Bílaskoðun.

Alveg getur maður nú verið ótrúlega ruglaður stundum.


Við vorum að festa upp veggljós hérna í svefnherberginu í gær  þegar ég leit út um gluggann og tók þá eftir að lögreglan var eitthvað að stússa í kringum bílinn minn. Af því ég lenti nú í hremmingunum með mylluna um daginn þá ákvað ég nú að fara út og athuga hvað væri á seyði. Ég sá þegar ég opnaði að það var búið að líma einhverja miða á gluggana á bílnum. Ég spurði hvort eitthvað væri að.


-„Þú færð viku frest til að láta skoða bílinn þinn annars verða klippt af honum númerin“  Bara si svona. Ég bara trúði ekki því sem ég heyrði en viti menn við nánari athugun á númeraplötunni kom greinilega í ljós að hann hefði átt að skoðast í ágúst í fyrra. Ég hef yfirleitt endurnýjað bílana mína eftir svona 2 – 3 ár og því ekki þurft að láta skoða bíl í mörg ár því 3 – 4 fyrstu árin eru skoðunarlaus. Nú ætla ég hins vegar að eiga þennan áfram en hugsaði bara ekki neitt út í að það þyrfti að skoða hann. Ég hringdi í ofboði í vini mína hérna á bifreiðaverkstæðinu Kletti sem alltaf eru tilbúnir til þess að leysa allan vanda strax . Þeir eru alveg einstakir. Þeir sögðu mér bara að koma með bílinn í fyrramálið og þeir myndu yfirfara hann og síðan myndu þeir fara með hann fyrir mig í skoðunarstöðina. Auðvitað stóðst það upp á punkt og prik og bíllinn stendur nú rogginn nýskoðaður hérna á bílaplaninu hjá mér.  Ég er sko búin að færa inn í dagbókina mína 1. ágúst 2004 að  ÞAÐ ÞURFI AÐ LÁTA SKOÐA BÍLINN ! 


Er það ekki dæmalaust hvað maður getur verið utangátta?????


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar