Í skóinn.

Já nú er aðal annatíminn kominn hjá jólasveinunum. Ég áttaði mig á því í gærmorgun þegar ég kom til að vera aðeins hjá  litlu ömmustelpunum mínum.  Þegar ég kom til þeirra þá sýndi  Ragna Björk mér litla skrifblokk og teygjurnar sem hún var með í hárinu og sagði hreykin að Stekkjastaur hefði gefið sér þetta.  Svo sagði mamma hennar mér að hún hefði komið inn til sín um morguninn  og spurt hvort það væri kominn dagur.
Þegar mamman var búin að sjá að klukkan var tíu mínútur yfir sjö staðfesti hún að jú, jú það væri kominn dagur.  Þá  spurði nafna mín  hvort það myndi  þá vera allt í lagi að kíkja út í glugga og athuga hvort Stekkjastaur hefði gefið henni eitthvað í skóinn og fór inn til sín að athuga það og varð heldur betur hrifin þegar hún sá litlu blokkina og teygjurnar.
Mér fannst þetta alveg yndislegt því yfirleitt spyrja börn nú ekkert að því hvort þau megi kíkja og vakna jafnvel að nóttunni til að athuga með skóinn í glugganum.  Svo sagði hún seinna um daginn að Stúfur kæmi á morgun og hann hlyti að gefa henni eitthvað „alveg pínulítið’  og hún sagði þetta með mjóróma rödd, því hún var jú að tala um Stúf – svo mátaði hún með fingrunum  hvað það hlyti að verða lítið – , „Sko, af því hann er sjálfur svo lítill“.

Ég hef verið að velta því fyrir mér í auglýsingaflóðinu undanfarið, þegar  auglýsingunni hefur verið beint til jólasveinanna sem gefa í skóinn, að það sé fínt að gefa spjaldtölvur, síma, tölvuleiki og fleira rándýrt dót.
Þetta eru auglýsingarnar, en svo heyrir maður að börn séu virkilega að fá slíka hluti í skóinn  (oft eitthvað sem alls ekki kemst einu sinni ofaní nokkurn skó) og sýni svo hróðug vinum sínum sem ef til vill hafa  fengið mandarínu eða eitthvað eðlilegt í skóinn sinn.

Upphaflega þegar íslensku jólasveinarnir tóku upp á þessum sið að gefa í skóinn þá voru þetta alltaf litlir hlutir og í sumum tilfellum kannski smákökur eða mandarínur og svo heyrði maður einstaka sinnum talað um kartöflur, en auðvitað voru allir svostilltir og góðir á þessum tíma fyrir jólin að smáfólkið reyndi nú að forðast kartöfluna.

Núna finnst mér þetta í mörgum tilvikum komið svo langt út fyrir það sem hægt er að þola og svei þeim  jólasveinum sem koma inn hjá börnunum svona  græðgi og ekki er þetta til þess að kenna þeim að meta það sem gert er.  Í þessum tilfellum snýst þetta  bara um það hvað maður fékk ég dýrt og flott dót. Svo er þessu sjálfsagt hent til hliðar og byrjað að spá í hvaða flotta dót komi á morgun.

Mér kom þetta í hug  í gær þegar ég sá hvað hún litla nafna mín ljómaði yfir litlu skrifblokkinni sinni. Það er gott að geta vanið sig á að það þarf ekki allt að vera dýrt og stórt til þess að hægt sé að gleðjast yfir því.

 

This entry was posted in Hugleiðingar mínar. Bookmark the permalink.

4 Responses to Í skóinn.

 1. Linda says:

  Algerlega sammála, svei þeim jólasveinum sem hafa enga skynsemi. Og ekki bara út af græðginni, heldur er erfitt að útskýra fyrir litlum börnum af hverju þessi fékk hitt og hinn fékk þetta, þegar ég fékk bara mandarínu og lítinn bíl!
  Verðum að passa að jólasveinninn geri ekki upp á milli barnanna..

 2. Anna Bj. says:

  Ég er alveg sammála þér Didda mín. Mikið hafði nú minn jólasveinn fyrir hlutunum í den. Nú er þetta liðin tíð hjá mér (sem betur fer), en oft hló maður innra með sér, sérstaklega þegar elsta barnið mitt sagði, að ,,jólasveinninn væri sko besti vinur sinn“.

 3. Svona græðgi er ólíðandi. Sumir jólasveinar eru svo hugsunarlausir og vitlausir ef ég má segja svo með kærri í bæinn.

 4. Sigurrós says:

  Skrifblokkin og teygjurnar komu reyndar ekki saman, annað var frá Stekkjarstauri en hitt frá Giljagaur 😉
  Og kurteisin við að þora ekki að kíkja í skóinn fyrr en það væri kominn dagur leið síðan hjá og hún er nú alltaf búin að sækja góssið sitt áður en hún trítlar inn til okkar á morgnana 🙂
  En hún er dugleg að fara að sofa til að sveinki fari örugglega ekki framhjá og um daginn þá skipaði hún foreldrunum líka að fara snemma að sofa því jólasveinninn kæmi ekki fyrr en allir væru sofnaðir!

Skildu eftir svar