Dagur fimm

Vaknaði hress eftir góðan svefn í nótt. Það skyldi þó aldrei vera að nýja dýnan hafi gert útslagið.

Dagskráin var svona nokkkuð hefðbundin í dag – þétt skrifuð að vanda. Eftir vatnsleikfimi, göngutúr út að Ölfusborgum, háls og herðaleikfimi, Tai Chi æfingar,  svo eitthvað sé nefnt, þá var yndislegt að komast í nálastungur og ég steinsofnaði þar á maganum með allar nálarnar í bakinu. 

 

Það er svo sem lítið fréttnæm í dag en ég setti inn nokkrar myndir.

 

Hér er fólk að safnast saman í gönguna.

 

hverage1.jpg

     Þessar Þessar endur urðu á vegi okkar og voru alveg tilbúnar að pósa.  

hverage2.jpg

 og svo er það myndin af köldu bununni.
Hér er eitt fórnarlambið. Kveljarinn situr á litlum kolli og sprautar ísköldu vatninu. 

hverage5.jpg

Það sagði einhver í röðinni í morgun, að sá sem kælir okkur sé þýskur og sá segist sjálfur fara í 90°heita gufu og sprauta síðan á sig svona ísköldu vatni. Þetta hafi hann vanist á í þýskalandi á árunum áður. Mér finnst þetta ótrúlegt því ég hélt að 90°gufa brenndi mann. Við sem í röðinni stöndum megum alla vega þakka fyrir að fá ekki níutíu gráðu hitann líka.

Nú er orðið áliðið og ró og friður kominn yfir staðinn. Margir fóru heim til að vera þar um helgina og hinir eru komnir inn á herbergi.  Tveir kallar eru hérna framan við að spila billjard og svo sit ég hérna ein með tölvuna mína að setja smá pistil og myndir inn. Ég er svona seint á ferðinni (hálf ellefu) til að smella þessu inn því í kvöld þegar ég ætlaði að vera aðeins hérna frammi með tölvuna þá kom í ljós að það var búið að taka rafmagnið af öllum tenglunum í þessu eina herbergi sem hægt er að ná netsambandi, svo við vorum þrjú sem skildum ekkert í því að við gátum ekki kveikt á tölvunum okkar aftur þegar við komum frá því  að horfa aðeins á sjónvarpið.  Inni á herbergi var hinsvegar nóg rafmagn svo ég gat hlaðið og skokkað svo aftur fram með tölvuna undir hendinni.

Ég nennti ekki að fara í bæinn um helgina,  heldur ætla ég að njóta þess að það er engin dagskrá þessa daga. Ég ætla aðeins í tækjasalinn á morgun og síðan í heitu pottana. Hvílíkur lúxus. Svo fæ ég kannski heimsókn ef vel viðrar, kannski á sunnudaginn, því Guðbjörg og familía ætluðu að skreppa og hitta þá gömlu.

Nú er fyrsta vikan liðin og nú blogga ég ekki á hverjum degin. Kannski skelli ég einhverju inn eftir helgina eða í vikunni það fer eftir tíðindum.

Njótum öll helgarinnar
verum bjartsýn og gerum hvern dag góðan

 

        

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Dagur fimm

  1. þórunn says:

    Góða helgi
    Sæl Ragna mín, það var gaman að sjá myndirnar þínar sérstaklega fróðlegt að sjá kvalarann með vatnið. Gott að þú svafst vel og ég óska þér góðrar helgar og áframhaldandi góðum svefni.
    Bestu kveðjur frá okkur Palla, Þórunn

  2. Svanfríður says:

    Sæl Ragna mín. Það er alveg pökkuð dagskrá þarna hjá þér, ég get vel trúað að þú sért tilbúin á stefnumót við Óla Lokbrá öll kvöld. Vonandi finnurðu einhvern mun á þér bráðlega. Njóttu þín og vegni þér vel.

Skildu eftir svar