Smá uppfærsla á þriðja degi.

Þakka ykkur fyrir allar góðu kveðjurnar og Sigurrós mín þakka þér fyrir að setja inn póstana.
Skurðlæknirinn hann Kristján Skúli er nú ekki par hrifinn af því að ég fékk ekki inni á sjúkrahótelinu. Hann segir að meðferðin sé miðuð við að það séu tveir dagar á sjúkrahúsinu eftir aðgerð og svo beint á sjúkrahótelið í viku til 10 daga. Nú eru hins vegar svo fá pláss þar að ekkert er laust eða losnar neitt næstu daga. Við sem erum í þessari stöðu þurfum því að fara daglega á spítalann eða sjúkrahótelið til þess að láta losa úr drenunum og setja nýja poka, hvernig sem okkur líður þessa fyrstu daga. Í morgun var mér svo rosalega óglatt, með magapínu og  svima svo  ég hélt að ég kæmist ekki niður á spítala.  Eftir að borða slatta af suðusúkkulaði að ráði Hauks, þá losnaði ég nú við magapínuna, en sviminn og ógleðin gáfu sig ekki.  Líklega þoli ég ekki tvö af lyfjunum sem ég átti að taka, annað er morfínskylt lyf og svo sterkt Ibufen. Því var skipt út fyrir annað svo ég er búin að vera heldur hressari seinni partinn í dag, eftir að ég kom heim af göngudeildinni þar sem ég fór í blóðprufur og fleira og lá á bekk í á þriðja  tíma í dag. Læknar og hjúkrunarfólk er allt alveg dásamlega gott og umhyggjusamt og hvað sem hver segir þá má bara alls ekki kenna því um að ástandið er svona. Ég segi enn og aftur að ég er undrandi á því að það skuli sætta sig við þessar aðstæður og skuli ekki vera allt farið úr landi.

Ég vona að ég vakni hressari á morgun og einnig að blóðþrýstingurinn hætti að vera í limbói ýmist upp eða niður.   Svona er nú ástandið hjá jákvæðu konunni í Salahverfinu – Hún hefur bara hreint ekkert verið gleiðbrosandi og jákvæð í gær eða í dag, hefur bara ekki haft orku til þess. En nú er hún farin að skrifa á tölvuna svo hún hlýtur að vera að hressast og þýðir ekkert lengur að vera með neitt væl eða víl.  Morgundagurinn verður sem sagt betri og ekki orð um það meir.

Góða nótt kæru vinir og vandamenn – þið hafið reynst mér alveg dásamlega vel með allar ykkar góðu kveðjur, bænir og óskir.

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

8 Responses to Smá uppfærsla á þriðja degi.

  1. Sigurrós says:

    Vona svo sannarlega að þér líði eitthvað betur á morgun – og ef ekki, að læknarnir haldi þér þá eftir þegar þú ferð í tékkið á morgun.

    Mundu svo bara að þú ert alveg einstök og ert svo sterk, þú flýgur í gegnum þetta allt saman eins og annað sem þú hefur sigrast á í gegnum tíðina 🙂

  2. Katla says:

    Það er bara e-ð svo rangt við það að heilbrigðiskerfið sé ekki betra sett eftir alla þá velferð sem við höfum þó haft þrátt fyrir hrun, og að ég tali nú ekki um fyrir hrun.
    Elsku Ragna, það er ekki alltaf hægt að brosa en ég veit þú gerir þitt besta og jákvæðnina og dugnaðinn hefur þú þrátt fyrir allt. Hugsa mikið til þín. Hjartans kveðjur frá okkur Pétri.

  3. Hafdís Baldvinsdóttir says:

    Ragna mín ég vona svo sannarlega að þér fari að líða betur. Þú ert algjör hetja, alveg hræðilegt að vera hent svona heim. Sendi þér allar mína bestu bataóskir. Það á að skíra þá stuttu á morgun, læt þig fylgjast með.

    Kærar kveðjur til ykkar allra.
    Hafdís Baldvinsdóttir.

  4. Ég flokka það nú ekki sem skort á jákvæðni þótt brosið sígi aðeins við þessar aðstæður Ragna mín. Ég hugsa til þín og vona að dagurinn í dag verði betri en gærdagurinn.

  5. Elísabet H Einarsdóttir says:

    Þú ert alveg ótrúlega dugleg. Jákvæðnin gerir ekkert annað en að hjálpa, svo held ég að það sé gott að hlusta á góða tónlist. En þetta er ótrúlegt ástand á sjúkrahúsunum. Margir undrast hvað fólkið er yndislegt við svona erfiðar aðstæður.
    Kærar kveðjur til ykkar allra og bestu batakveðjur til þín elsku frænka mín.

  6. þórunn says:

    Þetta finnst mér alveg ótrúlegar aðstæður og merkilegt að enginn skuli kvarta opinberlega, en hvernig á fólk að hafa þrek til að kvarta þegar það á nóg með að standa upprétt? Ragna mín ég hugsa mikið til þín og bið þess að hver nýr dagur verði þér betri en dagurinn á undan. Þú ert sannarlega rík að eiga svona góða að eins og raun ber vitni.
    Bestu kveðjur frá okkur Palla,
    Þórunn

  7. Þetta er mikil púlvinna elsku Ragna, gangi þér vel með kærri frá okkur Bróa.

  8. Anna Bj. says:

    Elsku stelpan, allar góðar bænir til ykkar Hauks og fjölskyldunnar. K.k.

Skildu eftir svar