Stöldrum aðeins við.

Þegar maður er kominn á löggildingaraldurinn þá  er góður tími til þess að velta tilverunni betur fyrir sér fyrir sér. Hugsa um hvað það er í rauninni sem gerir okkur ánægð með lífið og tilveruna.  Ég held nefnilega að það sé ekki hvaða hluti við eignumst því allir vita að hamingjan felst ekki í því að eignast allt sem okkur finnst fallegt og langar til að eignast. Hún snýst um tilfinningar okkar og hvernig við meðhöldlum þær. Hvernig við tökumst á við lífið og hvernig við njótum þess.  Gefum við því gaum hvað fjölskylda og vinir eru okkur mikilvægir og munum við eftir því að láta þau vita að okkur þykir vænt um þau?
Ég rifja t.d. oft upp þegar dæturnar voru að vaxa úr grasi og við vorum að gera eitthvað skemmtilegt, kannski spila, fá saman hlátursköst,  eða bara að njóta þess að vera saman. Einnig hvað það voru dýrmætar stundir þegar ég bjó á Selfossi og barnabörnin komu til mín eftir skóla. Við lásum framhaldssögur, föndruðum, fórum niður að á og áttum svo góðar og skemmtilegar stundir saman – það sem við gerðum kostaði aldrei krónu, en minningarnar eru afskaplega dýrmætar.  Það er nefnilega ekki það sem kostar mestu peningana sem veitir okkur mestu ánægjuna heldur hvernig við metum augnablikið og njótum samverunnar með ástvinum okkar. Ég minnist einnig  ýmissa ferðalaga og  þá ekkert síður þeirra sem farin voru á eldgömlum bíl með lítið tveggja manna tjald og prímus – þegar maður þvoði sér og burstaði tennur upp úr fallegum tærum lækjum og allt var svo dásamlegt. Vitanlega nýt ég þess í dag að eiga kost á öllum þægindum á ferðalögum, en það eru alltaf ánægjustundirnar sem standa uppúr en ekki umgjörðin.

Já, það er á þessum aldri sem maður lítur yfir farinn veg og  sér svo auðveldlega hvað það er sem stendur uppúr í lífinu og hvað kemur upp í hugann þegar hugsað er til baka.   Já einmitt. Það eru nefnilega alls ekki þeir hlutir sem við erum hvött til að kaupa og talin trú um í auglýsingum daginn inn og daginn út að við verðum að eignast,  heldur þær ánægjustundir sem við höfum átt með þeim sem okkur þykir vænt um.

Ég  þykist vita að mörgum finnst þessi pistill rosalega væminn, en það gerir ekkert til.  Þetta er mér efst í huga þessa stundina og mig langaði til þess að skrifa þetta á heimasíðuna mína og kíkja kannski á það seinna, eins og ég geri svo oft við gamlar færslur.
– Ég er einfaldlega svo þakklát fyrir lífið eins og það er, fyrir allar góðu minningarnar mínar og allt góða fólkið sem ég hef kynnst. Ég er líka svo þakklát fyrir að hafa verið gefinn styrkur til þess að komast í gegnum erfið tímabil, ekki síst það sem okkur dætrum mínum tókst að komast heilar í gegnum.

Eigum nú öll góða helgi og njótum þess að vera til og njótum litlu hlutanna sem munu standa eftir í minningunum.


Comments

5 responses to “Stöldrum aðeins við.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *