Kalkúnn eða veislukjúklingur með fyllingu.

Hættið ekki við þó lesturinn sýnist mikill og flókinn þetta er ekkert mál. 

Efni:
Aðferð:
150 gr. Smjör
350 gr. Nýir sveppir
200 gr. Laukur
1 – 2 stk. Sellerí
½ knippi steinselja eða 2 msk. þurrkuð
1 msk. Salvia
300 gr. Skinka
(100 gr. Helsihnetur) má sleppa.

150 gr. Brauðteningar (rista og skera skorpu af, síðan í teninga.
2 dl. Rjómi
2 stór egg
½ tsk. Salt og
1 tsk. Ferskur malaður pipar
(má bæta við eftir smekk.

Minni fjölskyldu finnst veislukjúklingurinn betri en Kalkúnn en það er verst að erfitt er að fá hann nema með fylllingu. Fyrir okkur  kemur hinsvegar ekkert annað til greina en þessi uppskrift í fyllinguna.

Fyllingin:
Smjörið er brætt í stórum potti. Allt grænmetið smátt skorið sett út í smjörið ásamt kryddi og látið krauma í 10 mínútur eða þar til grænmetið er orðið mjúkt. Brauðmolunum (og hnetunum) bætt út í og látið kólna lítillega.
Egg og rjómi er hrært saman og síðan blandað samanvið það sem komið er.
Kryddað með salti og pipar.

Fyllinguna má útbúa daginn áður og geyma í kæli, en setja ekki í fuglinn fyrr en um leið og fuglinn fer í ofninn.
Hreinsa fuglinn vel utan og innan
 

Matreiðsla kalkúnsins:
Hvert kilo af Kalkún á að duga fyrir tvo eða þrjá gesti svo ræðst auðvitað líka hvort folk vill eiga afgang til að njóta næstu daga.

Ef Kalkúnninn er frosinn þá er best að þíða hann í kæli svo að sem minnstur safi tapist úr kjötinu. Ef geyma á fuglinn í kæli í einhverja daga á að taka innmatinn úr honum og geyma sér til þess að nota t.d. í sósu en þá þarf að sjóða innmatinn í svona klukkutíma til að ná kraftinum.

Áður en fyllingin er sett í fuglinn þarf að hreinsa hann mjög vel og þerra síðan vel bæði utan og innan og enda á því að nudda vel með sítrónu(innan og utan).
Hluti af fyllingunni er settur í hálsaopið og síðan saumað fyrir gatið eða því lokað með tannstönglum. Síðan er fyllingin sett í sjálfan kalkúninn og sauma fyrir. Það er líka hægt að hnoða álpappír og setja í gatið en ég hef ekki prufað það sjálf.
Varast skal að troðfylla fuglinn því fyllingin bólgnar út við steikingu.
Að lokum er salti og pipar nuddað á fuglinn og nokkrar smjörklípur settar á hann hér og þar.
Gott er að snúa upp á vængina þannig að þeir vísi fram því þá verður fuglinn stöðugri í ofninum.  Oft eru leggirnir líka bundnir saman fyrir steikingu svo þeir standi ekki út í loftið þegar kalkúnninn er borinn fram.  Bringan á að snúa upp þegar fuglinn er settur í pottinn eða ofnskúffuna, en best er að elda hann í lokuðum ofnpotti eða á grind í ofnskúffu og breiða þá yfir hann álpappír.

Fuglinn er settur inn í 150° heitan ofn og steiktur í 40 – 45 mínútur á hvert kilo.
Varast að steikja kjötið of lengi (ofnar eru mismunandi og ekki bara hægt að fara eftir tíma á hvert kilo).

Nauðsynlegt er að ausa yfir fuglinn nokkrum sinnum þegar líða fer á steikingartímann.
Ef fuglinn er fullsteiktur fyrir áætlaðan tíma skal taka hann úr ofninum og vefja stykki utan um pottinn en ekki geyma fuglinn inni í ofninum.

Góð regla er að stinga í innanvert lærið 30 mínútum áður en áætluðum steikingartíma er lokið og ef vökvinn sem rennur úr er glær er fuglinn tilbúinn.  

Þegar 15 – 20 mínútur eru eftir af steikingartímanum er tekið ofan af fuglinum og hann látinn brúnast við 200 – 250°.
Gott er að nota kjöthitamæli til að fylgjast með því hvort kalkúnninn er orðinn mátulega eldaður.  Best er að stinga kjöthitamælinum í lærið að innanverðu – gæta þess þó að mælirinn snerti ekki bein – hafa mælinn í fuglinum allan eldunartímann  –  Kalkúnninn er tilbúinn þegar kjöthitastig nær 72°.
Nú er komið að því að bera fuglinn fram. – Byrja á því að skera hvorn bringuhelming frá beini í heilu lagi. Síðan er bringan skorin í þunnar sneiðar eftir endilöngu og þvert á vöðvann. Sneiðunum raðað aftur upp á bringubeinið.  Þá eru læri og vængir skornir af eftir að fuglinn hefur verið borinn fram.