Umgjörð jólanna og aðrar vangaveltur.

Nú á aðventunni þegar  hnausþykk auglýsingablöð koma daglega  og sjónvarp og útvarp eru með langa auglýsingatíma þar sem okkur er talin trú um allt það sem við þurfum að eignast. Ég segi bara þurfum – til hvers?  Verðum við hamingjusamari eða heilbrigðari ef við eignumst alla þessa hluti og setjum okkur jafnvel í stórskuldir til að eignast þá?  Svarið er NEI.

Það bregst ekki að á þessum árstíma,  þá rifjast  alltaf upp fyrir mér jólin sem litla fjölskyldan átti í Englandi 1975.  Ég setti inn pistil um þau jól fyrir mörgum árum  og þar er m.a. þessi texti:

„…Við keyptum okkur pínulítið  jólatré, seríu og nokkrar kúlur og elduðum svo okkar jólamat á aðfangadaginn. Settumst síðan þrjú að jólaborðinu og kveiktum á kertum klukkan sex um kvöldið. Það var voða skrítið að sitja bara þrjú til borðs, engar ömmur, afar eða aðrir sem við vorum vön að vera með á aðfangadagskvöldi og ekki gátum við hlustað á jólin hringd inn með kirkjuklukkunum og hlustað á jólamessuna í útvarpinu. Við vorum ekki með plötuspilara svo við gátum ekki spilað nein jólalög. Í sjónvarpinu var bara venjuleg dagskrá og ekkert hátíðlegt þar að finna svo imbinn var hafður alveg svartur þetta kvöld. Við töluðum bara um fólkið okkar heima og vorum með þeim í huganum.
Eftir matinn og fráganginn þá settumst við þrjú inn í stofu og sungum saman jólasálmana, nokkuð sem við höfðum aldrei gert áður. Síðan tókum við upp pakkana og lásum allar dásamlegu jólakveðjurnar að heiman. Svo hringdu foreldrar beggja að til að óska okkur gleðilegra jóla.
Svo var svo gott að skríða upp í rúm um kvöldið í nýjum náttfötum með jólabækur að heiman. það var ekki hægt að óska sér betra aðfangadagskvölds en við áttum þarna.
Ég segi nú alveg eins og er, að í minningunni finnst mér þessi látlausu jól okkar þarna á erlendri grundu alltaf svo einstök og við vorum svo mikið í nánd við sjálf jólin og við hvert annað án allrar streitu og prjáls. Það liggur við að ég fái tár í augun þegar ég rifja þetta upp.
Í dag þegar maður er að byrja að stressast fyrir jólin og finnst að aldrei sé búið að gera nóg af þessu eða hinu þá er hollt að fara aftur í tímann og rifja upp hvað jólin sem voru þau allra látlausustu voru yndisleg, einmitt í sinni einföldustu mynd. …“

Já það eru þessar  ljúfu minningar sem alltaf  koma upp í hugann. Ekki minningar um það hvort við höfum eignast einhverja flotta hluti, ný húsgögn, ný föt, ennþá stærri skjá og ennþá flottari síma eða eitthvað annað, sem okkur er talin trú um daglega og oft á dag að við verðum að eignast.  Látum ekki telja okkur trú um að við verðum að eignast allt sem auglýst er til þess að geta verið hamingjusöm í lífinu.
Vitanlega er ljúft að fá einhverjar smá gjafir um jól og ekki síst að gefa gjafir. Því verður hinsvegar ekki breytt, og við skulum reyna að koma því inn hjá börnunum sérstaklega, að  hamingjan felst ekki í því sem við söfnum í kringum okkur heldur felst hún í því að eiga sitt heimili, kunna að njóta og vera þakklát fyrir að vera til og eiga hvert annað.  Það er svo langt í frá að trúa því að hamingjan fáist keypt handan við hornið og þá verði allt svo stórkostlegt.   Ég hef þá trú að þeir sem eltast endalaust við það –  verði aldrei raunverulega hamingjusamir.

Þetta eru vangaveltur mínar nú á aðventu og áminning bæði til mín og annarra  um að meta sjálft lífið og tilveruna, en láta ekki sogast inn í þessa gerfiveröld sem við tilheyrum í dag.

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

2 Responses to Umgjörð jólanna og aðrar vangaveltur.

  1. Helga Guðmundsdóttir says:

    Elsku Ragna mín. Það er alltaf svo mannbætandi að lesa póstana þína og hugleiðingar. Takk fyrir það.

    Hvernig ertu í þessari viku, mikið upptekin?
    Ég var að spá í hvort þú gætir ekki komið í heimsókn á þriðjudag, hvenær sem þér hentar?

    Verðum í sambandi.

    kær kveðja
    Helga

  2. Allt þetta jóla jóla í umhverfinu er það sem gerir t.d. blessuð börnin hálf rugluð. Þetta snýst um allt annað með kærri kveðju í bæinn þinn.

Skildu eftir svar