Ferming og hugsanaflakk.

Ég er eins og litlu börnin sem hlakka til jólanna. Ég hlakka svo mikið til þegar Oddur Vilberg fermist á sunnudaginn og hlakka til að hitta fólkið sem kemur til að gleðjast með okkur öllum í veislunni á eftir.  Svo er Karlotta komin heim í páskafrí og Ragnar Fannberg á afmæli á þriðjudaginn. Já það er margt til að gleðjast yfir.

Fyrir mér eru vel heppnaðir afkomendur það ríkidæmi sem dýrmætast er, af öllu því ríkidæmi sem hægt er að hugsa sér. Ég hef átt því láni að fagna, að vera heppin með afkomendur mína og vona að barnabörnin sem nú eru hvert á sínum aldri að feta sig áfram í lífinu, sigli fleyi sínu þannig í gegnum lífsins ólgusjó, að þau þræði fram hjá öllum blindskerjum og komi ætíð heil til hafnar. Þetta er stærsta ósk mín til þeirra í dag.

Af því fermingin hans Odds Vilberg er mér efst í huga núna, þá hef ég verið að hugsa um tímann sem ég átti svo dýrmætan með Karlottu og Oddi þegar við bjuggum á Selfossi og þau komu til mín eftir skóla á daginn. Það er mér ómetanlegt að hafa fengið að hitta barnabörnin mín allt að því daglega og geta minnst alls þess sem við brölluðum saman í Sóltúninu á þessu tímabili.

Ég kallaði hann Odd Vilberg alltaf ömmustubbinn minn – það var svona gæluyrði sem við héldum uppá.  Hann var ánægður með það og var örugglega orðinn 10 eða 11 ára ára, þegar ég var enn að kalla hann elsku ömmustubbinn minn. Ég spurði hvort honum finndist hann vera orðinn of stór til þess að ég kallaði hann þetta, ef vinirnir heyrðu það kannski. Svarið hans gladdi ömmuhjartað þegar hann sagði – „Nei,nei, ekkert hætta því“.  Þá sagði amma að hann skyldi bara láta vita þegar hún ætti að hætta að kalla hann ömmustubbinn sinn. Það merkilega er hinsvegar að amma hefur aldrei verið beðin um það. Nú þegar hann er orðinn miklu hærri en amma og orðinn fermingardrengur,  þá  geymir amma þetta bara í hjarta sínu, en segir ekki upphátt. Það verður nefnilega að þekkja sín takmörk þó svo aðrir bendi ekki á þau.
Nú hefur þetta alveg snúist við hjá okkur, því amma er samkvæmt mælingum alltaf að styttast 🙂 en  Oddur Vilberg alltaf að hækka og vaxinn ömmu langt yfir höfuð. Það er því ekki orðin spurning um það hver er stubburinn í dag.

Eftirfarandi heilræði sendi ég Oddi mínum og öðrum fermingarbörnum með ósk um bjarta og heillaríka framtíð:  

 Þú munt uppgötva að oft er lífið öngþveyti og ringulreið

– sættu þig við það og haltu fast í friðinn í hjarta þínu.

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

10 Responses to Ferming og hugsanaflakk.

  1. Elsku Ragna, ömmustubburinn verður alltaf til og hjartanlega til hamingju með hann. Kveðja frá okkur Bróa. Setti inná bloggið mitt.

  2. Ragna says:

    Takk Gulla mín. Ég var einmitt að skoða bloggið þitt og kommentera þar. Við höfum sem sé verið í beinu sambandi að skoða hvor hjá annarri.

  3. Guðbjörg says:

    Falleg hugleiðing mamma mín. Það hefur sko líka verið mjög dýrmætt fyrir barnabörnin að eiga svona ömmu eins og þig 🙂

  4. Katla says:

    Oddur Vilberg og restin af þínum fallega barnaskara eru endalaust lánsöm að eiga ömmustubb eins og þig.

  5. Hildur says:

    Elsku Ragna,gott var og gaman að hitta þig og þína fínu fjöldskyldu í kirkjunni s.l. sunnudag. Fermingarhópurinn myndarlegur og bara nokkuð hressandi messa, lokasálmurinn
    svo fjörugur að maður vildi bara vera lengur og dansa smá. Svo sammála þér – vel heppnaðir afkomendur það ríkidæmi sem dýrmætast er –
    Þá eru ömmubörnin nr. tvö búin að fermast hjá okkur báðum.
    Svo er að hittast sem fyrst í næsta mánuði , þangað til Gleðilega páska

  6. Ragna says:

    Takk sömuleiðis Hildur mín og til hamingju með Birtu. Já það eru alltaf hressilegar messur í Lindakirkju, líka þessar venjulegu – söngurinn sá sami í þeim. Það er ekki spurning að við hittumst fljótlega í næsta mánuði. Gleðilega páska.

  7. Sem svar þá ertu alltaf velkomin, góðir gestir eru ekki bannaðir! Kv. Gulla

  8. Ragna says:

    Takk Gulla mín, ég veit við hverju svarið er 🙂

Skildu eftir svar