Dagur tvö

Sigurrós skrifar:

Ég fékk sms frá mömmu í morgun um að nóttin hefði verið fín, hún hefði fengið verkjalyf fyrir nóttina og verkirnir höfðu ekki versnað. Það var sama sagan upp úr hádegi, hún hafði það ennþá alveg ágætt.

Síðdegis var þrýstingurinn samt farinn að aukast eitthvað og þetta var orðið eitthvað óþægilegra en þó ennþá alveg bærilegt.

Skurðlæknirinn kom og talaði við hana og sagði að þetta hefði litið mjög vel út svona við fyrstu sýn. Æxlið verður samt sent í ræktun og þegar niðurstöður úr því eru komnar þá fær hún að vita nánar hvort hún þarf geisla eða lyfjameðferð eða hvort hún nær að sleppa við það eins og læknirinn sagðist jafnvel búast við.

Hún á að vera á spítalanum þar til á morgun en þá ætlaði hún að flytja sig yfir á sjúkrahótelið. Það mátti ekki panta það neitt fyrirfram, henni var bara sagt að ræða það við starfsfólkið á vaktinni eftir aðgerð. Nú bregður hins vegar svo við að þar er allt yfirfullt svo að það er ólíklegt að hún komist þangað inn á morgun. Hún var sett á biðlista svo að nú vonum við bara að einhver af sjúklingunum á sjúkrahótelinu hressist snarlega og komist heim til sín 😉 Vonandi getur hún fengið að vera aukanótt á spítalanum fram á fimmtudag og að þá verði kannski búið að losna á sjúkrahótelinu. Við krossum fingurna og vonum það besta, því það er auðvitað óþægilegt að vera send heim með drenið svona nokkrum dögum eftir aðgerð – og af því við þekkjum nú öll hana móður mína þá vitum við að hún væri vís með að fara að sýna einhvern myndarskap heima og fara að sinna matseld eða öðrum heimilisverkum, alveg sama þó heilsan leyfi það ekki og þó Haukur reyni að halda aftur af henni….!

This entry was posted in Helstu fréttir.. Bookmark the permalink.

8 Responses to Dagur tvö

  1. Björk says:

    Æ, það var gott að þetta gekk vel og henni líður sæmilega. Vonandi fær hún að vera á spítalanum þar til hún kemst á sjúkrahótelið og getur tekið því rólega meðan hún er að komast yfir erfiðasta hjallann. Það er svo frábært að geta fengið fréttirnar af henni svona, þá þurfa ekki allir að vera að hringja í ykkur systurnar og Hauk til að fylgjast með. Batakveðjur frá okkur. Kveðja Björk

  2. Hildur says:

    Vonandi kemst hún á sjúkrahótelið, talandi um myndarskap mömmu þinnar þá gleymist seint hversu rausnarlega hún tók á móti okkur starfsfólki Völuskrínar hérna um árið mig mynnir l984 á Kambsveginum um það leyti þegar hún tók við stjórn verslunarinnar, hvílík veisla , mátti til með að nefna þetta núna þegar maður hugsar svo sterkt til hennar.

  3. Dandý says:

    Krossum fingur

  4. Anna Bj. says:

    Gott að heyra frá ykkur, Sigurrós mín. Viltu skila kærum kveðjum til hennar frá mér. Veit að hinar saumaklúbbssysturnar hugsa líka vel og mikið til hennar.
    Skil ekki að spítalinn geti sent hana heim svona nýkomna úr aðg. Vonum og biðjum að hún komist á sjúkrahótelið!!
    K.k. Anna.

  5. Heyrði í henni í morgun og það var gott. Sjúkrahótelið er staðurinn, og vonandi kemst hún þar inn sem fyrst. Hef góða tilfinningu fyrir framhaldinu með kærri kveðju frá okkur Bróa.

  6. Guðbjörg Oddsdóttir says:

    Takk fyrir góðar kveðjur. Hún bað mig að skila kveðju til allra í dag þegar ég heyrði í henni. Fingur og tær í kross með von um að hún komist inn á sjúkrahótelið.

    Kv

    Guðbjörg

  7. Hafdís Baldvinsdóttir says:

    Vona að hún komist inná sjúkrahótelið. Bestu kveðjur til hennar og ykkar allra.
    Hafdís Baldvinsdóttir

  8. þórunn says:

    Bestu kveðjur frá okkur Palla á Selfossi

Skildu eftir svar