Að ylja sér.

Nú hefur hann Sigurbjörn biskup verið jarðsunginn og hún var falleg athöfnin í Hallgrímskirkju í gær, athöfnin sem hann hafði sjálfur skiupulagtað öllu leyti.

Ég var að horfa á minningarbrot um hann í sjónvarpinu áðan og það vakti upp minningar frá liðnum tíma. Ég sá fyrir mér þau hjónin vera að koma til messu í Áskirkju hjá honum séra Árna Bergi syni þeirra, en þangað komu þau mjög oft til messu. Fallega brosið hennar Magneu og hlýleikinn gleymist ekki. Þetta voru yndisleg hjón, sem gott var að kynnast.   Fyrst og fremst kynntumst við hjónin séra Árna Bergi þegar hann kom til starfa í Áskirkju á sama tíma og við vorum að flytja í Kleppsholtið.  Einhvern veginn æxlaðist það nú svo að mjög fljótlega var ég komin í stjórn kirkjunnar og var í stjórn þar í ein 15 ár og kynntist því þeim hjónum Árna Bergi og Lilju vel. Oddur tók að sér á þessum sama tíma að sjá um allt bókhald fyrir kirkjuna og gerði einnig skattframtöl fyrir þá feðga Árna og Sigurbjörn á meðan hann hafði heilsu til. Það var alltaf tilhlökkunarefni að fá þá í heimsókn því báðir höfðu þennan einstaklega góða og skemmtilega frásagnarstíl og höfðu frá svo mörgu að segja. Glettnin var heldur aldrei langt undan.

Seinna, þegar erfiðleikar börðu að dyrum hjá mér, þá reyndust þeir feðgar mér afskaplega vel og verð ég þeim eilíflega þakklát fyrir andlegan stuðning þeirra. Nú hafa þeir báðir kvatt þennan heim og eiginkonur þeirra einnig. 

Það er svo notalegt að rifja upp góðar minningar. Það eru þær sem á að muna og hafa uppi við,  því þær ylja sálina.

Ég vona að komandi vika verði ykkur björt og falleg og skapi hjá ykkur góðar minningar til að ylja sér við síðar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Að ylja sér.

  1. Svanfríður says:

    Þetta var fallegur og hlýr pistill elsku Ragna. Það er alveg satt sem þú segir því góðu minningarnar eru þær sem skipta megin máli. Hafðu það gott:)

  2. Góður maður.
    Í mínum huga var Hr. Sigurbjörn helgur maður. Kynntist Árna lítillega á erfiðri stundu og hann var yndislegur. Kveðja í bæinn.

  3. Hulla says:

    Kveðja til ykkar þarna heima. 🙂

Skildu eftir svar