ég hlakka mikið til að sjá þær.

Við vorum búnar að vera með getgátur um það hver viðbrögð Sonju yrðu þegar hún sæi alla gestina. Hvort hún yrði kannski reið og færi út aftur og skellti á eftir sér.  En sem betur fer þá brást hún ekki við með þeim hætti heldur varð auðvitað strax hrókur alls fagnaðar og naut þess að heilsa upp á það fólk sem hefur verið samferðafólk hennar í gegnum tíðina, ættingja, vini og vinnufélaga.

Ég varð að fá að deila þessu með ykkur því þetta var svo skemmtilegt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Óvænta afmælisveislan í dag.

  1. þórunn says:

    Það er gaman að taka þátt í svona óvæntri uppákomu, hef prófað það.
    Það var gaman að heyra af þessu afmæli.
    Góð kveðja frá „vinnuhjúunum“ í Austurkoti.
    Þórunn

  2. Svanfríður says:

    Ohh,það er svo gaman að koma öðrum á óvart:) Gott að allt gekk vel og vonandi fer þér að skána líðanin.Kossar til þín, Svanfríður

  3. afi says:

    Stóra spurningin.
    Það er kannski álitamál hvort hafi skemmt sér betur, afmælisbarnið eða gestirnir, á þessari óvæntu uppákomu.

Skildu eftir svar