Athyglisvert á Tenerife – íslenska efnahagshrunið.

Einhvern fyrstu dagana þegar við fórum í göngutúr út á DUKA strönd þá rölti ég einn hring inni í búð á leiðinni. Afgreiðslukonan, bresk, sem  í ljós kom að var búin að búa í einhverja áratugi á Tenerife fór að spyrja hvaðan við værum og kom þá í ljós að hún var býsna fróð um Ísland, um hrunið og almennt um ástandið á Íslandi og fór beint í að gera það að umtalsefni.  Hún sagði að eitt skyldum við vera þakklát fyrir, að vera ekki komin í ESB og hafa ekki verið búin að taka upp EVRUNA. Við skyldum berjast gegn því eins og við gætum.  Hún sagði að böl Spánar hafi  fyrst byrjað fyrir alvöru eftir að Spánn gekk í ESB og Evran hafi verið tekin upp.  Atvinnuleysi hafi strax aukist og aldrei verið meira en nú og allt orðið svo vonlaust.

Ég er nú engan veginn eins vel inni í efnahagsmálum Spánar eins og þessi kona var fróð um efnahagsmál okkar.  Hún sagðist vera búin að fylgjast vel með þeim frá upphafi og fundist við vera svo heppin að hafa ekki tekið upp Evruna.  Þegar við kvöddum þá sagði hún – Munið bara að ganga ekki í ESB og taka ekki upp Evru.  Ég sagði að ég væri henni algjörlega sammála, en krónan væri erfið fyrir unga fólkið sem skuldaði mikið.  Hún spurði þá hvort það vildi heldur fara inn í myntsvæði sem stæði eins illa og Evran nú og greiða stórfé til þess að bjarga Grikklandi, Spáni  og öðrum löndum  til þess að koma þeim út úr miklu kreppuástandi,  eftir að Ísland sæi fyrir endan á sínum erfiðleikum.   Ísland er alveg sérstakt og verið  endilega áfram sjálfstæð.

Ég verð að segja að ég var afskaplega hissa á að lenda í þessu samtali og  hvað konan var áköf í máli sínu.

Það fór líka skoskur maður að tala við okkur á hótelinu einn morguninn og þegar hann heyrði að við værum frá Íslandi þá kom í ljós að hann var líka búinn að fylgjast vel með málum hér. Hann talaði vinsamlega um íslendinga en var hissa á að bankaræningjarnir hefðu ekki verið settir beint inn í fangelsi.  Svo sagði hann hann að við skyldum vara okkur á því að ganga inn í ESB – það stæði á brauðfótum í dag og Evran  væri  gjaldmiðill sem daglega væri verið að reyna að bjarga – við þyrftum ekki á slíku að halda og við skyldum  forðast að koma nálægtESB og Evrunni  þessa stundina.
Það fyndna var að þessi skoski beindi alltaf máli sínu til Hauks, sem aldrei  svaraði einu orði því hann tjáir sig ekki a ensku. Ég hins vegar svaraði, en hann hélt áfram að horfa á Hauk þegar hann talaði.  Reyndar stóð konan hans til hliðar og sagði ekki orð. – Kannski var þessi gamli karl ( allavega eldri en við)   ekki vanur því að konur væru að tjá sig.   Þetta var mjög fyndið.

En mér fannst svo athyglisvert að ókunnugt fólk færi að tjá sig um þessi mál um leið og það heyrði hvaðan við værum , og hvað það var vel heima í því sem hefur verið og er að gerast á Íslandi og er að gerast í dag.    Kannski erum við bara nafli alheimsins þegar allt kemur til alls.

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar