Er ekki lífið dásamlegt !

Það er ennþá rökkur,en þegar ég lít út um gluggann blasa hvarvetna við ljósaskreytingarnar hérna í kring. Mér sýnist svolítið snjólegur himininn svo ég gæti trúað því að það eigi eftir að snjóa eitthvað í dag.

Klukkan er rétt rúmlega níu um morgun, ég er búin að kveikja á kertum, setja á kaffikönnuna og nokkrar smákökur á disk og bíð eftir gamalli vinkonu í morgunkaff.  Ég elska svona heimsóknir í morgunskímunni.   Svona finnst mér notalegast að hafa það á aðventunni. Baka snemma og njóta svo hvers augnabliks.

Það er um að gera að virkja líf sitt þannig að það sé sem mest ánægja að því að vera til. Þegar ég syrgi það að hafa þurft að hætta allt of snemma að vinna þá  get ég til dæmis þakkað fyrir að hafa tíma og tækifæri til þess að byrja daginn á því að fá vinkonur í kaffisopa.  Eftir hádegið er mér boðið til góðrar vinkonu og í kvöld fer ég á tónleika hjá Unglist þar sem Karlotta mín hefur æft söng og leiklist  í haust.  Nú svo er elsku gamli saumaklúbburinn minn á morgun. Svona líða nú dagarnir og ekki verra þegar ég get skutlast með barnabörnin eitthvað – þau vita að amma vill vera  til taks þegar á þarf að halda, en reyna samt alltaf fyrst að bjarga sér með strætó.  Stundum er tíminn hjá þeim samt of knappur til að komast í tæka tíð með strætó og þá er amma svo heppin að geta sótt þau í skólann og skutlast með þau milli staða.

Já er ekki lífið dásamlegt 🙂

This entry was posted in Hugleiðingar mínar. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar