Svo frábær helgi.

Það hefur aldeilis verið gott veður um helgina. Haukur stóðst nú ekki mátið í gær og dreif á sig skíðin hérna við bílskúrinn og brunaði af stað og gekk inn allan golfvöll og í kringum golfvöllinn alveg út að Vífilstöðum. það var búið að leggja braut með vélsleða hringinn um golfvöllinnog Haukur sagði að það hefði verið mjög gott að ganga. Á meðan hann gekk á skíðum, þá skruppum við Sigurrós að kaupa skírnargjöf en Guðbjörg sem hafði ætlað með okkur í mæðgnaferðina var orðin lasin og var heima. 
Þegar ég kom heim aftur var Haukur kominn úr göngunni og okkur datt í hug af því veðrið væri nú svona fallegt, að skreppa á Selfoss og heilsa upp á systur mína eða Selmu frænku. Hvergi var hinsvegar neinn heima þegar á staðinn var komið. Við ákváðum þá að skreppa á kaffihús og fá okkur kaffi áður en við héldum aftur heimleiðis.  Við völdum Kaffi Krús og vorum svo heppin þegar við komum þar inn að fyrsta fólkið sem við sáum voru mjög góðir nágrannar okkar og vinir úr Sóltúninu og við settumst hjá þeim og spjölluðum í góða stund. það kostulega er, að þau höfðu aldrei farið þarna í kaffi áður, höfðu bara verið úti í göngutúr og dottið í hug að prufa nú að fá sér kaffisopa þarna. Við hefðum bankað uppá hjá þeim í Sóltúninu þegar í ljós kom að systir mín var ekki heima,  en það var svo mikið af bílum þar fyrir utan að við bókuðum að þau væru með fullt hús af gestum – en þau voru sem sagt bara í göngutúr.

Það var að nálgast sólarlag þegar við lögðum af stað heim. Við stoppuðum á bensínstöð og á meðan Haukur dældi á bílinn þá mundi ég eftir að ég var með myndavélina og smellti mynd af sólinni þar sem hún var að hníga í Ölfusána.  

solarl_self1.jpg

Nú svo hélt helgin áfram og um hádegið í dag var okkur boðið í skírnarveislu hjá Ingunni Lofts, frænku stelpnanna minna. Auðvitað stóðst Haukur það svo ekki að skreppa aftur á skíði þegar við komum heim úr veislunni, en ég skrapp þá til að hitta aðeins hana litlu nöfnu mína sem mér fannst svo langt síðan ég hafði hitt.
Þetta hefur verið alveg frábær og skemmtileg helgi.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Svo frábær helgi.

  1. þórunn says:

    Þú er gott dæmi um það hvernig er hægt að laða til sín góða hluti með jákvæðninni. Þetta hefur verið stórgóð helgi hjá ykkur og mikið um að vera. Nú er um að gera að halda sig áfram við jákvæðnina, sem mun smita út frá sér endalaust. Eigið góða viku framundan, ekki verður mánudagurinn verri.
    Takk fyrir allar fallegu myndirnar, Þórunn

  2. Svanfríður says:

    Það má læra mikið af fólki eins og þér Ragna mín. Lífsgleðin og bjartsýnin skín af þér og það er auðvelt að smitast af þér. Hafðu það gott og skilaðu kveðju til Hauks.

  3. Katla says:

    Tek undir með Þórunni og Svanfríði. Og nú er glæný vika hafin og um að gera að hafa augun opin fyrir öllu því góða sem hún hefur upp á að bjóða. Hafið það gott bæði tvö: )

  4. afi says:

    Góð tíð.
    Það hefur ekki verið hægt að kvarta undan veðrinu undanfarið. Því hefur verið tilvalið að bregða sér á skíði eða ferðast um á fjórum hjólum.

Skildu eftir svar