Ein af þessum góðu helgum.

Eftir hádegi á  laugardaginn var svo yndislegt veður að við Haukur fórum í langan göngutúr. Þetta er það lengsta sem ég hef getað gengið síðan ég fékk í bakið, og lofar það góðu um framhaldið.  Um kvöldið fengum við svo stelpurnar hans Hauks og tvo afastráka í mat og áttum með þeim mjög skemmtilega kvöldstund.

Sigurrós hringdi svo í gærmorgun og spurði hvort ég hefði áhuga á að koma með sér í æskulýðsmessu í Háteigskirkju þar sem kór Hlíðaskóla ætti að syngja og vera með tónlistaratriði. Þar sem ég hef aldrei farið til að hlusta á kórinn sem Sigurrós er undirleikari hjá og aðstoðar við, þá sló ég til og fór með henni í messuna. Guðbjörg var lögst í ælupest og stóru barnabörnin voru hjá pabba sínum, svo við fórum bara tvær við Sigurrós.

Þar sem við mæðgur sátum saman í upphafi messunnar og sungum ýmsa æskulýðssöngva þá var sem ég flygi langt aftur í tíma og það rifjuðust upp fyrir mér allir sunnudagsmorgnarnir sem við mæðgur sátum saman í Áskirkju og sungum sunnudagaskólalögin. Mikið er sá tími dýrmætur í minningunni. Okkur fannst þetta öllum svo ómissandi að það féll varla úr sá sunnudagur sem ekki var farið í sunnudagaskólann og síðan þegar þær voru eldri í fullorðinsmessurnar eftir hádegið. Ég vona að dætur mínar eigi líka góða minningu um þennan tíma. Mér finnst það vera svona minningar sem gera mann svo ríkan og vega svo þungt í fjársjóðskistu minninganna.

Af kórsöng barnanna í Hlíðaskóla er það að segja að þau sungu svo vel og fengu að launum gott klapp í kirkjunni.

Dagurinn í gær hélt síðan áfram að vera góður. Við fórum auðvitað okkar venjulega flatkökurúnt í Kolaportið og síðan út á Granda að fá okkur kaffi og vöfflur sem eru svo góðar í Kaffivagninum,  nema í þetta sinn voru engar vöfflurnar en það var nóg annað til svo við fórum ekki svöng þaðan.  Síðan lá leiðin í Perluna til að forvitnast um það af hverju það var svona svakalega mikið af bílum þar fyrir utan. Í ljós kom að þar var hinn árlegi bókamarkaður. Við kíktum aðeins inn en það var alveg krökkt af fólki. Greinilegt er að fólki ætlar sér að lesa mikið í kreppunni. Það verður ekki af okkur tekið að við erum og verðum vonandi áfram mikið bókaþjóð.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Ein af þessum góðu helgum.

  1. þórunn says:

    Mikið áttuð þið góða helgi, gott að heyra að þú virðist vera orðin heldur betri í bakinu. Því verður ekki neitað að það voru góðar stundir sem maður átti með börnunum í kirkjustarfinu.
    Bestu kveðjur til ykkar allra,
    Þórunn

Skildu eftir svar