Aftur á Mama mía

Þegar við settumst að snæðingi í gærkveldi þá datt mér það snjallræði í hug að fara aftur til þess að sjá Mama Mia myndina. Haukur var nefnilega ekkert búin að sjá hana, en ég vissi að hann hefði gaman af því.  Mér fannst líka snjallræði að bjóða stóru barnabörnunum mínum líka því þau eru svo mikið fyrir söng og músikk. 

Ég dreif mig því niður í Smáralind og keypti bíómiða fyrir okkur til þess að losna við biðröðina rétt fyrir sýningu.  Við vorum síðan komin korter fyrir átta og reiknukðum með að fara beint inn en það var nú ekki boðið upp á það, því það var nefnilega biðröð inn í sjálft bíóið. Þegar sú biðröð var loks á enda og við komumst inn til þess að kaupa popp og kók fyrir sýninguna þá tók þar við önnur biðröð, ekki í sjoppuna, nei,nei. Það var biðröð sem lá að salnum sem sýningin átti að vera í, við Haukur drifum okkur því í þá röð á meðan krakkarnir fóru í sjoppuna. Röðin lengdist og lengdist eftir endilöngum salnum og fólk fór að ókyrrast. Klukkan tifaði og varð átta en þá hefði myndin átt að byrja, en það var ennþá biðröð sem haggaðist ekkert því enn hafði ekki verið byrjað að hleypa inn.

Það var ekki byrjað að hleypa inn í salinn fyrr en klukkan var nærri korter yfir átta og þá var bara eins og maður væri kominn í þrjúbíó eins og það var í gamla daga þegar bara var bíó fyrir börnin á sunnudögum klukkan þrjú og öll Reykjavíkurbörnin þyrptust til þess að komast inn sem fyrst.

Við vorum svo heppin að ná fjórum sætum á næst aftasta bekk en salurinn fylltist á svipstundu.  Við héldum að okkur yrði nú sleppt við eitthvað af auglýsingaflóðinu sem þarf að sitja undir á undan myndasýningunum, en við vorum ekki alveg svo heppin. Ég var búin að sjá að klukkan var orðin hálf þegar enn var verið að sýna úr næstu myndum.

Loks byrjaði þó myndin sem var auðvitað alveg eins frábær og þegar ég sá hana með stelpunum mínum þegar byrjað var að sýna myndina.  En stemningin í salnum var allt önnur núna en þegar við mæðgur fórum, enda voru þá konur yfir 90% viðstaddra, sem segir auðvitað sína sögu. Það var mun meira hlegið þá og meira fagnað og í restina kvað við mikið lófaklapp.  Í gær var hlátur í lágmarki, ekkert klappað og allt svolítið bælt. Í hléinu  fór ég að líta yfir salinn og sá þá að a.m.k. 50% þeirra sem í salnum voru, voru karlmenn og börn.  Ég giskað því á að hin 50 prósentin væru konur eins og ég, sem væru búnar að fara einar áður og nú ákveðið að leyfa karlinum að fara líka.

Haukur og krakkarnir höfðu mjög gaman af myndinni og ég ekki síður. Ætli þetta endi ekki með því sama og þegar ég sá Cats í London fjórum sinnum á nokkurra ára tímabili. Mér fannst bara allir verða að fara í leikhús og sjá Cats.

Nú er best að fara aftur inn í stofu til Hauks. Hann er að hvíla sig aðeins eftir matinn en ég ákvað að elda fína nautasteik og gera desert á eftir. Þetta er nú ekkert venjulegur föstudagsmatur hjá okkur, en við höldum alltaf upp á þessa helgi í ágúst. Oft höfum við farið út að borða  til að halda upp á tilefnið, en það var einmitt þessa helgi fyrir mörgum árum, sem Haukur bauð mér fyrst upp í dans og síðan höfum við dansað saman alla dansa síðan.

dansinn1.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Aftur á Mama mía

  1. Sigurrós says:

    Til hamingju með helgina 🙂 Ég er alltaf jafnmikill sauður og mundi ekkert eftir þessu…!

  2. Guðbjörg says:

    Það eru þá fleiri sem eru sauðir……… Innilega til hamingju elsku mamma og Haukur, afsakið gleymsku mína.

    love

    Guðbjörg

  3. Ragna says:

    Hvernig eigið þið nú stúlkur mínar að muna þennan dag, sem er reyndar mjög á reiki. Var upphaflega 11. ágúst (Haukur var í dag enn að bíða eftir þeim degi en áttaði sig þegar hann sá steikina), en þar sem við bindum okkur við föstudag þá var þetta aðra helgi í ágúst og hana höldum við uppá.

  4. þórunn says:

    Dans eftir dans…..
    Elsku Ragna og Haukur, innilega til hamingju með þennan dag, það er yndislegt að hafa einhvern góðan/góða, til að dansa við hvern einasta dans, megi þið dansa lengi, lengi í viðbót.

    Bestu kveðjur

    Þórunn og Palli

  5. Svanfríður says:

    Þetta var skemmtilegur pistill að lesa vinkona. Ég er sammála þér, Mama mia er yndisleg.
    Til hamingju með ykkur tvö!!! Ég vona að dansinn eigi eftir að duna mörg mörg ár til viðbótar. Kærar kveðjur.

  6. Skemmtileg færsla um tvennar mjög ólíkar bíóferðir á sömu myndina – svona röð og seinkun hefur væntanlega ekki verið til að bæta stemminguna!
    Til hamingju hvort með annað Ragna & Haukur: )

Skildu eftir svar