Segulómtækið er enn bilað – Hvað er til ráða???

Já, þið ráðið hvort þið trúið því eða ekki, að síðan ég mætti á röntgendeildina s.l. fimmtudag og var sagt að segulómtækið væri bilað, þá er nú komið þriðjudagskvöld og tækið er enn bilað. Ég dingla bara svona í lausu lofti og er alltaf að bíða eftir að það verði hringt vegna myndatökunnar því mér var sagt að ég þyrfti hugsanlega að koma fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust þegar það yrði hringt í mig.  Ég held mér þó rólegri og reyni að láta þetta ekki hafa of mikil áhrif á mig, en vitanlega er ég innst inni rosalega sár yfir því hvernig ástandið er í heilbrigðismálunum okkar. Þetta greiningatæki er það eina á landinu sem tekur myndir í svona tilfellum og það er erfitt að sætta sig við að tækin á Landspítalanum séu orðin svo gömul og lúin, að þau séu  jafnvel enn meira lasburða en sjúklingrnir sjálfir sem eiga að njóta tækninnar.
Ég talaði við þær á deildinni á LSH í gærmorgun og þær sögðu að læknarnir hefðu verið að tala um að setja mig jafnvel í aðgerðina án þess að fá myndatökuna ef tækið kæmist ekki í lag mjög fljótlega. Vonandi verður nú hægt að lappa eitthvað uppá þetta tæki næstu daga svo læknarnir hafi meiri upplýsingar í höndunum og aðgerðir sem þessar geti farið fram eftir bestu upplýsingum sem völ er á fyrir læknana og fyrir öryggi sjúklinganna. Það er alveg skelfilegt að sjúklingar þurfi að bíða í langan tíma eftir svona mikilvægri myndatöku, en þetta eina myndatakan sem sýnir hvað er í gangi og hversu umfangsmikið meinið er sem læknarnir þurfa að fást við.

Já, það er ömurlegt til þess að vita að ástandið sé orðið þannig á Landspítalanum að læknar þurfi að fara marga áratugi aftur í tímamm, til þess tíma þegar svona tækni var ekki til.
Við megum þakka fyrir að fá enn að njóta starfskrafta okkar frábæru skurðlækna og sérfræðinga, því ekki efa ég að þeim býðst betra vinnuumhverfi í öðrum löndum. Ég finn virkilega til með þeim og það hlýtur að vera mikið álag að eiga að vinna með mannslíf í höndunum við þær aðstæður að tækin sem á að nota  séu meira eða minna biluð.
Ég veit að það er talað um að byggja nýjan spítala með öllu nýju,  en getum við beðið eftir því á meðan allt er að úreldast á Landspítalanum okkar – Ég hef heyrt af ýmsum öðrum tækjum sem hafa verið biluð eða bila þegar verið er að nota þau. Þetta er hvorki ásættanlegt fyrir læknana eða sjúklingana.

Getum við beðið eftir nýjum spítala.  Ég svara því neitandi.


Comments

6 responses to “Segulómtækið er enn bilað – Hvað er til ráða???”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *