Súpa og brauð …

Í kvöld er ég að mestu búin að vera hálfsofandi yfir sjónvarpinu. Ég reif mig samt upp til að fara aðeins í tölvuna, m.a. til að sinna bankaviðskiptum, ha,ha best að hafa flott nafn á því, en ég var nú bara að borga einhverja reikninga sem voru komnir inná hjá mér sem ógreiddir.  Ég þoli nefnilega ekki þegar það standa ógreiddir reikningar á yfirlitinu hjá mér því þá líður mér eins og ég eigi eftir að þrífa til eða þvo upp.  Ég verð því að sópa slíku út jafnóðum.  Meira ruglið.

Þetta hefur nú verið nokkuð annasöm en mjög skemmtileg vika hjá okkur.  Fyrir utan það að vera dagamma, þá var ég með gesti í mat tvisvar sinnum á þriðjudaginn. Um hádegið kom Unnsteinn frændi stelpnanna minna og með honum nýsjálensk hjón sem hann var hjá sem skiptinemi fyrir nokkrum árum. Um kvöldið komu svo góðir vinir mínir, Hreinn og Birgit.  Fyrst það hittist svo á að þetta bar upp á sama daginn, þá dreif ég mig bara í að útbúa sjávarréttarsúpu, sem alltaf hefur þótt góð hjá mér. Ég var sniðug og bjó til grunninn að súpunni kvöldið áður, skipti henni  í tvo hluta og bætti rjóma og fiskinum í – fyrst í hádeginu og síðan í seinni hlutann um kvöldið.  Ég verð nú að segja fyrir sjálfa mig að það er nokkuð mikið að borða rjómalagaða sjávarréttasúpu tvisvar sama daginn sem aðalrétt, og um kvöldið var eins og búið væri að pumpa mig upp og ég hélt að ég myndi springa.
En ég var ánægð með að þetta hafðist allt. Það var búin að vera mikil pæling hjá mér hvernig ég kláraði mig á þessu með hádegismatinn, verandi með börnin þrjú á mínum snærum. En auðvitað bjargaði Haukur málunum og fór beint með börnin heim í Ásakórinn, þegar hann kom heim úr ræktinni, svo amma gæti verið í rólegheitum að taka á móti gestunum.

Það hefur nú fleira verið brallað hér þessa daga, því í gær var farin önnur ferð í Árbæjarsafnið og nú með  Karlottu og Odd Vilberg, sem voru austur á landi þegar við fórum með minnstu börnin um daginn.  Ragnar litli fékk nú að fara aftur með núna og fannst það sko ekki leiðinlegt, en þetta var í fyrsta skipti sem þau Oddur og Karlotta fara á safnið.

Þegar við komum heim drifum við síðan í því að undirbúa grillveislu, en tvær dætur Hauks og Leonora afastelpa komu til okkar í grillmat. Mér þykir svo gaman að fá gesti svo þetta hafa aldeilis verið góðir dagar.

Um helgina förum við svo í afmælisveislu í Ásakórinn  því ömmustubburinn minn á afmæli á morgun og verður þá orðinn 9 ára.  Það verður svo haldið upp á það um helgina.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Súpa og brauð …

  1. Katla says:

    Mikið líst mér vel á þessa súpu – ætla að prófa hana við tækifæri.
    Það er ekkert rugl að vilja ekki vera með ógreidda reikninga, það er bara góð regla að halda vel utan um fjármálin.
    Kær kv. frá Kötlu.

Skildu eftir svar