Að trúa á almættið eða ekki.

Það voru miklar umræður á Facebook einn daginn í vikunni, þegar eftirfarandi spurningu var varpað þar fram.

"Finnur þú einhverntíma til sorgar, reiði eða óánægju yfir því að Gvuð sé ekki til?
Hér merkir Gvuð, yfirskilvitlegt, almáttugt, algott og alviturt máttarvald sem hefur skoðanir á því hvernig menn hugsa og hegða sér. …."

Mér fannst svo sorglegt við lesturinn á svörunum sem komu við þessari spurningu, að sjá hvað það eru margir sem virkilega trúa eingöngu á mátt sinn og megin. Ég fann til hryggðar yfir því að svona margir hafi ekkert sér æðra til að beina huganum að á erfiðum stundum.

Ég hef verið að hugsa um það frá því að þessari spurningu var varpað fram, hvernig líf mitt hefði orðið, ef ég hefði ekki verið svo heppin að vera alin upp hjá trúuðum foreldrum og síðan eignast trúaðan eiginmann.  Þegar ég tala um trúað, þá er ég bara að tala um þessa gömlu góðu barnatrú sem fólk almennt hafði og leið vel með á þessum tíma og miðlaði síðan áfram til barna sinna og barnabarna. 

Þegar ég fer að velta þessu fyrir mér þá tengjast mínar ljúfust minningar á flestan hátt trúmálum. 

Fyrsta minningin er um það þegar ég var var bara smábarn, komin í rúmið á kvöldin og kallaði fram "Mamma, viltu koma með góða nótt kossinn og Faðirvorið".
Þetta voru svo ljúfar stundir og gott að sofna eftir bænirnar og faðmlag mömmu.

Fyrsti kennarinn minn í Langholtsskóla, hún Anna Magnúsdóttir hafði þann góða sið að byrja hvern dag á því að biðja Guð um að láta okkur líða vel þann daginn og síðan fórum við öll samam með Faðirvorið.  Enginn var að fetta fingur út í það að Guð væri ekki til af því hann sæist ekki- það kom bara ró og friður yfir börnin í skólastofunni og öllum leið vel og okkur var kennt að vera góð hvert við annað.

Ég man líka þegar við krakkarnir úr hverfinu fórum gangandi út að Hálogalandi til þess að vera í sunnudagaskóla hjá séra Árelíusi og seinna þegar við vinkonurnar vorum orðnar tíu eða ellefu ára og fórum að fara niður í Laugarnes til þess að mæta á fundi hjá KFUK. 

Ein minning kemur upp í hugann öll jól, allt frá því að við Oddur vorum búsett í Englandi og vorum í fyrsta skipti fjarri fjölskyldum okkar um jól.  Aðfangadagur er ekki haldinn hátíðlegur í Englandi heldur líkari því sem Þorláksmessa er hér heima. Við ætluðum samt að halda okkar jól og sem betur fer vorum við með sálmabók með okkur og eftir kvöldmatinn þá settumst við með Guðbjörgu litlu í fátæklega búna stofuna og sungum saman jólasálmana.  Ég gleymi þessu aldrei og hátíðlegri jól í öllum sínum einfaldleika, hef ég ekki lifað.   

Svona get ég lengi talið, því seinna  kom að því að ég fór að starfa fyrir Áskirkju og við hjónin bæði og þar átti ég líka mínar ljúfustu stundir með stelpunum mínum.

Nú hef ég talað um ljúfu stundirnar. En það er ekki bara þegar allt leikur í lyndi  og er svo fallegt og gott, sem maður hugsar um almættið.  Á erfiðustu stundum í lífinu hefur það einnig verið trúin á almættið, sem bjargaði mér.  Til dæmis í veikindum Odds, þá var erfitt að skilja hver tilgangurinn væri og hvað almættinu gengi til með því að láta slíkt gerast. 

Ég átti um tvennt að velja á þessum tíma:

a) Að vera reið út í  almættið fyrir það að líf mitt var allt í einu lagt í rúst og allir mínir draumar orðnir að martröð.  Af hverju ég? Hvað í ósköpunum átti ég nú að gera?

b) Að trúa því þó það væri erfitt, að það hlyti að vera einhver tilgangur með þessu og nú væri almættið að leggja fyrir mig próf sem ég yrði að standast. Ég yrði að spjara mig og halda utan um fjölskylduna. Ég skyldi sýna að ég kæmist í gegnum þetta.

Ég var ekki í vafa um, að seinni kosturinn væri sá sem ég ætlaði að velja og hvaðan haldið þið svo að ég hafi fengið hjálpina til þess að komast í gegnum þetta?  Frá almættinu.

Það þykir mörgum svo heimskulegt að trúa á það sem enginn hefur séð. Ég tek því þá bara með jafnaðargeði að vera talin heimsk af þessum sökum. 

Reiði læknar ekkert og gerir engum gott og svarið við  Af hverju ég? er einfalt – Af hverju ekki ég? Á ég að vera undanskilin öllum erfiðleikum í lífinu? Eru það bara hinir sem eiga að bera erfiðleikana en ég eigi alltaf að sleppa. Nei það fá allir sinn skammt og það er okkar próf í lífinu hvernig við vinnum úr því sem fyrir okkur er lagt. 

Við vitum öll hvað góðar hugsanir og gerðir gera mikið gott á meðan bölbænir, reiði og hatur gerir mönnum illt og heiminn verri.  Ég þarf ekki meiri sönnun fyrir Almættinu en ég hef fengið af eigin reynslu svo geta aðrir velt sér upp úr því hvort þetta er rökrétt eða ekki. Mér líður vel í minni trú á það góða og fallega og er þakklát fyrir öll þau skipti, sem ég hef fengið styrk og hjálp í gegnum trúna.   Ekki hefði ég fengið betri hjálp með því að leita huggunar í áfengi og eiturlyfjum svo mikið er víst og ekki hefði það gefið dætrum mínum betra veganesti.

———————-

Ekki stóð nú til að fara að skrifa svona langan pistil, en það má þakka fyrir að hann varð ekki ennþá lengri því af nógu er að taka.

Mér líður vel og það er himneskt að horfa út um gluggann og sjá
hvað almættið er óspart á að strá sólargeislum sínum 
yfir okkur einn daginn enn.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Að trúa á almættið eða ekki.

  1. Hafdís Baldvinsdóttir says:

    Takk fyrir þetta Ragna.

    Þú hefur þennan einstaka hæfileika að manni líður alltaf svo vel þegar maður er búinn að lesa pistlana þína.
    Takk kærlega, gott veganesti fyrir vikuna.

    Bestu kveðjur

    Hafdís Baldvinsd.

Skildu eftir svar