Ferð í Garð og Sandgerði.

Það er alveg ótrúlegt hvað maður hefur oft leitað langt yfir skammt. Nú er ég að hugsa um ýmsa staði á okkar fallega landi sem maður hefur ekki séð þó nálægir séu. Hún Edda vinkona mín sagði mér frá því í vikunni að þau hjónin hefðu farið í svo skemmtilega dagsferð um Garðskagann og hefðu m.a. komið að Garði og í Sandgerði. Ég uppgötvaði þá, að ég hefði aldrei farið þarna um Reykjanesskagann. 

Við drifum okkur því í gær laugardag suður með sjó og skoðuðum þessar slóðir. Við byrjuðum á því að skoða Helguvík ,en það var mjög stutt skoðun því þegar við ókum hægt í áttina niður í víkina þá kom Securitas bíll á hraðri ferð upp að okkur og sagði að þessi leið væri alveg lokuð almennri umferð.  Við báðumst afsökunar á að hafa ekki tekið eftir skiltinu og Haukur sneri strax við. 

sudurnes4.jpg

Þá héldum við út að Útskálavita og Haukur fór þar fram á ystu nöf, sem slútti aðeins fram yfir bergið, til þess að sjá niður í fuglabjargið. Ég varð alveg máttlaus  því ég hélt að hann færi fram af. Ég sagði honum að ég gæti ekki bjargað honum ef hann félli fram af berginu. Ég býst nú ekki við að það hafi verið ástæðan fyrir því að hann lagðist þá niður til að kíkja þannig en mér létti þó við að hann væri ekki að spranga á sandölum þarna alveg á naumustu bjargbrúninni.  Það er svona með fólki sem alið er upp í svona umhverfi, það finnur ekki fyrir hræðslu og fer tæpt á meðan maður er að leka niður af hræðslu og verður máttlaus í hnjánum. Á myndinni hér fyrir ofan er Haukur að príla á bjargbrúninni og það var sko hátt niður þó það sjáist ekki á myndinni.

Nú lá leiðin í Garðinn og þar var mjög gaman að koma.  Þar er fallegt byggðasafn sem við höfðum mjög gaman af að skoða. Reyndar uyppgötvuðum við okkur til hrellingar að þar voru margir hlutir sem við þekktum mjög vel og höfum notað og það þýddi bara eitt,  það sem tilheyrði okkar kynslóð var komið á Byggðasafn. Jæja , ekki orð um það meir.

sudurnes1.jpg

Við fengum okkur kaffi á fallegri Kaffistofu sem er þarna uppi á loftinu og nammi,namm góðar tertur með.  Þessi mynd er tekin af svölunum utan við Kaffistofuna.

Mér fannst gaman að sjá þessi gömlu jólatré á safninu. Þessu kynntist ég nú ekki þó ég sé við það að verða safngripur sjálf. 

sudurnes2.jpg

Þegar við kvöddum Garðinn þá héldum við út í Sandgerði. Þessar fallegu tjarnir voru við innkeyrsluna í bæinn.

 sudurnes3.jpg

Við ókum niður að höfninni og skoðuðum þennan vaxandi bæ sem Sandgerði er. Svo fórum við nú að dóla okkur heim á leið.  Ég hafði mjög gaman af þessari skoðunarerð og það breyttist algjörlega sú hugmynd mín að það væri bara hrjóstrugt og ljótt þarna á nesinu. Þetta eru vinalegir og fallegir bæir þarna og  langt frá því að vera hrjóstrugt.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Ferð í Garð og Sandgerði.

  1. Skaginn…
    er fallegur, fallegri en ég hefði ímyndað mér. Við fórum líka á byggðasafnið og drukkum kaffið á efri hæðinni. Hefðum betur verið á sama tíma. Ef maður hefur opin augu og hjartað fylgir með eigum við víða perlur á landinu góða. Kær kveðja í kotið.

Skildu eftir svar