Agndofa

Stundum verður maður svo undrandi að það er erfitt að finna orð til þess að lýsa undrun sinni. Þannig leið mér í gær þegar ég sá mjög undarleg skilaboð í orðabelgnum hjá mér við frásögn mína af ferðinni austur í jarðarför mömmu hans Hauks.
Ég eyddi þessum skilaboðum út eftir að hafa afritað þau og ég ætlaði að láta þar við sitja. Þetta hefur hinsvegar valdið mér talsverðum heilabrotum og ég hef í dag velt þessum skilaboðum fyrir mér og reynt að skilja þau, en án árangurs.  Þau eru ekki skrifuð undir fullu nafni þannig að sú eða sá sem skrifar er sá heigull að geta ekki einu sinni staðið við stóru orðin sín.

Mig langar til þess að spyrja ykkur sem lesið bloggið mitt og þekkið það hvernig ég skrifa, hvað ykkur finnst um þessa orðsendingu sem er skrifuð undir nafninu "Trýna" og hvort það sem kemur fram í henni er eitthvað sem ég þarf að taka til athugunar.

Orðsendingin hljóðar þannig kópieruð beint.

"eg sá myndirnar frá jarðarför sigríðar eyjólfsdóttur af tilviljun.sigga eða sigríður borgarfjarðarsól var mæt og afar greind kona. mér er ofboðið hvílík frekja og yfirgangur og gagnvart konu sem liggur í gröf sinni og getur ekki mótmælt konu sem aldrei vildi vekja athygli á neinu verki sem hún vann öðrum til góðs.annars hélt ég að þú tilheirðir fjölskydunni ekki.aumingja börn hinnar látnu ,undarlegt háttalag og einstakt virðingarleysi gagnvart öðru fólki.hafirðu eihverja sómatilfinningju ættirðu að taka þetta út."

Ég er eitt spurningamerki, enda hef ég fengið þakklæti úr ýmsum áttum fyrir þessa færslu og myndirnar sem fylgdu.  Elsku segið mér nú álit ykkar því batnandi manni er best að lifa og ábendingar eru vel þegnar.

"Trýnu" þessa hvet ég til þess að sýna þann manndóm að segja til nafns.

Ég kveð ykkur í bili agndofa.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

19 Responses to Agndofa

  1. Sísí says:

    Þú þekkir mig ekki en ég rakst á síðuna þína á vafri mínu um bloggheima. Mér finnst þú skrifa mjög skemmtilega. Elska lýsingar þínar af umhverfinu og fólki og öðru sem þú segir frá. Fannst þú einmitt skrifa svo fallega um Tengdamóður þína. Þessi Týra eða hvað hún kallar sig, á auðvitað bara bágt! Alger rugludallur að mínu mati!

  2. Ja hérna Ragna, nú er ég agndofa, vægast sagt. Sú hlýja og fallegu skrifin þín um látna konu skilja allir sem eitthvað vit hafa í kollinum. Hvað þessari Trýnu gengur til veit ég ekki, en hún þyrfti að fara á íslenskunámskeið! Kærust kveðja í bæinn.

  3. Sigurrós says:

    Mér finnst þetta mjög ómakleg athugasemd sem þú hefur fengið, elsku mamma mín, og ég skil ekki að nokkur geti fengið af sér að vega svona ómerkilega að heiðri annarrar manneskju.

    Ég get ekki annað en verið reið og sár fyrir þína hönd, þú sem vilt öllum vel og ert svo góð kona.

    Mér finnst gott hjá þér að varpa þessu fram og nú er bara spurningin hvort hin nafnlausa Trýna þorir að koma fram.

  4. Hafdís Baldvinsdóttir says:

    Kæra Ragna!

    Mig hefur svo oft langað til að skrifa til þín. Mér finnst svo yndislegt að lesa skrifin þín og finnst þau gefa mér svo mikið. Þú skrifar svo fallega og svo eru myndirnar þínar svo frábærar. Ég á ekki orð til yfir skrif þessarar persónu og held að hún hljóti að eiga mjög bágt. Ég datt inná síðuna þína fyrir löngu síðan, því mér var bent á uppskriftasíðuna þína og þá leiddi eitt af öðru og ég fór að fylgjast með því sem þú skrifaðir um fjölskylduna þína og fylgdist með þegar þú lýstir flutingunum og fannst svo frábært að þið væruð að flytja í næsta nágrnni við mig en ég bý í Kórsölum 1 og er bráðum búin að búa þar í 3 ár en var áður búin að búa í Laugarnesinu í 32 ár og hélt að ég myndi aldrei geta flutt þaðan en við vorum orðin 2 í kotinu og vildum minnka við okkur og mikið er ég nú fegin að hafa drifið í því og kann mjög vel við mig í Salahverfinu, fer í Salalaugina á morgnana áður en ég fer í vinnuna, en ég vinn Dalveginum svo það er stutt að fara. Ég ólst upp í sveit vestur í Dölum og ég hlustaði oft á tómstundaþátt barna og unglinga sem faðir þinn hafði umsjón með og fannst það alveg frábær þáttur.Fyrirgefðu að ég skuli vera að senda þér alla þessa romsu, en ég gat ekki orða bundist þegar ég las þessi ómaklegu orð til þín. Ég vona að þú haldir áfram þínum skemmtilegu skrifum, sem létta bæði mér og örugglega mörum öðrum lífið og tilveruna.

