Litlu tilvikin – Hektógrafið.

Ég var að hugsa um það í morgun hvað það er mikilvægt að gefa gaum að ýmsum litlum tilvikum. Það má segja að hver dagur beri með sér einhver lítil tilvik, sem annaðhvort minna á önnur tilvik, á liðnar stundir eða minna á persónur,  sem við erum eða höfum verið samtíða. Það lífgar upp á tilveruna að taka eftir þessum litlu tilvikum og hugsa um þau.

Í gær var um eitt slíkt að ræða í lífi minu. Ég fékk tölvupóst frá Magnúsi Aðalbjörnssyni tengdapabba hennar Guðbjargar minnar. Erindið þótti mér alveg sérstaklega vænt um þar sem það snerti hann pabba minn Jón Pálsson. Ég fékk því leyfi til þess að fá að birta þetta tölvubréf sem einnig inniheldur bréf frá Birni Ingólfssyni.

Þessi færsla er aðeins lengri en ég er vön að hafa mínar færslur en  látið það ekki stoppa ykkur. ´

Bréf Magnúsar til mín:

"Heil og sæl.
Ég hef haft þann starfa undanfarna mánuði að grúska í gömlum blöðum með tveimur vinum mínum í þeim tilgangi að geyma gamlan fróðleik í bók. Einn morguninn kemur Björn Ingólfsson fyrrverandi skólastjóri, rithöfundur og fræðimaður frá Grenivík inn á skjalasafn þar sem hann er stundum að vinna  og spyr mig að því hvort ég viti hvað hektógraf er. Hann hafi lengi verið að velta þessu orði ( tæki ) fyrir sér en ekki fengið svar fyrr en í síðustu viku. Svo lýsti hann þessu tæki og sagði jafnframt að hann hefði fyrir einskæra tilviljun verið að blaða í 45 ára gömlum blöðum þar sem hann skrifaði niður allar upplýsingar sem fram komu í tómstundaþætti Jóns Pálssonar. Ég fór að hlæja  og sagði að þetta yrði ég að fá skjalfest því að sonarsonur minn væri langafabarn Jóns Pálssonar og fjölskyldan hefði gaman að fá þessa sögu. Bað ég hann að senda mér tölvupóst með uppskriftinni að hektógrafi. Og hér kemur sagan. Tómstundaþátturinn hefur enn áhrif. Björn sagðist alltaf muna kynningunna: “ Og komið svo öll blessuð og sæl.” Fallegasta kveðja á Íslandi og ég sendi ykkur hana með kveðju frá nöfnu þinni. MA

Síðan kemur bréf Björns til Magnúsar.:

 "Blessaður, Magnús.
Ég hef undanfarið verið að taka saman sögu Lestrafélags Grýtubakkahrepps sem stofnað var í Laufási á nýársdag 1875. Þetta er allmerkileg saga og greinilegt að stofnandi félagsins, Einar Ásmundsson í Nesi, leit fyrst og fremst á félagið sem tæki til að mennta og uppfræða fávísa sveitunga sína. Meðan hann hélt um stjórnvölinn voru haldnir um 10 fundir á ári.Fyrir utan það að kaupa og lesa góðar bækur var ýmislegt var gert í því augnamiði að fræða og mennta. Gefið var út blað og efni þess rætt á fundum, haldnir voru fyrirlestrar um fjölbreytt efni og fundarmönnum var sagt til í stafsetningu og málfræði, landafræði, dönsku og bókhaldi svo eitthvað sé nefnt.   Tæknilegar nýjungar voru líka ræddar og jafnvel sýndar. Á einum fundi „var sýnt verkfæri til hallamælinga og skýrt frá því hvernig það væri notað“. Í október 1880 var komið með afar merkilegt tæki á fund: „…var þar sýnt áhald til að taka fljótlega mörg eptirrit af sama brjefi. Var skrifuð dálítil skýrsla um fundinn og hún prentuð þá þegar með verkfæri þessu, er heitir „hektógraf,“ svo hver fundarmaður gat fengið sitt eptirrit af fundarskýrslunni heim með sjer.“Ekki er getið um eiganda tækisins en fundarmenn sáu að svona tæki yrði félagið að eignast. Það varð 15. nóvember 1885 og í desember sama ár var ákveðið „að prenta með hektógraf fjelagsins eptir nýárið 5 tölublöð af „Fjelaginu“ og selja þau áskrifendum fyrir 5 aura hvert tölublað, eða 25 aura alls. Til að prenta blöð þessi var kosinn Þórður í Höfða. Þetta olli mér ómældum heilabrotum. Hvers konar tæki var þetta? Ég fann enga skýringu á því og var farinn að sætta mig við það.Svo var ég að einn góðan veðurdag að fletta í gömlu blaðarusli mínu. Þá datt  upp í hendurnar á mér allt í einu blað, skrifað með blekpenna 25. apríl 1964 eftir Tómstundaþætti Jóns Pálssonar í útvarpinu. Nákvæm lýsing á hektógrafi.Ekki man ég hvers vegna ég var að skrifa þetta upp. En þetta vor var ég að ljúka eins vetrar tilraunastarfsemi við kennslu í Grenivíkurskóla og var búinn að ákveða að fara í Kennaraskólann um haustið. Líklega hef ég séð fyrir mér að gott gæti verið fyrir verðandi kennara að hafa þessa tækni á valdi sínu.
                                                                                                      Björn Ingólfsson" 
Svo kemur uppskriftin sem fylgir bréfi Björns

"Hektógraf
 50 g perlulím
140 g vatn
250 g glyserín
13 g  kaolínduft.

Límið bleytt upp og soðið í graut, glyseríni og kaolídufti hellt í og hrært vel saman við.
Grautnum hellt í mót. Skrifað er á glanspappír með hektógrafbleki (fæst í bókabúðum) og lagt á hvolf ofan á límpúðann og strokið yfir. Tekið af eftir stutta stund, 6-7 mínútur og er þá hægt að leggja auð blöð ofan á ca 30-50 sinnum. Blekið þvegið varlega af með volgu vatni.
Púðinn bræddur upp þegar blek fer að setjast í hann.
                                                                                 
(Tómstundaþátturinn 25. apríl 1964)"

———————————-

Þetta vekur upp hjá mér svo margar minningar um hann pabba minn sem vann svo fórnfúst og óeigingjarnt starf við að reyna að uppfylla allar óskir þeirra sem til Tómstundaþáttarins leituðu með ótrúlegustu hluti. Þó ég muni ekki eftir því, þá er ég viss um að hann pabbi hefur sjálfur búið til slíkt tæki til þess að vera viss um að þetta virkaði örugglega eins og til stóð. Ég get líka ímyndað mér hvað hann hefur þurft að hafa mikið fyrir því að finna uppskrift að slíku tæki. Hann gafst aldrei upp í leit sinni að upplýsingum og oftar en ekki bjó hann til hlutinn sjálfur til þess að vera alveg viss um að gefa ekki rangar upplýsingar. Þær voru líka margar ferðirnar til þess að útvega efni, pakka því og koma í póst fyrir vini þáttarins um allt land. Því pabba fannst svo sjálfsagt að hjálpa þeim sem langaði til þess að búa eitthvað til, en áttu erfitt með að útvega sér það efni sem til þurfti.

Ekki var neitt greitt fyrir alla þessa aukavinnu, því fyrir Tómstundaþáttinn voru greidd sömu laun og fyrir lestur framhaldssögu. Sem sé eingöngu fyrir tímann sem flutningurinn tók.
þetta var bara hugsjón hjá honum elsku pabba mínum og hann sá um þáttinn í 15 ár. Oft var þó mjög þröngt í búi þegar ég var að alast upp. Enginn var bíllinn á heimilinu og oft ekki til strætópeningar. En yndislegri barnæsku gæti ég ekki hafa átt. 

