Svona er nú

Mér var kippt niður á jörðina í gær, og minnt á af hverju mér var ráðlagt að hætta að vinna rúmlega fimmtug. Ég hef verið að passa hann Ragnag Fannberg síðustu viku og í dag stóð til að fara með hann, eftir hádegið í góða veðrinu sem við erum svo heppin að hafa þessa dagana,  á gæsluróló og sækja síðan Rögnu Björk til dagmömmunnar klukkan tvö og hafa hana þangað til mamma eða pabbi kæmi heim úr vinnunni og sækja þá litla snúðinn á rólóinn. Allt var útpælt. Nema hvað…

Ég var alveg ferlega óhress í gærmorgun þegar ég vaknaði, kastaði upp og leið ömurlega. Ég reyndi að hrista þetta af mér og við Haukur skruppum út í Arnarsmára eftir hádegið til að sækja barnastólinn hennar nöfnu minnar svo allt yrði klárt í dag.  Ég ætlaði nefnilega ekki að gefast upp. Mér hélt áfram að líða illa og ákvað að mæla blóðþrýstinginn í gærkveldi. Hann var þá orðinn allt of hár þrátt fyrir blóðþrýstingslyfin sem ég hef tekið í mörg ár og virkað svo vel.
Ég var síðan meira og minna vakandi í nótt en samviskusemin var alveg að drepa mig svo ég staulaðist framúr rúminu klukkan rúmlega sjö, ákvað að hrista þetta af mér og fór út í Ásakór til að passa.  Þar var mér snarlega snúið við og skipað að fara beint til læknis. Ég sá auðvitað sjálf að það er ekki gáfulegt að vera í slíku ástandi að passa lítil börn, því hvað ættu þau að gera ef amma læki niður.  Ég fór svo til læknis sem staðfesti að blóðþrýstingurinn væri allt of hár og púlsinn líka.  Ég fór svo  niður á Borgarspítala í línurit. Línuritið kom ágætlega út, en ekki var hægt að fá neinar skýringar á þessari stórhækkun á þrýstingnum og þessu volæði öllu saman.  það vantar nú talsvert uppá að ég sé komin í form til þess að syngja og dansa en blóðþrýstingurinn hefur þó talsvert lækkað enda er ég búin að liggja í Lazyboy með tærnar upp í loft í dag.  Björk, hin amman hennar Rögnu Bjarkar bjargaði henni í dag og Guðbjörg varð að vera heima. Það er of langt að fara með litla pjakkinn til Akureyrar í pössun til ömmu og afa þar.

Í sambandi við morgundaginn hafa dæturnar bannað mér svo mikið sem að hugsa um að passa fyrir þær og Guðbjörg sagðist ætla að hafa Ragnar með sér í kennslu til 6 ára barnanna – hún ætti ekki önnur úrræði og Sigurrós ætlar að reyna að losna það snemma að hún geti sótt Rögnu Björk til dagmömmunnar á tilsettum tíma.

Það er ótrúlegt úrræðaleysi í gæslu þessara litlu barna og nánast engin ráð  tiltæk. í báðum tilefllum er beðið eftir leikskólaplássi. Sigurrós var þó það heppin að hún fékk dagmömmu til klukkan tvö og eftir þessa viku til klukkan fjögur, en manni minn hvað það er dýrt, kostar yfir 80 þúsund á mánuði.

Ég vona að þessi leikskólamál fari að leysast svo börnin komist í rétta gæslu og amma nái aftur að funkera svona nokkuð eðlilega með því að vera stöðugt í prinsessuhlutverkinu.

Ja hérna, meira ruglið að romsa þessu öllu út á veraldarvefinn? En svona er nú statusinn í Fensölunum í dag.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Svona er nú

  1. Katla says:

    Farðu vel með þig Ragna og vonandi leysast öll mál á farsælann hátt fyrir alla!
    Ég er annars enn að bíða eftir bréfi frá þér og hlakka mikið til að lesa: )
    Kær kv. úr Hlíðunum.

  2. Svanfríður says:

    Æi elsku Ragna mín, mikið vona ég að þér líði betur í dag. Og já, það sem þú talar um með leikskóla bið og aðra bið, er forkastanlegt.
    Ég verð líka að segja með dætur hans Hauks-ég tek ofan fyrir þeim. Gangi þeim vel og megi þær vera öruggar, alltaf.Kærar kveðjur.

  3. Ragna says:

    Humm!
    Var ég búin að lofa bréfi Katla mín. Það er þá eins gott að koma sér að verki.

  4. Ragna says:

    Já Svanfríður mín, við vonum að þetta gangi allt vel hjá stelpunum hans Hauks. Það er mikil lífsreynsla sem þær öðlast við þetta.

  5. Katla says:

    Ég sendi þér smá línu til að útskýra þetta með bréfið – ég reyndar skaut á það væri „ragna@betra.is“ – vonandi er það rétt hjá mér: )

  6. halló!
    Mín kæra Ragna, farðu vel með þig. Batnkveðja í bæinn

  7. Halló..
    Mín kæra Ragna, farðu vel með þig. Kveðja í salina.

  8. þórunn says:

    Farðu varlega
    Ragna mín, það er eins gott fyrir þig að fara varlega en, hugurinn ber mann stundum hálfa leið þegar maður vill koma að gagni. Slæmt að heyra með dagvistunarmálin þarna, vonandi rætist fljótt úr þeim.
    Haltu áfram að vera prinsessa svo barnabörnin geti notið þess að hitta þig um helgar.

    Kveðja til ykkar Hauks,
    Þórunn

Skildu eftir svar