    Með bestu kveðju

    Hafdís Baldvinsdóttir

  5. Vilborg says:

    Trýna
    Sæl Didda.
    Takk fyrir síðast. Ég held að við getum öll verið sammála um að þetta er svo mikið bull hjá henni Trýnu og eiginlega óskiljanlegt hvað hún á við að við eyðum ekki orku í að velta svona athugasemdum fyrir okkur. Eins og þú veist hef fylgist ég alltaf með síðunni og finnst hún frábær.
    Kv.Vilborg

  6. Katla says:

    Elsku Ragna, ég vona þú sért hætt að hugsa um þennann dónaskap. Það er augljóst á skrifum þessarar manneskju, að hún/hann þekkir ekki þinn sanna mann. Hún/hann telur sig hafa e-ð við þig að segja, en þó er það ekki merkilegra en svo að hún/hann gerir það nafnlaust, og ákveður að ráðast að þér á heimasíðunni þinni!
    Ég fékk nafnlaust sms í sumar um miðja nótt er ég var erlendis. Því miður ollu þau mér hugarangri, en eina niðurstaðan sem ég komst á að lokum var, að naðran sú var að takast ætlunarverk sitt, sem hlaut að vera að valda mér hugarangri og vanlíðan.
    Gott hjá þér að skrifa um þetta Ragna mín, en fátt annað að gera en halda áfram að brosa og vera ánægður með sjálfann sig.
    Kær kveðja frá Kötlu: )

  7. Svanfríður says:

    Ótrúleg hegðan
    Þú þarft sko ekki, alls ekki að hafa áhyggjur af skrifum þínum um tengdamóðir þína því bæði myndirnar og það sem þú skrifaðir um hana lýstu bæði væntumþykju og virðingu. Allir þínir pistlar eru fullir gæsku og lýsa þér svo vel enda sérðu hversu góðan bloggvinahóp þú átt og svona hópur kemur ekki út af engu. Það er vont að fá svona athugasemd því svona óheil skrif svíða. Taktu orð okkar vina þinna til marks og haltu ótrauð áfram. hafðu það gott, kærar kveðjur héðan úr Cary,Svanfríður.

  8. R og M á Ak says:

    Elsku Ragna. Við lásum minningargreinina um tengdamóður þína og þótti hún afar falleg og hlýleg eins og þín er von og vísa. Ekki skemmdu myndirnar. En varðandi nafnlausu athugasemdina má segja að sendandinn lýsir þar sínum innri manni sem þú mátt ekki taka nærri þér. Kær kveðja til ykkar Hauks.

  9. Ótrúlegt…
    Mikið óskaplega hlýtur því fólki að líða illa sem hefur ekkert annað við tíma sinn að gera en að skrifa og standa fyrir rógherferð gegn öðrum. Ég er stolt af því að þú skulir hafa bloggað um málið, því svona fólk dæmir sig sjálft. Merkilegt að hafa ekki manndóm í sér að mótmæla í eigin nafni, hefði ekki verið hreinlegra að biðja bara kurteislega um að málið væri athugað.
    Þín dóttir
    Guðbjörg

  10. Rannveig Erlingsdóttir says:

    Undrun!
    Ja nú er mér allri lokið.
    Þetta skalti ekki láta á þig fá Ragna mín. Þeir huglausu, sem kjósa að fela sín skammarlegu „trýni“ bakvið dulnefin, hafa nú vonandi vit á að skammast sín ærlega fyrir að veitast að heiðarlegu fólki. Þó er ég verulega efins um að hin siðblinda „Trýna“ hvers kyns sem hún nú er hafi vit á því sökum eigin dómgreindarleisis. Því sómatilfinning er ekki falin í heigulshætti.
    Ragna halltu ótrauð áfram þínum skemmtilegu og líflegu skrifum.
    Bestu kveðju ykkar frænka Rannveig Vopnfirðingur.

