Ekta fínt dansiball.

Það er best að bregða ekki út af vananum og byrja á því að tala um veðrið. Í allan dag hefur mér fundist vorið vera á næsta leyti. Nú er allt orðið autt og það er svo hlýtt. Börnin virðast finna þetta líka því Karlotta og Oddur komu aðeins í dag og fóru út með bolta og sippuband.  Við Haukur erum búin að vera mjög dugleg að fara út að ganga. Fórum í gær í roki og rigningu í heilmikinn göngutúr út yfir á og að Hellisskógi.


Í gærkvöldi var heilmikið harmonikuball í Básum. Harmonikufélg Selfoss sá að mestu um spileríið en þó spiluðu Rangæingar nokkur lög og Friðjón úr Félagi harmonikuunnenda í Reykjavík og Grettir Björnsson spiluðu saman nokkur lög. Friðjón spilaði á litlu hnappaharmonikuna sína. Harmonikuunnendur í Reykjavík komu saman í rútu og við þekktum nokkra úr þeim hópi. Við vorum nú að segja að líklega væru Selfossbúar á okkar aldri ekkert sérlega duglegir að fara og dansa því ef frá voru taldir þeir sem komu úr Reykjavík þá voru nú ekki margir eftir.  Enn svo sannarlega voru Selfossbúar duglegir að dansa hérna áður fyrr. Ég kynntist því vel þegar við Oddur heitinn komum hérna austur í gamla daga til að fara með Eddu og Jóni á böll bæði í Selfossbíói og Tryggvaskála og þá var sko mikið dansað og skemmt sér. En þetta gömlu dansa ball í gær var alveg frábært og við dönsuðum svo til hvíldarlaust í nærri fjóra tíma svo gerði maður bara góðar teygjur þegar heim var komið og mesta furða hvað maður finnur lítið til í dag.


Þór, Dandý og Ægir litu aðeins inn í dag. Þau voru á heimleið að Gufuskálum eftir að hafa verið hér austan heiða um helgina. Þór kom með skipsdagbækurnar hennar mömmu sinnar sem hún skrifaði á siglingunni miklu á Dórunni. Ég hlakka til að fara að smá setja þetta inn í tölvuna. Það tekur sjálfsagt þó nokkurn tíma að smá mjatla þessu inn en það verður gaman þegar þetta verður komið í tölvutækt form.


Jæja, þá er best að fara í frystinn og finna einhvern afgang sem merktur er fyrir einn, því nú er Haukur farinn í bæinn til að byrja á næturvakt í nótt. Ótrúlegt hvað það er þægilegt að geyma svona afganga til að skella í örbylgjuna þegar maður er einn heima og er latur.


Læt þetta duga að þessu sinni.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar