Vika tvö í heilsuparadísinni.

Það væri sko vanþakklæti að segja að hér væri ekki gott að vera og ég mæli með þessum stað fyrir þá sem þurfa að auka orku, ná betri tökum á verkjum og einnig fyrir þá sem þurfa að komast í burtu frá stressi og álagi. Svo eru auðvitað líka þeir sem eru að vinna sig niður í þyngd.


Það er alveg ótrúlegt hvað fólk sem er að greiða stórfé fyrir að vera hér lifir miklu blekkingarlífi.  Ég heyrði t.d. einn sem er í þungavigtarflokki segja við annan hérna frammi á setustofu einn moroguninn á meðan við biðum eftir að það yrði opnað í morgunmatinn..  “ Þú misstir aldeilis af fjörinu í gærkveldi”.  “Já ég frétti af því “ svarar hinn.  Þá segir sá fyrri. “Blessaður vertu maður, það var ekki bara það að við fengum okkur stóra pizzu heldur fengum við okkur bjór með”. – Þeir höfðu sem sé farið kvöldið áður á Kidda Rót og raðað í sig fitandi kræsingum.  Ótrúlegt að plata svona sjálfan sig og greiða stórfé fyrir. 

 

Ég held áfram að hitta fólk sem þekkir sama fólk og ég og þá sem reynast vera skyldmenni mín við nánari samtöl.  Þannig hitti ég á frænda sem er það mikið skyldur mér að langafi minn Rögnvaldur sem ég heiti í höfuðið á, var einnig langafi þessa manns. Þetta kom allt til af því að ég heyrði menn á “Leynikaffistofunni”  vera að tala um Eyri í Seyðisfirði fyrir vestan.  Ég sperrti við eyrum og heyrði að þessi maður hafði alist þar upp sem barn en síðan flutt norður í land.  Móðursystir mömmu Rannveig bjó á Eyri og mikið rétt hann hafði verið hjá henni, en mamma hans var systurdóttir Rannveigar.   Svona er heimurinn lítill og enn minni hérna á þessum stað en nokkurs staðar annars staðar.

 

Þannig kom kona sem var nýkomin hingað, á móti mér í einum langa ganginum og þegar við mættumst þá segir hún “Er þetta ekki Ragna?” Ég sá strax að ég átti að vita hver konan var en kom því ekki fyrir mig en tengdi það við Odd heitinn og spurði hvort hún hefði verið í Verzlunarskólanum með Oddi.  “ Nei, en ég vann á Reykjalundi”.  Þá áttaði ég mig en var undrandi á að hún mundi eftir mér og það með nafni.
Ég hef hitt mikið af fólki úr Rangárvallasýslunni sem þekkti fólkið frá Heiði, ekki þó tengdamömmu, því hún flutti til Reykjavíkur þegar hún gifti sig, en hin sem hafa alltaf búið í sveitinni.  Svo er ég alltaf að hitta á einhverja sem þekkja Eddu systur mína.

 

Já það sannast enn og aftur hvað við Íslendingar erum mikil stórfjölskylda og mikið óska ég þess að við getum haldið þessu einkenni okkar sem er svo notalegt og skemmtilegt.  Það er líka þannig á svona stað að fólk er að spyrja hvaðan aðrir koma og þá koma alltaf einhver tengsl. Meira að segja Sigurrós, sem kom í heimsókn í dag með Rögnu Björk, hitti á leiðinni út konu og þær virtust kannast hvor við aðra svo Sigurrós spurði hana hvort hún hefði ekki verið kennari í Laugarnesskólanum, jú mikið rétt og hún sagðist alveg muna eftir Sigurrós þó hún hafi ekki verið hennar kennari heldur var hún kennari vinkonu Sigurrósar.   Já, þetta er bara yndislegt.

 

Fyrir utan heimsókn Sigurrósar í dag þá komu Guðbjörg, Magnús Már og Ragnar Fannberg til mín um síðustu helgi og Edda Garðars kom mér alveg gjörsamlega á óvart í vikunni með  því að taka á móti mér  á ganginum þegar ég var að koma úr Tai Chi leikfiminni.  Á morgun ætlar Haukur svo að koma og talaði um að við skryppum eitthvað í bíltúr.  Ég er því umvafin ástvinunum hér.  Annars er svo stíft prógram flesta daga, að það er varla að það sé hægt að heimsækja mig, en þó koma auðvitað dagar sem ég er laus eftir kaffi.  Svo verður ekkert prógram frá skírdegi fram á annan í Páskum  en það er mælst til þess að maður sé á staðnum og fari eftir æfingaprógrammi milli þess sem maður fari í laugina og slaki vel á.

  

Við vorum að kíkja á matseðilinn þessa daga og það er sko eitthvað til að hlakka til – ístertur og frómasar í eftirrétt alla dagana – nammi namm – Allir tóku sérstakilega eftir því hvað var í eftirréttina, en auðvitað er líka lagt meira í allan mat þessa daga.

 

Ég var búin að ætla mér að fara í burtu yfir páskana en er nú að hugsa um að fara að ráðleggingum sjúkraþjálfarans og vera sem mest hér til að missa ekki niður æfingarnar.  Ég var t.d. mætt í morgun, eins og um síðustu helgi, klukkan hálf átta í líkamsræktina og tók mér svo  góðan tíma í heitu pottunum og gufubaðinu á eftir.

 

Nú er ég búin að sitja við tölvuna of lengi við að setja inn þennan texta, það segir alltaf strax til sín þegar ég sest með tölvuna til skrifta hér, enda aðstaða til slíks ekki góð.

 

 Njótið vel helgarinnar og hugsið um hvað við
eigum dásamlegt land, þar sem íbúarnir eru allir
tengdir á einn eða annan hátt.
Fuglasöngurinn sem
var hérna fyrir utan gluggan minn í morgun minnti
líka svo rækilega á hvað
árstíðirnar okkar eru
dásamlegar og nú fann ég að vorið var bara
hérna rétt handan við hornið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Vika tvö í heilsuparadísinni.

  1. Sigurrós says:

    Takk fyrir samveruna í dag, elsku mamma mín 🙂
    Knús og kveðja,
    Sigurrós

  2. Guðbjörg says:

    Sæla
    Mikið er ég glöð að þér líður orðið svona vel. Þetta með fólkið sem er í megruninni, þá man ég þegar ég fór stundum í Eden að maður sá einhverja mjög feita að troða í sig hamborgara þar. það læddist að manni sú hugsun hvort þeir væru að svindla á megruninni í Heilsubælinu. Hafðu það gott um páskana.

  3. Ragna says:

    Þakka ykkur fyrir stelpur mínar. Mér þykir svo óendanlega vænt um ykkur og sendi stórt knús til allra.

  4. þórunn says:

    Tóm sæla
    Það er gott að þú skulir kunna að meta og nýta þér sæluna þarna, eins og það er sorglegt að sumir skuli taka þessu svona létt og taka upp pláss sem aðrir sárþjáðir bíða eftir. Takk fyrir að segja okkur fréttir frá staðnum. Bestu kveðjur, Þórunn

  5. Anna Bj. says:

    Didda mín, mikið er gaman hvað þú ert dugleg og skynsöm. Hugsa oft til þín, en alltaf er á tali þegar ég hringi. Nú er kl. orðin svo margt. Gangi þér sem best áfram.

Skildu eftir svar