Upp úr vesöldinni.

Ég er alltaf að hringja til að athuga hvar ég er á biðlistanum að komast í Hveragerði eða á Reykjalund. Ég fæ alltaf sama svarið, að það séu nokkrir mánuðir í að komast að og ég verði látin vita með tveggja mánaða fyrirvara.  
Ég er orðin hundleið á þessari bið og vil fara að ná mér upp úr þessum vesaldómi – NÚNA. Sjúkraþjálfarinn minn segir að ég megi ekki vera óþolinmóð, því það taki hana langan tíma  að koma mér í sæmilegt form. Málið er bara að ég er orðin svo óþolinmóð og mér finnst ég bara vera að koðna niður. Ég vil fara að komast í Líkamsræktarstöðina sem ég keypti árskort í um leið og ég flutti í fyrra en hef ekkert getað notað. Ég vil líka geta gengið lengra en bara hérna út úr litlu götunni minni, dansað án þess að vera eftir mig í næstu vikur á eftir, snúið höfðinu án sársauka og ég vil geta lyft upp litlu barnabörnunum mínum.  

Mér finnst þetta ekki vera ósanngjarnt og mér finnst þetta ekki flokkast undir óþolinmæði. Nú er ég bara að vakna upp eftir dvalann og biðina eftir að allt lagist og geri þá kröfu til sjálfrar mín að ég taki málið í mínar hendur með því hugarfari að ég ætla að koma mér í betra form  til þess að njóta betri lífsgæða.

Ég gerði smá útreikning í gær og sá þá að ég gæti gert heilmikið fyrir þá háu upphæð (yfir 150 þúsund), sem það kostar að fara í Heilsubælið í Hveragerði í fjórar vikur. Ég veit að ég fæ ekki sama lúxusinn hérna heima hjá mér og ég geng ekkert um hér eins og drottning sem lætur þjóna sér nánast til borðs og sængur. En ef ég tek þetta í mínar hendur, þá get ég byrjað að setja eitthvað í gang STRAX og það er það sem skiptir mestu máli.  

Eftir útreikninginn í gær og þá ákvörðun sem ég tók í framhaldinu, þá fór ég beint í það, að athuga ýmsa kosti.
Ég held auðvitað áfram í sjúkraþjálfuninni.
Ég pantaði og fór strax í gær í prufutíma í 
 Ultratone sem er rafmagnsmeðferð og á að vera góð til að styrkja vöðva. Ég pantaði svo auðvitað áframhaldandi tíma í því.
Svo skráði ég mig á námskeið í Rope Yoga. Ég er svo heppin að geta komist á slíkt námskeið fyrir bakveika og  byrja þar eftir helgina. Þetta kostar í tvo mánuði bara brot af því sem ég myndi borga fyrir 4 vikur í Hveragerði og það sem meira er þetta get ég STRAX.
Hver veit nema ég taki nokkra tíma líka í nudd og eigi samt heilmikinn afgang.

Ég er svo rosalega ánægð með sjálfa mig að hafa látið mér detta slík lausn í hug og ég SKAL ná árangri.

Ég kveð í bili sátt og spennt fyrir komandi viku.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Upp úr vesöldinni.

  1. Sigurrós says:

    Mér líst vel á þetta hjá þér, mamma, og er viss um að þú átt eftir að ná þér góðri! 🙂

  2. þórunn says:

    Góð hugmynd
    Þetta er eins og hugljómun hjá þér, stundum er eins og maður vakni af værum blundi og hugmyndirnar streyma fram. Það er örugglega betra að hefjast handa og prófa eitthvað en að bíða endalaust eftir að eitthvað gerist. Gangi þér vel Ragna mín,
    kveðja frá okkur Palla

  3. Svanfríður says:

    Mér líst vel á þetta hjá þér og líka hugann þinn-þú vilt og skalt og því muntu ná árangri!!! Áfram Ragna.

  4. Vilborg says:

    Ég er búina að vera í Rope Yoga í nokkra mánuði og mæli með því – finnst það frábært. Kv.Vilborg

  5. Ragna says:

    Þakka ykkur fyrir hvatninguna. Vilborg mín það er gott að heyra að þú hefur prufað þetta og ert ánægð.

  6. Já þú þorir getur og vilt. Gangi þér vel. Kærust kveðja

Skildu eftir svar