Svo gaman í dag.

Ég get nú ekki á mér setið að segja minni kæru dagbók frá því hvað dagurinn var skemmtilegur hjá okkur.

Þegar við vöknuðum í morgun þá ákváðum við að gera eitthvað skemmtilegt í dag. það var úr mörgu að velja, en við ákváðum að byrja á afmæli Hafnarfjarðar. Það var látlaust búið að auglýsa afmælisveisluna og þar sem Haukiur á nú taugar til Hafnarfjarðar byrjuðum við auðvitað þar. Þeir mega hins vegar eiga sína afmælisveislu fyrir okkur því það eina sem við gerðum þar var að vera stopp í umferðarhnút þar sem götur í miðbænum voru allar lokaðar og engin löggæsla til þess að greiða úr umferðinni.  Þegar við, eftir hálftíma stopp á Suðurgötunni, komumst loks áfram ákváðum við að vera ekkert að púkka upp á svona afmælisboð og fara í Perluna og fá okkur kaffi þar. Það sveik okkur ekki kaffið og meðlætið þar frekar en fyrri daginn og sátum við þar í góða stund og horfðum út í Nauthólsvíkina og létum okkur dreyma um komandi sólardaga þar á ylströndinni.

Síðan var tilvalið að athuga hvað væri í gangi á hafnarbakkanum í Reykjavík. Eftir smá viðkomu í Kolaportinu þar sem sóttar voru nýjar flatkökubirgðir, komum við á hafnargarðinn. Þar stóð yfir Karoki-keppni og ung telpa söng þar af mikilli innlifum.
Þar sem við stóðum þá tókum við eftir því að Sæbjörgin nýja var að leggja að bryggju og fólk streymdi frá borði. það var greinilegt að um skemmtisiglingar fyrir almenning væri að ræða svo við ákváðum að fara í næstu ferð.  það var rosalega gaman að sigla út á sundin og geta virt fyrir sér höfuðborgina frá sjó.

Á heimleiðinni komum við svo aðeins í dyrnar hjá litlu fjölskyldunni í Arnarsmáranum og síðan heim í hreiðrið, rétt mátulega til þess að horfa á handboltaleik í sjónvarpinu Ísland-Pólland og því miður virðist Pólland ætla að vinna okkur. Ég var orðin pirruð á stöðunni í leiknum og ákvað að fara bara í tölvuna.

Það var bara eitt í dag sem klikkaði.
Myndavélin varð eftir heima – Alveg ófyrirgefanleg yfirsjón.  

Spenningurinn fyrir morgundeginum eykst svo með hverjum klukkutímanum en Selfossfjölskyldan er væntanleg til borgarinnar með allar eigur sínar í hádeginu á morgun, eða um klukkan eitt. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar