Klukkið hennar Svanfríðar.

Ég var spennt að lesa um klukkið hennar Svanfríðar þar til ég kom að því  í lestrinum, hverja hún klukkaði sjálf. Mig rak auðvitað í rogastans þegar ég sá þar nafnið mitt blasa við. Ætli hún þekki ekki aðra Rögnu?  hugsaði ég. En svo sá ég auðvitað að maður skorast ekki undan áskorunum svo ég tók mig saman í andlitinu og aðeins í huganum og fór að rifja upp það sem máli skipti.  Útkoman er svo þessi:

Fjögur störf sem ég hef unnið:

Fyrsta starfið mitt var á skrifstofu hjá lítilli heildverslun.

Næsta starf var hjá Páli S. Pálssyni hrl., en þar vann ég þangað til ég átti Guðbjörgu mína.

Síðan tók ég að mér að vera framkvæmdastjóri í Leikfangaversluninni Völuskrín sem var í eigu Barnavinafélagsins sumargjafar. Um var að ræða innflutning og smásölu.

Fjórða aðalstarfið var svo þegar ég  réðst aftur til starfa hjá lögmanni og nú á Málflutningsskrifstofunni í Borgartúni 24, en sú skrifstofa er bæði flutt á nýjan stað og heitir öðru nafni í dag. Þar vann ég svo þar til ég varð að hætta störfum.   

Fjórar bíómyndir:

Nú vandast málið og ég verð virkilega að leggja höfuðið í bleyti því ég er alveg afleit með að muna nöfn á bíómyndum þó myndirnar sjálfar séu minnisstæðar. En nokkur nöfn man ég þó og fyrst ég man þau frekar en önnur eru það auðvitað minnisstæðustu myndirnar.

Fyrst skal nefna: 

Pretty Woman. Þetta er mynd sem við mæðgurnar þrjár höfum horft á saman oft og mörgum sinnum og alltaf  skemmt okkur jafn vel yfir.

The Piano. Það var svo sérstök mynd að ég gleymi henni aldrei.

A scent of a woman með Al Pacino, frábær mynd .

Svo eru það seinni tíma myndirnar eins og Harry Potter og fleiri og svo auðvitað Mama Mia sem ég sá tvisvar í bíó, en nú er ég líka búin að telja of mikið upp.  

Fjórir staðir sem ég hef búið á.

Reykjavík þar sem ég hef búið lengstan hluta ævinnar.
Surrey í Englandi þar sem ég bjó í tæp tvö ár,

Selfoss í sex ár

Kópavogur í nokkra mánuði.  

Fjórir Sjónvarpsþættir sem mér líkar:

Spaugstofan auðvitað ómissandi.

Breskir spennumyndaþættir eru líka í uppáhaldi og marga breska gamanþætti  held ég mikið uppá,  því mér finnst breskur húmor svo góður.
Svo fylgist ég með henni  Önnu Phil.

Nýi þátturinn í sjónvarpinu Útsvar er líka í miklu uppáhaldi.  

Fjórir staðir sen ég hef heimsótt í fríum:

Þar sem ekki er talað um erlendis, þá vil ég fyrst nefna
Borgarfjörð eystra, sem ég tel fallegasta stað á landinu.  

Suðurhluti Englands er yndislegur.

Tenerife sömuleiðis

Bornholm, sem er eyja sem tilheyrir Danmörku en er í raun nær Svíþjóð. 

Það er  svo notalegt og gott  í alla staði að vera á Bornholm. 

Fernt matarkyns:

Humm, þar er nú af mörgu að taka því ég elska góðan mat.

Ég vil þó fyrst nefna góða fiskrétti því ég elska fiskmeti. Mig myndi t.d. í flestum tilfellum langa í glænýja soðna ýsu frekar en  nautakjöt og steikt smálúða finnst mér rosalega góð. Sem sé fiskur í öllum myndum,  en hann verður að vera alveg nýr.

Svo er það auðvitað blessað lambið. Mér finnst það taka öllu kjöti fram, að fá gott lambakjöt.

Síðan er ég veik fyrir allskonar ofnréttum, að ekki sé nú talað um góðar tertur.
Bíddu nú við sagðir þú fernt matarkynst. Ég þori ekki einu sinni að telja hvað ég er búin að nefna margt. Ætli það sé ekki best að taka pásu núna og fá sér eitthvað. Það ærir upp í manni sult að þurfa að vera að tala um góðan mat.

Fjórar bækur.

Fyrst vil ég nefna Viltir Svanir eftir  Jung Chang, en frásögn þessarar kínversku stúlku  gagntók mig algjörlega.

Ég lifi – eftir Mattín Gray er líka svo mögnuð.

Svo eru það auðvitað bækurnar hans Arnaldar og Yrsu og breskar sakamálasögur.

Undanfarið hef ég aðallega verið að lesa enskar kiljur, sú sem ég er að lesa núna er eftir Patriciu Cornwell.

Annars verð ég alltaf svo syfjuð þegar ég les og ég les bara þegar ég er komin í rúmið á kvöldin, svo það tekur stundum nokkrar vikur að komast í gegnum eina bók. Sjálfsagt hollasta svefnmeðal sem til er.

Fjórir óskastaðir akkúrat núna.

Akkúrat núna hef ég það bara svo notalegt hérna í Kópavoginum og langar hreint ekkert í burtu.
En,
seinna langar mig aftur til Tenerife

Ég hefði heldur ekkert á móti því ef einhver vill bjóða mér í siglingu með flottu skemmtiferðaskipi. Að klæða sig upp fyrir fína kvöldverði og dansa síðan fram á nætur- fara svo í gott nudd á daginn. Váá,  það hljómar vel. Ég held að ég hafi verið eðalborin í fyrra lífi.
Það væri líka gaman að koma til Afríku.

Svo væri gaman að koma á íslendingaslóðir í Kanada.

 

Nú er komið að klukkinu.

Ég ætla að klukkan hana Þórunni, Sigurrós, Guðbjörgu og Kötlu.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Klukkið hennar Svanfríðar.

  1. þórunn says:

    Ragna þó!
    Ragna mín, þarna gerðirðu mér grikk ég er lítið fyrir að taka þátt í svona leikjum en hvað gerir maður ekki fyrir vinkonu sína?
    Ég reyni.
    Bestu kveðjur,
    Þórunn

  2. Katla says:

    Þetta er skemmtilegt klukk og gaman að lesa um þig, Þórunni og Sigurrós! Nú bíð ég bara spennt eftir staðreyndum um Guðbjörgu: )

  3. Svanfríður says:

    Takk fyrir að taka vel í þetta klukk því ekki eru allir fyrir svona (þ.á.m ég:). Gaman að fá að skyggnast aðeins inn í fortíðina hjá þér,t.d á vinnumarkaðinum og svona.
    Hafðu það gott mín kæra.

  4. klukk
    Þetta var skemmtileg lesning mín kæra, og eðalsiglingin hljómar vel! Kveðja í bæinn

  5. Ragna says:

    Kærar þakkir fyrir hlýjar kveðjur.

Skildu eftir svar