Át og meira át.

Ég er nú að taka eftir því að þetta getur svona tæplega kallast dagbók hjá mér lengur því ég er hætt að færa nema svona á viku fresti.


Síðasta vika var mjög góð. Haukur kom austur á föstudag. Þá um kvöldið litu Hulla og Eiki aðeins inn. Það er alltaf svo gaman þegar þau líta inn á leið sinni á Selfoss.  Við fórum í göngutúr á laugardagsmorguninn en það var alveg svakalega kalt. Við fundum það nú ekki svo mikið á meðan við höfðum vindinn í bakið en Það beinlínis fraus á manni andlitið á leiðinni til baka. Eftir hádegið drifum við okkur svo í bíltúr um nágrannasveitirnar. Það má segja að á laugardaginn hafi verið svona gluggaveður því það var mjög gaman að fara í bíltúr í sólinni og sleppa við vindinn og kuldann. Ég keypti svo nokkrar bollur á heimleiðinni og Guðbjörg & Co komu og drukku með okkur bollukaffi. Um kvöldið skelltum við okkur svo í bæinn á gömludansaball í Ásgarði. 


Um hádegi á sunnudaginn fórum við í heilmikinn göngutúr um Hafnarfjörð og litum svo aðeins inn hjá Sigurrós, en Jói var á fullu að læra uppi í skóla.  Við stoppuðum nú ekki lengi því við vorum á leiðinni í 15 ára afmælið hans Darra. Eftir að hafa raðað í okkur krásunum í afmælinu þá drifum við okkur aftur austur á bóginn.  Á leiðinni hringdi Haukur og pantaði borð í Rauða húsinu á Eyrarbakka til þess að borða þar kvöldmat. Ég sagði honum nú sem var að ég væri nú ekki beinlínis svöng svona beint úr afmælisveislunni en hann sagði að það væri nú ekki konudagur nema einu sinni á ári og ég ætti enga undankomuleið að fara út að borða. Ég lagði nú ekki í að fara að borða einhverja stórsteik  svo ég pantaði mér sem aðalrétt humarsúpuna þeirra. Ég verð nú að játa að mér finnst humarsúpan sem ég fékk síðast í Fjöruborðinu á Stokkseyri vera betri þó þessi hafi verið mjög góð. Kannski var það bara af því að ég var ekki alvg nógu svöng. Best að dæma ekki of hart. Við áttum svo bara huggulegt kvöld hérna heima.


Á mánudaginn, hinn raunverulega bolludag þá bakaði ég bollur og Guðbjörg kom með krakkana í kaffi seinni partinn. Um kvöldið héldum við Haukur svo áfram, en það var nú bara af eintómri skyldurækni, 🙂 að borða bollur. Á þriðjudagsmorguninn tók ég mig hinsvegar til og hennti bollunum sem eftir voru því ég fékk alveg ógeð á sjálfri mér að vera búin að sukka svona í sætindunum og sjálf sprengimáltíðin eftir. Ég hef nú ekki vogað mér á vigtina, ýtti henni bara betur undir skápinn.  En hvað um það þá kom Guðbjörg með krakkana í saltkjötið í gærkvöldi en Haukur var farinn í bæinn til að reyna að sofna eitthvað fyrir næturvaktina.


Ef einhver hefur áhuga þá er ég búin að setja þó nokkuð inn af uppskriftum en ég á eftir að bæta við. Það væri nú gaman að fá senda svona eina og eina góða uppskrift til að setja í safnið.  Ég hef líka verið aðeins að færa inn úr skipsdagbók „DÓRUNNAR“ en ég verð að passa mig að vera ekki of lengi í einu. Það er reyndar ekki auðvelt að tempra það því að það er svo skemmtilegt að fara í gegnum þetta. Samt svoldið skrítin tilfinning. Það kæmi mér ekki á óvart að hún systir mín væri hérna nálægt mér á meðan ég er að færa handritið hennar í tölvutækt form.


Nú er bara að drífa sig í rúmið og halda áfram að lesa „Birthright“ þangað til Óla Lokbrá þóknast að koma með draumana sína.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Át og meira át.

  1. Uppskriftirnar eru magnaðar!
    Sæl Ragna!
    Takk fyrir þetta uppskriftaframtak. Þar má finna ýmislegt sem maður verður hreinlega að prófa. Ég þarf reyndar sjálf að passa mig á hvítum sykri og hveiti en ég er viss um að ég get alveg bakað og boðið upp á án þess að freistast sjálf (gat það amk við jólakonfektið). Farðu vel með þig. Kveðja, Anna Sigga

Skildu eftir svar