Lífsgleðin og matreiðslan.

Enn einu sinni er komin helgi og sú síðasta varla liðin. Stundum skelfir það mig hvað tíminn líður svakalega hratt. Vonandi liður hann líka hratt hjá mér í dekrinu í Hveragerði, en þangað fer ég eftir viku. Ég er svona að byrja að finna til það sem þarf að hafa með sér. Íþróttaföt og íþróttaskó býst ég nú við að nota mest yfir daginn. Útivistarföt og fjallgönguskó fyrir öll hugsanleg veður er alveg nauðsynlegt að hafa, því ef ég man rétt er nefnilega engin miskunn að fara í göngutúrana þó svo það rigni eldi og brennisteini. Síðan þarf auðvitað að hafa eitthvað annað en íþróttaföt til að vera í á kvöldvökunum og til að fara í í heimsóknirnar á Selfoss.  Svo er bara allt hitt sem ég er ekki búin að telja upp.  Úps, ég sé nú bara á þessari byrjunarupptalningu, að litla ferðataskan sem ég sótti út í skúr í dag er orðin of lítil. Jæja ég vona að veðrið sem nú gengur yfir með roki og éljum verði gengið niður á morgun svo ég geti farið út í skúr og leitað að stærri tösku.   

Af því það er komin helgi þá fletti ég upp í bókinni minni góðu
og fann þennan skemmtilega texta.

Lífsgleðin felst í því að uppgötva
að hamingjan var ekki borin á borð
fyrir mann á fínum diski heldur þurfti
maður að matreiða hana sjálfur.

Með þessum texta segi ég

Njótið helgarinnar, knúsið hvert annað
og hugið vel að matreiðslunni.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Lífsgleðin og matreiðslan.

  1. Mín kæra, ég ætla að njóta helgarinnar og elda góðan mat. Fyrsta helgin í margar vikur sem ég á algjört frí. Í skúrnum þínum hlýtur að leynast nógu stór taska fyrir allt dótið, en ekki gleyma tölvunni. Við verðum að fá að fylgjast með öllum teygjunum og leirböðunum. Kærust kveðja.

  2. Ragna says:

    Já, auðvitað má ég ekki gleyma því að setja tölvuna á listann. Hver veit nema ég haldi dagbók þarna ef ég verð ekki svo afslöppuð að ég nenni hvorki að hreyfa legg né lið

  3. Fer bakdyramegin. Ég fæ síðu Þórunnar í Austurkoti ekki upp nema í gegnum þig. Þórunn ef þú kíkir hér inn viltu tékka á þessu. Í gegnum mig og Svanfríði kemur upp beiðni að „create að blog“. Takk takk frá Hornafirði.

  4. þórunn says:

    Sæl Ragna mín, njóttu sem best verunnar í Hveragerði og komdu miklu hressari til baka.
    Sæl Guðlaug mín, leitt að þú skulir þurfa að fara bakdyramegin til að heimsækja mig. Ég veit ekki hvernig stendur á þessu en mér dettur í hug að þú ættir að prófa að setja inn í leitarvélina hjá þér http://austurkot.blog.com/ og vista svo síðuna aftur hjá þér. Gangi þér vel, Þórunn

Skildu eftir svar