Margt fer öðru vísi en ætlað er.

Í beinu framhaldi af ferðinni á Teide fór ég að finna fyrir kvefi, sem magnaðist fljótt yfir í astma. Ég fann því blaðið frá fararstjórunum yfir læknastofur og spítala, þar sem enska var töluð. Ég ákvað að byrja á byrjuninni og fór á læknastofuna og kom til baka með fúkkalyf og fleiri stera en ég kom með að heiman. Tveimur dögum seinna hafði mér versnað til muna svo ég fór aftur á læknastofuna, þá leist lækninum ekkert vel á mig og sprautaði mig með Cortison og gaf mér mun sterkari fúkkalyf og nú átti ég að taka enn fleiri stera. Ég átti svo að hafa samband ef þetta lagaðist ekki fljótt.

Ég druslaðist svo um heima við hótel, hafði ekki orku til að fara í skemmtisalinn á kvöldin og var bara svona hálf ónýt. Á laugardagsmorgni sagði ég við Hauk að ég  myndi örugglega bara hressast ef ég færi í smá göngutúr  með honum. Við röltum svo niður götuna við hótelið en þa fékk ég allt í einu svo mikið hóstakast að ég var bara alveg að kafna og varð að setjast smá stund á kant á blómakeri til að jafna mig aðeins. Ég sagði Hauki svo að halda bara áfram í göngutúrnum, ég færi ekki lengra að þessu sinni.  Ég skrönglaðist svo upp á hótel og lagðist upp í rúm.

Til að stytta söguna leist mér ekki á blikuna um kvöldið og hringdi til að tala við lækninn, en hann var búinn að segja mér að hringja ef ég versnaði.  Hann var kominn á hótelið innan 20 mínútna, hlustaði mig og hringdi síðan á sjúkrabíl.  Ég var nú ekki sátt við að láta bera mig á sjúkrabörum alla ganga og láta fólk, sem einmitt var að koma á þessum tíma eftir að horfa á skemmtiatriðin í salnum niðri,  fara að fylgjast með svo ég fór í þessu ástandi með lyftunni niður og beið sjúkraflutningamannanna húkandi við útidyrnar. Þeir urðu svolítið undrandi þegar þeir hirtu mig þar upp. Haukur fór með mér niður en varð svo eftir á hótelinu.

Þegar ég kom á bráðamóttökuna á spítalanum sá ég alveg nýja hlið á þessu sæluríki þar sem maður hafði ekki í eitt einasta skipti svo mikið sem séð drukkna persónu.  Já það var misjafnt ástandið  á þeim sjúklingum sem biðu þarna eftir þjónustu. Sem betur fer þurfti ég nú ekki að bíða nema stutta stund þar frammi af því ég kom í sjúkrabíl og var fljótt farið með mig inn til að gefa mér grímu til að létta öndunina.  En þarna var kona sem greinilega var mikið drukkin og hafði dottið á andlitið – var öll hrufluð í framan. Ungur maður húkti í hjólastól allur hruflaður og virtist alveg út úr heiminum, fullorðinn maður með bundið um höfuðið einnig greinilega undir áhrifum einhvers, fyrir svo utan þá sem voru hóstandi og veikir en alsgáðir. Þarna voru finnsk hjón, sem verið var að reyna að ná einhverju sambandi við,  en þau töluðu bara finnsku og áttu í miklum erfiðleikum með að gera sig skiljanleg og ég veit ekki hvernig það endaði.   Já, þarna sá ég allt í einu inn í allt aðra veröld en þá sem ég hafði áður séð og  upplifað á þessum dásamlega fallega og rólega stað.

Eftir að vera í rúma fjóra klukkutíma inni í einhverju frekar óhrjálegu litlu herbergi þarna niðri á meðan verið var að rannsaka mig og gefa mér lyf í æð  þá var mér trillað fram gang, inn í lyftu og eitthvað uppp á efri hæðir og inn fleiri ganga.  Þar voru svo opnaðar dyr og mér trillað inn um þær. Þegar ég sá inn í stofuna eftir að vera þarna niðri þá kom mér fyrst í hug að nú hlyti ég að vera komin til himnaríkis. Þarna blasti við mér stór falleg stofa í fallegum litum sem allir tónuðu saman, rúm með rósóttu rúmteppi yfir og aukarúm við hliðina eins uppábúið og mild birta sem kom frá lampa fyrir ofan rúmið sem lýsti bara upp á loftið. Síðan var heill veggur þakinn fallegum gardínum. Sjúkrastofa var sem sagt ekki það sem fyrst kom upp í hugann og kannski ekki furða að ég héldi mig komna á himneskan stað.

Það var þó eitt sem sjokkeraði mig þarna strax á fyrstu mínútunum. Ég vildi byrja á því að fara á snyrtinguna sem var þarna innangengt í áður en ég reyndi að sofna eitthvað. Ég náði að gera þeirri spænsku, sem hafði farið með mig upp skiljanlegt að ég þyrfti á snyrtinguna. Hún fór með mig að dyrum þarna inni í stofunni, kveikti ljósið og sýndi mér þar inn. Það var þá sem ég gamla íslenska amman rak upp vein, því það fyrsta sem ég sá var svört, svona ca. 3 sentimetra löng padda sem var að skríða á hvíta fætinum undir vaskinum.  – Aumingja konunni hálf brá og hélt að eitthvað hefði komið fyrir mig svo ég benti skelfingu lostin á pödduna. Þá hló bara sú spænska, sagði eitthvað á sínu óskiljanlega tungumáli, fór fram og skildi mig eftir hjá kvikindinu.
Ef ég hefði ekki verið bókstaflega alveg í spreng hefði ég farið beint upp í rúm og ekki opnað þarna inn aftur. Ég varð hins vegar að setja í mig kjark og dröslaði með mér standinum með því sem ég var að fá gefið í æð að WC pappírnum og reif niður slatta af honum til þess að bleyta og skella yfir kvikindið. Þegar ég kom hins vegar aftur að vaskinum var sú svarta með öllu horfin – hvert ?  Það hafði ég ekki hugmynd um og það var verst af öllu, því ég vissi ekki hvort hún hefði farið fram í stofuna og myndi kannski heimsækja mig í bólið.  Á meðan ég var þarna fór ég alltaf á snyrtinguna með mjög mikilli varúð, en sú fótfráa lét ekkert sjá sig aftur, hvorki á baðinu eða inni í stofunni. Þetta var eina skorkvikindið sem ég sá í allri ferðinni.

———

Myndin sem Haukur tók þegar hann kom í heimsókn daginn eftir sýnir nú bara lítið horn af  stofunni, en það voru fín húsgögn þarna út við gluggann, bæði hægindastóll og tveir minni stólar í kringum kringlótt borð, langur grænn skeinkur í sama lit og rúmið  stóð við vegginn á móti rúminu og stór flatskjár fyrir ofan hann. Mér var hinsvegar aldrei látin í té fjarstýring svo kannski var þetta bara platskjár í staðinn fyrir flatskjár  – ég spurði ekkert um það. 

Þetta var svo útsýnið  sem ég sá út um gluggan næsta morgun þegar búið var að draga gardínurnar frá.

Þetta er nú orðin svo löng færsla að ég ætla ekki að hafa hana lengri – Bara niðurlagið eftir.

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

7 Responses to Margt fer öðru vísi en ætlað er.

  1. Svanfríður says:

    Þetta er nú meiri reynslan sem þú hefur náð þér í þarna! En ég er glöð að vel var farið með þig elsku Ragna. Takk fyrir að deila.

  2. þórunn says:

    Þetta var sannarlega önnur og dekkri hlið á sæluríkinu en þú og flestir hafa séð þarna. En sem betur fer fékkst þú góða meðhöndlun og náðir bata til að komast heim. Vonandi fer þetta nú að ganga yfir enda nóg komið hjá þér í bili. Góðan bata Ragna mín, kveðja Þórunn.

  3. Ragna says:

    Takk stelpur mínar, þetta kemst allt saman í lag. Ég get verið mjög sátt – ég náði nógu góðri heilsu til að komast heim, en það eru ekki allir svo heppnir, eins og dæmin sanna. Þessi reynsla fer með annarri í sarpinn. Sögur lífsins eru alltaf með ýmsu móti og nú á ég þennan nýja kafla í minni lífsbók.

  4. Elsku Ragna mín, það á ekki af þér að ganga. Ég vona sannarlega að þú jafnir þig fljótt.

  5. Hildur says:

    Hjartanlega velkomin heim Ragna mín. Var að lesa í gegnum ferðasöguna sem byrjaði ágætlega og gaman og fróðlegt að lesa um fjallaferðina, en hvílík óheppni sem þú lendir í, nú er ég ansi forvitinn að vita hvernig þú hefur það eftir heimkomuna. Sjáumst fljótlega og góðan bata. <kær kveðja

  6. Ja hérna hér Ragna mín, vonandi ertu búin að ná þér. Afhverju færðu svona vond köst, ertu asmaveik? Góðan og endanlega bata mín kæra með kveðju frá okkur Bróa.

  7. Ragna says:

    Guðlaug mín. Ég er bara því merki brennd, þó ég hafi aldrei á æfinni reykt, að ef ég fæ kvef þá breytist það mjög fljótlega í slæmt astmakvef. Fyrir nokkrum árum var ég kölluð til þess að taka þátt í lyfjarannsókn á Astmalyfjum. Þá var ég búin að vera mjög góð í nokkuð langan tíma og fannst þetta skrýtið. Ég spurði svo þegar ég mætti þarna af hverju væri verið að kalla mig inn í þessa rannsókn, því konan í næsta húsi væri mun verr haldin en ég var á þessum tíma. Þá var mér sagt að ég væri með genagalla, sem hefði komið í ljós í rannsókn hjá Íslenskri erfðagreiningu og Sigurrós mín væri líka með þetta astmagen – fleiri úr fjölskyldunni fóru víst ekki í þessa rannsókn hjá Íslenskri erfðagreiningu – kannski voru það bara við sem gerðum þetta til að fá bláan bol hjá þeim fyrir heimsóknina. Eins og þegar ég tók þátt hjá erfðagreiningunni þá hef ég ekki hugmynd um hvað út úr þessari lyfjarannsókn kom eða hvort ég var yfirleitt að taka lyf eða lyfleysu – Svona er þetta nú allt saman, en það væri dásamlegt ef til væri orðið gott lyf til þess að grípa til, sem kæmi í staðinn fyrir þessa fjárans stera og sterku fúkkalyf.

Skildu eftir svar