  11. Þórunn says:

    Ótrúlegur dónaskapur
    Elsku Ragna mín, ég þakka ykkur Hauki fyrir góðar móttökur í síðustu viku, við áttum góða stund saman. Ég skil vel að þér sárni að fá svona skítkast á síðuna þína, það er alveg ótrúlegt hvað sumt fólk getur látið út úr sér. Þessi skrif eru meira en lítið undarleg, það kemur raunverulega ekki fram hvað það er sem fór svona fyrir brjóstið á ritaranum, enda ekkert nema fallegt sem þú sagðir um hina látnu. Ætli við eigum ekki von á að sjá eitthvað svipað á síðum Morgunblaðsins, til allra sem voguðu sér að skrifa eftirmæli um konuna? Það er einhver biturleiki sem felst þarna á bakvið, vonandi kemst ritarinn út úr því en þú mátt ekki láta þetta hafa þannig áhrif á þig að þú hættir að skrifa, þá er manneskjan búin að ná tilgangi sínum að brjóta þig niður. Besta ráð við svona árásum er að biðja fyrir viðkomandi og gleyma þessu svo, veit af eigin reynslu að það er erfitt en það tekst að lokum. Bestu kveðjur frá okkur Palla,
    Þórunn

  12. Ragna says:

    Þakklæti
    Ég vil bara þakka ykkur öllum fyrir að vera svona yndisleg við mig. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fæ slíka árás á mína persónu og mér hefur því liðið mjög illa út af þessu. Kannski ekki síst fyrir það að ég botna bara ekkert í því hvað ég hef gert af mér. Ég var sannast sagna að hugsa um að loka síðunni minni, en nú hafið þið hughreyst mig og sannfært mig um að ég hafi ekki gert neitt rangt. Nú reyni ég að hætta að hugsa um þetta því það er bara mannskemmandi að velta þessu fyrir sér. Ég vona bara að viðkomandi fái hjálp til þess að koma sálarástandi sínu í betra form. Það hlýtur að vera ömurleg tilvera að burðast með svona neikvæðar hugsanir þegar það er hægt að beina hugsunum sínum í eitthvað gott og fallegt.
    Ykkur kæru vinir sendi ég mínar bestu kveðjur, stuðningur ykkar er mér ómetanlegur.

  13. Vagn Hjólsson says:

    Subbuskapur
    Þessar myndbirtingar frá útförinni eru bara subbuskapur. Þarna er verið að troða á tilfinningum þeirra aðstandenda sem vilja ekki hafa þetta. Útaf vefnum með myndirnar eins og skot.

  14. Sigurrós says:

    Ég bið „Vagn Hjólsson“ um að útskýra hvað hann á við með orðum sínum. Hvað við myndirnar er „subbuskapur“? Ég sé engan subbuskap, ég sé fallegar og sómasamlega teknar myndir af fallegri jarðarför, myndir sem aðstandendur hinnar látnu hafa m.a. þakkað kærlega fyrir að fá að sjá. Í hverju felst eiginlega subbuskapurinn, mér er spurn?

  15. Katla says:

    Tek heilshugar undir með spurningu Sigurrós! Ég get bara engan veginn tengt subbuskap af nokkurri sort við myndirnar sem Ragna birti á vef sínum!
    Mér er eiginlega mun frekar spurn um hverslags manneskja þetta er, sem kýs að ráðast svona að Rögnu með subbuskap, fyrir engar sakir aðrar, en að skrifa fallega og birta fallegar myndir??!! Væri þér ekki nær að snúa þér að sjálfri þér og gera e-ð í þínum eigin málum????

  16. Sigurrós says:

    Mér finnst algjört lágmark að fólk sem ætlar sér að vera með svívirðingar og dónaskap geri það undir eigin nafni. Fólk sem felur sig á bak við nafnleynd hefur að mínu mati ekki rétt til að úthúða öðrum, hvorki hér né annars staðar. Vinsamlegast sýnið þann manndóm að segja hver þið eruð.

    Ef einhverjum mislíkaði að sjá myndirnar úr jarðarförinni, myndir sem teknar voru með það einkum fyrir augum að leyfa fjarstöddum ættingjum að fá að taka þátt í jarðarförinni, þá hefði verið mun heiðarlegra að hafa beint samband við móður mína og biðja hana kurteislega um að taka myndirnar út. Hún hefði gert það á svipstundu, enda er enginn annarlegur tilgangur sem liggur þarna á bak við eins og reynt hefur verið að gefa í skyn.

  17. Svanfríður says:

    Ennþá hristi ég hausinn og velti því fyrir mér hvað Trýna og Vagn (ef þetta er þá ekki sama manneskjan) eigi við?? Ragna-ég veit að þetta er vont en ekki hlusta á þau því það eru þau sem hafa rangt við. Haltu áfram á þinni braut því hún er bein. Hafðu það gott.

  18. Ragna says:

    Já Svanfríður mín þetta er ótrúlegt. Ég er hinhsvegar svo heppin að tengdasonurinn sem á vefinn sem ég nota er búinn að finna út úr þessu fyrir mig. það er nefnilega hægt að rekja hvaðan svona óhróður kemur.

Skildu eftir svar