Nú nota ég kveðjuna hans pabba og segi "Verið þið öll blessuð og sæl."

jnplsson3.jpg

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Litlu tilvikin – Hektógrafið.

  1. Edda systir says:

    pabbi
    Já þetta var aldeilis skemmtileg tilviljun að heyra þetta með pabba og vekur upp margar minningar um hann og tómstundaþáttinn. kv. Edda

  2. Skemmtileg lesning og fallegar minningar. Ég man eftir tómstundaþættinum, og þótti hann merkilegur. Það þætti sennilega ekki skemmtilegt útvarpsefni í dag. Kærust kveðja í kotið þitt.

  3. þórunn says:

    Tómstundaþátturinn
    Það var ánægjulegt fyrir þig að fá þetta bréf og rifja upp góðar minningar. Ég var límd við útvarpið þegar þessir þættir voru á dagskrá í gamla daga, pabbi þinn var alveg einstakur maður.

  4. Stefa says:

    En gaman….
    ..fyrir utan það hvað mér finnst frásögnin skemmtileg varð ég að geta þess Ragna mín að Björn Ingólfsson, sem skrifaði upp lýsinguna, er kær vinur hans pabba en þeir voru í Kennaraskólanum á sama tíma.

    Bestu kveðjur,
    Stefa

  5. Ragna says:

    Kærar þakkir fyrir að hafa lagt orð í belg. Stefa, mikið er gaman að heyra þetta. Sjálf þekki ég Björn ekki neitt.

  6. Svanfríður says:

    Takk fyrir að deila þessu með okkur, þetta var yndisleg lesning og las ég tvisvar. Gaman að þessu.
    p.s pabbi þinn var fjallmyndarlegur:)

  7. Björn Jónsson says:

    Ég man mjög vel eftir tómstundaþættinum og hlustaði á hann frá byrjun.
    Og já, ég man eftir „hektógrafinu“ þó að mér hafi nú sennilega ekki tekizt að
    búa þetta til. Líka hvdernig maður býr til myndavél úr eldspýtustokk!
    Þegar efnt var til samkeppni um kynningarlag, það mun hafa verið uþb 1957,
    þá sendi ég smá lagstúf til keppninnar.
    Þetta lag reyndist þá vera það mest nothæfa af þeim sem bárust, og fylgdi Það síðan
    þættinum í mörg herrans ár. Mér var þá boðið að vera með í þættinum
    sem ég þáði auðvitað, man ekki betur en að ég hafi fengið 100 krónur í höfundarbætur!
    Þegar ég rakst á þessa síðu gat ég ekki á mér setið en varð að rifja þetta upp!
    Beztu kveðjur
    Björn Jónsson
    Västerås
    Svíþjóð

  8. Ragna says:

    Þakka þér kærlega fyrir innleggið þitt Björn Jónsson. Mér þykir mjög vænt um það. Einkennislag Tómstundarþáttarins var svo stílhreint og fallegt og pabba þótti mjög vænt um það eins og okkur þótti reyndar öllum. Já ekki er nú Ísland stærra en þetta að þú gefur þig fram og ég sé hérna ofar að hún Stefanía, sem er skólasystir og vinkona yngri dóttur minnar segir að þið Ragnar pabbi hennar þekkist. Mér þykir alltaf jafn vænt um þennan gamla tíma enda var ég mikil pabbastelpa.

    Þakka þér enn og aftur Björn, bæði fyrir einkennislagið,fyrir að skrifa hérna við gömlu færsluna mína og fyrir að senda honum Magnúsi Aðalbjörnssyni tengdaföður eldri dóttur minnar þessar skemmtilegu upplýsingar.
    ——–
    Þakka ykkur öllum sem hafið skrifað við þessa færslu árið 2009.

Skildu eftir svar