Þjóðarskútan

Það er ískyggilegt ástandið á þjóðarskútunni okkar Frónbúa núna þegar hana rekur stjórnlaust um þennan ólgusjó með rifin segl og langt til lands.  Það eina sem við vitum er að björgunarbátur hefur verið sjósettur og við vonum bara að hann nái sem fyrst til björgunar, og þá sérstaklega til þess að bjarga unga fólkinu með börnin.

Í ljósi frétta dagsins þá þurfum við gömlu ekki að hafa áhyggjur af okkur sjálfum enda lifað tímana tvenna og orðin nógu gömul til þess að vera ekki með skuldabagga á bakinu. Þegar við ræddum þetta í dag þá vorum við sammála um að væntingar okkar snerust um það eitt að eiga þak yfir höfuðið og eiga til hnífs og skeiðar.  Hinsvegar höfum við áhyggjur af börnum og barnabörnum og þeim sem hafa verið að festa sér húsnæði og vonum að þeim verði komið til hjálpar ef illa fer. 

Ég hef sem betur fer aldrei verið í sporum þeirra sem gera allt sem hugurinn girnist hvort sem peningar eru til eða ekki, því ég hef vanist því að eyða ekki  nema í það sem ég á peninga fyrir.  Mér hefur ekki fundist þeir vera neitt hamingjusamari sem aldrei neita sér um neitt í lífinu hvað sem það kostar, heldur en við sem höfum þurft að hafa meira fyrir hlutunum.

Það hefur oft komið sér vel í lífinu og mér finnst það gott, að hafa alist upp við lítil efni og nægjusemi og muna þann tíma þegar enginn bíll var til á heimilinu, fötin voru af mikilli útsjónarsemi móður minnar saumuð upp úr fötum af eldri systrum mínum og ég gleymi því aldrei hvað ég gladdist yfir því að fá ein jólin handprjónaða fingravettlinga og að auki kúlu til þess að hengja á jólatréð í gjöf frá ömmu minni. Þessa jólakúlu átti ég í marga áratugi en því miður brotnaði hún.  Á þessum tíma vantaði hins vegar ekkert upp á andlega næringu á heimilinu. Ekkert vantaði heldur upp á ástúð og umhyggju sem var veitt í ríku mæli, en það er sá fjársjóður sem maður geymir alla ævi og verður ekki frá manni tekinn hvað sem öllum peningalegum auði viðkemur.

Það kemur ýmislegt upp í hugann á þessum dökka mánudegi þegar vindurinn gnauðar, regnið bylur á gluggunum og forsætisráðherra ávarpar þjóðina á ögurstundu.

Hinsvegar verðum við að vera svolítið Pollíönnuleg og hugsa um hvað það hefði nú verið meira áfall ef forsætisráðherra hefði verið að tilkynna að hernaðarleg árás hefði verið gerð á Ísland.
Nei, við komum okkur út úr þessum erfiðleikum eins og þjóðin hefur alltaf gert þegar á móti blæs. Látum okkur þetta hinsvegar að kenningu verða og sníðum okkur stakk eftir vexti í framtíðinni og þjöppum okkur betur saman.  Eftir dökka daga skín sólin á ný. Horfum á björtu hliðarnar og missum ekki vonina.  

——————-

Ég ætlaði að segja ykkur sögu ungrar norskrar konu sem vann stóran Lottóvinning fyrir nokkrum árum og hvernig hann var notaður. Í dag finnst mér það nefnilega lýsandi dæmi um það sem á undan er gengið í okkar fjármálalífi.
Færslan er hinsvegar orðin svo löng hjá mér að sagan kemur bara næst  eða þarnæst. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar