Hugsað upphátt.

Takk, Takk fyrir góðar kveðjur.  Í dag er fimmtudagur 10. maí og ég komst loksins í segulómunina. Á morgun fæ ég svo að vita nánar um þetta og fæ að öllum líkindum aðgerðardagsetninguna.

Ég var að spá í það áðan að þetta er í fyrsta skipti sem ég fer í skurðaðgerð, alveg frísk eins og mér finnst ég vera núna, en nú verð ég hins vegar  ekki veik fyrr en að aðgerð lokinni. Já það er margt skrýtið í henni veröld.  Venjulega þegar ég hef farið í skurðaðgerðir þá hef ég nefnilega hlakkað mikið til því þá hef ég verið búin að hafa mikla verki lengi og hlakkað til að vakna  laus við þá.  Svona er þetta, maður fær alltaf að prufa eitthvað nýtt og kynnast því sem maður hefur ekki kynnst áður – bæði góðu og slæmu – Þannig er bara þetta líf okkar – alltaf verið að prufa hvað við getum komist í gegnum.  Fram að þessu hefur aldrei verið lagt svo mikið á mig að ég hafi ekki getað borið það og nú er bara að sýna að enn séu kraftar í kögglunum þó þeir séu nú aðeins farnir að slappast eftir mikla notkun í gegnum árin.

Ég fór til heimilislæknisins míns í morgun til þess að fá beiðni í sjúkraþjálfun. Þegar ég var búin að skrá mig inn á biðstofunni kom stúlka og spurði hvort ég vildi taka þátt í evrópskri könnun umþað hvernig fólk upplifði þjónustu heimilislækna. Ég var til í það og byrjaði að færa inn í reitina þessa stuttu stund sem ég beið og svo sagði hún mér bara að taka þetta með mér inn og klára þegar ég kæmi fram aftur.  Einu þarna í byrjun átti ég erfitt með að svara, en það var um heilsuna. Spurt var hvort hún væri Mjög góð, Góð, Sæmileg eða Léleg. Mér finnst heilsan bara alveg ágæt þessa dagana og líður ekkert illa. Ég ákvað því að geyma þessa spurningu og sýna lækninum. Hann brosti  nú bara að mér þegar ég sagði honum að þessu væri erfitt að svara því mér finndist heilsan í rauninni vera góð fyrir utan þetta krabbamein.  Þá sagði hann „þú merkir við Léleg“.  Úps, þá var ég bara allt í einu orðin heilsulaus, ég sem hef haldið að ég væri bara í góðu ástandi, þ.e. …..

Já svon er nú það. Í sjúkraþjálfun og nálastungur fer ég aftur snemma í fyrramálið og það er alveg dásamlegt. Vonandi næ ég að fara í nokkra tíma fram að aðgerð.

Jæja, nú ætla ég að hætta að hugsa upphátt og gá hvort eitthvað er af viti í þessum blessaða imba.

This entry was posted in Helstu fréttir.. Bookmark the permalink.

11 Responses to Hugsað upphátt.

  1. Guðbjörg Oddsdóttir says:

    Gangi þér vel í viðtalinu á morgun, ég krossa fingur og heyri í þér að viðtali loknu:0)

    Hafðu engar áhyggjur mamma mín því nú er komið að okkur að styðja þig og þakka þar með öll árin sem við fengum stuðning frá þér. Knús og kossar

    Frumburðurinn

  2. Dandý says:

    Hugsum til þín Didda mín

  3. Erna frænka says:

    Trú okkar hefur mikid ad segja – og tá meina ég ekki beinlínis trú okkar á andlegum málum, heldur á tví sem vid höldum og tví sem sagt er vid okkur. Mér finnst hrædilegt, hvad læknar (og margt annad gott fólk) geta verid miklir asnar ad segja svona vid fólk – og halda ad tad hafi engin áhrif. Sjá bara hvad tad gerdi tér, ad hann „merkti“ heilsu tína sem lélega. Taktu aftur trú tína á lídan tinni Didda mín, tú ein veist hvernig tú hefur tad, og veist líka ad tú getur breytt nidurdrepandi hugsunum í jákvædar. (Tú verdur ekki hæna, tó einhver segi ad tú sért hænuleg – heyrdi einusinni sálfræding segja tetta vid unga stúlku, sem ekki hafdi mikla trú á sjálfri sér.)

  4. Anna Bj. says:

    Elsku Ragna mín, takk fyrir að deila þessu með okkur. Mínar allra bestu óskir um vel heppnaða aðgerð og frábæran bata eftir það.
    Þín vinkona ABJ.

  5. þórunn says:

    Kæra Ragna, það er örugglega undarlegt fyrir þig að ganga í gegnum þetta ferli sem er svo mikið öðruvísi en undangengnar aðgerðir, en allt fer vel að lokum það er engin spurning.
    Gangi þér vel með mæsta kafla, ég er sammála Ernu, þú verður ekki lasarus þó einhver segi það við þig.
    Bestu kveðjur.

    Þórunn

  6. Ragna says:

    Elsku Erna mín þakka þér fyrir, en bara svo það sé enginn misskilningur,þá er ég örugglega með heimilislækni eins og þeir gerast allra bestir og ég tók þessu alls ekki illa. Ég sá auðvitað þegar hsnn sagði þetta,að maður segir ekki heilsuna sína góða þegar maður er kominn með krabbamein og tvisvar búinn að lenda inni á spítala frá áramótum þar fyrir utan. Hann þekkir mig of vel til þess að vera með einhverja tæpitungu. Mér leið bara svo vel í morgun að mér fannst eitthvað svo skrýtið að fara að skrifa léleg. Hef ekki látið neitt trufla mig. Ég setti þetta inn svona af því mér fannst það frekar fyndið að ég skyldi velta þessu fyrir mér,en ekki af því að ég hefði móðgast við lækninn,eða látið þetta slá mig út af laginu. Ég fór í segulmyndatökuna sæl og glöð eftir þetta og það gekk allt fínt. Ég tek bara eitt skref í einu.
    Ég trúi því að allt gangi vel með jákvæðninni, en var bara að velta þessu aðeins fyrir mér.

  7. Hafdís Baldvinsdóttir says:

    Ragna mín ég óska þess svo innilega að þér gangi allt vel. Hugur minn er hjá þér og ég sendi þér allar mínar bænir og megi allir góðir vættir vaka yfir þér. Mínar bestu kveðjur

    Hafdís B.

  8. Katla says:

    Hugurinn hefur svo mikið að segja, ég trúi því að minnsta kosti að hann hafi líka áhrif á líkamlegu hliðina. Hugur þinn er fallegur og ég veit að þú munt taka á því sem á dynur með þinni óbifandi jákvæðni og jafnaðargeði sem, sem betur fer, virðist það eina ólæknandi við þig : )

  9. Ragna says:

    Þakka þér fyrir öll fallegu orðin þín Katla mín, ég sé að þú hefur verið að skrifa við margar færslurnar hjá mér. Ég vona að ég eigi skilið það sem þú segir um mig. Eitt veit ég þó,að ég geri mitt besta. Mér var sagt sem barni að ef maður gerði sitt besta væri ekki hægt að krefjast meiru af manni. Ég veit því að ég get ekki gert meiri kröfur til sjálfrar mín en þetta. Ég veit alveg að jákvæðni er það eina sem kemur manni í gegnum allt svona stúss – ég hef nefnilega prufað þetta áður, þó það hafi ekki verið um slíkt mein að ræða. Við eigum svo aldeilis frábæra lækna sem er svo auðvelt að setja allt sitt traust á.

  10. Sigurrós says:

    Ég held að húmorinn eigi eftir að hjálpa þér heilmikið í gegnum þetta líka. Ég þykist einmitt vita að þú hafir haft smá húmor fyrir því að læknirinn benti þér góðfúslega á að merkja við lélega heilsu og ég veit að þú tekur það ekki inn á þig. En það er rétt hjá Ernu, að auðvitað þurfa læknarnir að passa sig hvað þeir segja við hvern og einn, sumir eru viðkvæmari.

    En mér finnst alveg yndislegt að þú sért að upplifa þig hressa og vitir ekki alveg hvernig þú eigir að flokka heilsuna, þú sem hefu þurft að takast á við svo margt 😉 En þetta er kannski einmitt ein af ástæðunum fyrir því að þú kemst alltaf í gegnum erfiðleikana, að þú ert svo bjartsýn og jákvæð og lítur á veikindi og erfiðleika sem verkefni sem þarf að leysa og svo leysir þú það alltaf með glæsibrag!

    Þú ert flottust, elsku mamma mín 🙂

  11. Ragna says:

    Þakka ykkur fyrir stelpur mínar allar með tölu. Ekki veit ég hvort ég á þetta nú allt skilið. Það eina sem gæti komið út tárum hjá mér þessa dagana er hvað allir eru dásamlegir – þó það sé nú reyndar ekkert nýtt – ég þekki ekkert nema gott fólk.

Skildu eftir svar