Þessi fallegi dagur.

Hvernig er hægt annað en að vera bjartsýnn á svona fallegum degi eins og verið hefur  í dag.

Ég byrjaði daginn á því að fara í mína fyrstu messu hérna í Lindakirkju,  en mig hefur lengi langað til þess að skoða þessa kirkju sem hefur verið í byggingu síðan við fluttum og blasir við okkur út um eldhúsgluggann.  Það er nýbúið að taka í notkun safnaðarsalinn og þar er messað til að byrja með.
Þetta var allt á léttu nótunum og sá Þorvaldur Halldórsson um að syngja og spilaði undir á skemmtara. Hann kemur víst einu sinni í mánuði og sér um tónlistina. Mér fannst mjög notalegt að fara þarna í messu og ætla endilega að gera meira af því að fara í messur á sunnudögum eins og ég var vön að gera þegar ég bjó á Kambsveginum.
Þegar ég kom út úr kirkjunni í lognið og sólina, sem baðaði  snævi þakið umhverfið í geislum sínum, þá ósjálfrátt dró ég djúpt að mér andann eins og ég vildi teiga þessa vetrarfegurð að mér og mér fannst veröldin brosa svo fallega við mér. Ég fylltist bjartsýni á lífið og var þess fullviss að þetta boðaði það að bjartari tímar væru framundan hjá þjóðinnii okkar. Það er bara ekki hægt annað en vera bjartsýnn, þegar maður horfir á birtuna og fegurðina allt í kringum sig. Ég hef þá trú að eintóm svartsýni og bölbænir komi okkur ekki út úr því ástandi sem við nú upplifum. Þess í stað finnst mér að við ættum að biðja fallega fyrir þjóðinni okkar. Við búum nefnilega í besta landi í heimi – þrátt fyrir allt.  Við íslendingar erum harðgert fólk og við eigum að sýna að við getum, allir sem einn,  tekið þessu mikla mótlæti og unnið okkur út úr því. Þrátt fyrir það hversu ósanngjarnt þetta er allt saman, þá breytum við ekki því sem orðið er. Við komumst hvergi með því að kenna bara öðrum um. Við eigum að horfa fram á veginn en ekki líta endalsust á dekkstu punktana sem eru bak við okkur.

Enn einu sinni gerist það að ég sest niður til að skrifa og stend mig svo að því að hafa skrifað eitthvað allt annað en ég ætlaði mér. Þetta fær þó að standa í þetta sinn. 

———————————–

Haukur ákvað eftir hádegið að skreppa í Bláfjöllin á skíði en ég var svo heppin að Guðbjörg og Magnús Már buðu mér að koma með sér í Húsdýra og fjölskyldugarðinn. Síðan fórum við í Perluna og fengum okkur kaffisopa og enduðum á því að fara í bíltúr í Hafnarfjörð. 
Svona gekk nú þessi fallegi vetrardagur fyrir sig hjá mér og þó að dagur sé nú að kvöldi kominn þá er hann ekki búinn og við erum að spá í að skreppa kannski og dansa í Stangarhylnum í kvöld og láta á það reyna hversu góð ég er orðin í bakinu.

Hér eru þau Guðbjörg, Magnús Már og Ragnar Fannberg
í veðurblíðunni í dag. sunnud09.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Þessi fallegi dagur.

  1. þórunn says:

    Sammála
    Ég er þér hjartanlega sammála Ragna, þetta er fallegur pistill hjá þér og kemur manni í gott skap. Það er ekkert hægt að gera í stöðunni eins og hún er, en að horfa á björtu hliðarnar. Fólk sem elur með sér reiði og neikvæðni alla daga, virðist ekki vita hvað það er að gera sjálfu sér, það getur haft slæm áhrif á heilsuna þegar til lengdar lætur.
    Bjartsýnis kveðjur úr kotinu
    Þórunn

  2. Svanfríður says:

    Hjartahlýr og góður pistill og er ég sammála þér í einu og öllu. Þú hefur einstakt lag á að láta mann líða vel með skrifunum þínum. takk fyrir það.

Skildu eftir svar