Að gefnu tilefni. – Endilega farið yfir VISA yfirlitin.

Mig langar til að benda ykkur á að fara mjög vel yfir VISA yfirlitin ykkar og athuga hvort þar er eitthvað sem þið kannist ekki við.  Ég nota VISA kortið mitt mjög lítið en þó aðallega þegar ég ferðast erlendis.

Ástæða þess að ég vara ykkur við er sú, að ég fékk VISA-yfirlit um síðustu mánaðamót og  rak þá augun í færslu sem þar átti greinilega ekki heima. Hún var upp á kr. 23.000  frá fyrirtæki sem ég hef aldrei heyrt nefnt. Ég hringdi strax í bankann og spurði hvað þetta væri. Jú, þetta var fraktflugfélag. Þjónustufulltrúinn spurði mig hvort ég hafi ekki verið að senda eitthvað til eða frá Riga því þetta félag væri skráð þar.  Ég bað hana að loka strax kortinu mínu því þetta væri greinilega einhver misnotkun. Hún sagði mér að fara strax í næsta Landsbankaútibú, kæra og láta loka fyrir kortið, en það væri ekki hægt að gera símleiðis.  Ég ákvað að fara aðeins fyrst í Einkabankann á netinu og viti menn það var komin ný færsla, í þetta sinn frá RyanAir upp á Kr. 56.000. 

Ég vona að ég hafi ekki brotið nein umferðarlög þegar ég fór með miklu hraði í útibú bankans í Smáralindinni, kærði þetta og lét loka fyrir notkun á kortinu.  Mér finnst svo óhugnanlegt að vita að einhverjir glæpamenn séu að nota nafnið mitt úti í heimi í einhverjum glæpsamlegum tilgangi. Ég get heldur ekki með nokkru móti áttað mig á því hvar þeir hafa komist yfir þær upplýsingar sem á þarf að halda, til þess að nota svona annarra manna kort.  Ég nota ekki kortið mitt til að versla á vefnum og hef alltaf verið mjög varkár með þetta blessað kort mitt. Mér finnst því bara alveg óskiljanlegt hvernig svona nokkuð á sér stað. Í umræðunni milli vina og ættingja var mér reyndar bent á að einhver sem hefur tekið við kortinu mínu gæti hafa skrifað niður kortanúmerið mitt og notað það síðan í þessum tilgangi. Óhugnanlegast finnst mér sá möguleiki að einhver sé kannski kominn inn á gafl í tölvunni minni án þess að ég viti af.  Mér líður svona eins og það sé falinn glæpamaður í hverju horni.

Ég nota kortið mitt mjög lítið og helst þó þegar ég er í útlöndum.  Ég er því búin að fara í huganum yfir ferðalagið okkar í Danmörku í júní, til þess að finna skýringu en finn enga.

Elskurnar mínar kíkið reglulega á færslurnar ykkar og hafið strax samband við banka ef eitthvað er óeðlilegt. Mér varð nú hugsað til þeirra sem nota kortin sín mikið og kannski með margar upphæðir af þessari stærðargráðu og taka því ekki eftir neinu óeðlilegu þó slíkt slæðist með. 

Það er greinilegt að aldrei verður of varlega farið og nauðsyjnlegt að fara vel yfir notkunina til að sjá hvort eitthvað er óeðlilegt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Að gefnu tilefni. – Endilega farið yfir VISA yfirlitin.

  1. Þetta er óhuggulegt að heyra og ég get vel skilið þér finnist í meira lagi óþægilegt að e-r útí heimi sé að nota kortið þitt! Ég vona þetta mál endi farsællega hjá þér Ragna.
    Kær kv. frá Kötlu.

  2. þórunn says:

    Visa misnotkun
    Það er engin furða að þér bregði við svona uppákomu, ljótt er að heyra. Við notum stundum kortið okkar til að panta bækur og aðrar vörur á netinu en höfum aldrei orðið fyrir avona reynslu. Það er greinilega aldrei of varlega farið. Þetta er þörf ábending hjá þér og mætti gjarna setja hana í blöðin, fleirum til viðvörunar.
    Vonandi færð þú þetta leiðrétt,
    kær kveðja
    Þórunn

  3. Hulla says:

    Þetta er rosalega óhuggnalegt.
    Ég er sem betur fer ekki með Visa eða önnur kredtkort og ef svo væri er ég ekki viss um að ég yrði svo dugleg að fara yfir yfirlitin.
    Vona að þetta skýrist hjá þér.
    Knús í kotið.

  4. Svanfríður says:

    úff, vonandi leysist þetta fljótt. Þetta er óhuggulegt en sem betur fer tókstu eftir þessu því það eru áreiðanlega margir sem ekki líta á yfirlitin sín-trúa bara tölunni sem koma upp. Gangi þér vel.

Skildu eftir svar