Það gengur bara ekki…

..að vera með dagbók og skrifa ekki í hana reglulega, svo nú ætla ég aðeins að betrumbæta. Ég er bara í nokkuð góðum gír eftir Hveragerðisdvölina og svei mér þá ef ég lít ekki aðeins skár út, en ég gerði áður en ég fór þarna í dekrið. Það er a.m.k. kominn smá glampi í augun aftur, það sýnist mér a.m.k. 🙂 og ég  hef náð því að vera betri í hálsliðunum.  En betur má ef duga skal, því það verður að halda áfram að vera í einhverri líkamsrækt.  Nú bíð ég eftir því að komast að í vatnsleikfimi á Grensási og vonast daglega eftir hringingu um að ég komist þar að.  Það er nefnilega ekki gott, en þó svo ótrúlega auðvelt, að detta niður í aðgerðarleysi eftir heimkomu úr endurhæfingu.  Ég kalla það ekki að vera í líkamsrækt þó ég hitti vinkonur öðru hvoru og við lyftum til skiptis kaffibollum upp að bleikmáluðum vörum okkar. Það  flokkast líklega heldur ekki undir likamsrækt, þegar ég halla mér aftur í Lazyboystólnum og lyfti upp eins kílóa lóðunum mínum nokkrum sinnum, á meðan ég horfi á eitthvað í sjónvarpinu. Eitt er það þó sem gæti flokkast undir líkamsrækt, en það er þegar ég set gömludansatónlist í tækið og hringsnýst hérna alein um gólfin í polkum og rælum þegar  enginn sér til.  En þið lofið mér nú að segja ekki nokkrum manni frá þeirri íþrótt minni.
Til þess að örva andann og heila líkamann, þá hef ég farið fyrir hádegið á mánudögum og miðvikudögum niður í Krabbameinsfélag í Qi Gong til Gunnars Eyjólfssonar. Þetta eru ekki jafnvægisæfingar heldur hugleiðsla, sem er afskaplega góð bæði fyrir líkama og sál.  Já, svona hefur nú lífið eftir Hveragerði gengið fyrir sig. 

Nú hlakka ég til þess að fara með litlu fjölskyldunni minni í vetrarfrí í sumarbústað 🙂  Það er nefnilega svo gaman að eiga dætur sem eru kennarar og eiga vetrarfrí eins og börnin. Það besta er þó að við förum alltaf öll saman í bústað í svona fríum og nú er eitt slíkt um næstu helgi.  Þetta verður þó í fyrsta skipti sem hvorki Karlotta eða Oddur Vilberg verða með, því þau verða bæði á Akureyri á skíðum með pabba sínum.  Ég á sko eftir að sakna þeirra, en það verður samt gaman hjá okkur fullorðna fólkinu og litlu strumpunum – það er ekki spurning 🙂

Ég get bara ekki skilið við þessa færslu án þess að minnast á hvað dagurinn er alltaf að verða lengri og lengri og minnir á að vorið er ekki svo ýkja langt undan. það er orðið bjart nokkuð snemma á morgnanna og sólarlagið er ekki fyrr en um kvöldmat.  Ég set hérna eina sólarlagsmynd því ég á svo margar – get aldrei á mér setið að spretta upp frá matborðinu á kvöldin, grípa myndavélina og æða út á svalir til þess að taka mynd, já enn eina sólarlagsmyndina.

This entry was posted in Helstu fréttir., Ýmislegt. Bookmark the permalink.

One Response to Það gengur bara ekki…

  1. Það er gott að þú finnur bót, en þetta með ræktina, maður verður að hafa einhvern til að ýta á eftir manni. Ég get svo svarið að það er mjög auðvelt að súnka niður! Bílífjúmí mín kæra með kveðju frá okkur Bróa.

Skildu eftir svar