Sólin skín og lundin mín léttist með degi hverjum.

Mikið var gott og gaman að komast í vatnsleikfimi í dag.  Það er orðið alveg tímabært að vera í einhverri hópleikfimi aftur og ég var svo heppin að það hafði verið sótt um fyrir mig í vatnsleikfimi á Grensás. Já ég hef bara ekki við að taka við tilkynningum um að mæta hér eða þar í eitthvað sem ég hef ekki einu sinni hugmynd um að hefur verið sótt um fyrir mig. Ég mætti t.d. einnig í dag í sjúkraþjálfun á LSH í Fossvogi og þurfti að spyrja um hver hafi sótt um það. Það er ekki hægt að segja að ekki sé vel haldið utanum mann – svo mikið er víst.   Annars hef ég verið nokkuð dugleg að ganga, bæði úti þegar vel viðrar, eða inni í Kór í kringum fótboltavöllinn þegar það er hálka eða mikið rok.

… og sólin skín 🙂  Þó það væri 7 gráðu frost í morgun, þá einhvern veginn fannst mér vera komið vor í loftið. Það er nefnilega svo fljótt að hlýna þegar blessuð sólin skín. Bara það að hafa sól frá því maður vaknar snemma morguns til klukan langt gengin átta á kvöldin er DÁSAMLEGT.

Það hefur svo sem ekki mikið gerst hérna í Fensölunum, en helgin var mjög skemmtileg því á föstudaginn var Freyja litla í heimsókn því það var starfsdagur á leikskólanum og Ragna Björk fékk að fara með  mömmu sinni í skólann og small þar inn í 6 ára bekk, en litla trítlan skemmti ömmu hérna heima.  Svo kom Ragna Björk á laugardaginn þegar hún var búin í ballettinum og fékk að gista um nóttina því pabbi og mamma fóru á árshátíð. Það lifnar álltaf yfir þegar ungarnir koma í heimsókn, bæði þessir stóru og smáu.
Talandi um að lítið gerist þá er ágætt að telja það upp því þá kemur í ljós að allt mögulegt er nú í gangi í kringum mann. Ég var búin að vandræðast með einhverja ferðapunkta sem ég átti, en það mál leystist þannig að nú hefur þeim verið breytt í farmiða til Jótlands  og þangað ætla ég með Hauki í byrjun maí að njóta danska vorsins og auðvitað að hitta  Hullu dóttur hans Hauks og  fjölskylduna hennar sem þar býr.  Það er orðið tímabært að ég skreppi þangað með Hauki því ég hef ekki farið til þeirra í heimsókn í sex ár.

Karlottu hefur gengið ágætlega í prógramminu sínu, “10 bekkur grunnskóla og 1. bekkur menntaskóla saman”  í Menntaskólanum á Akureyri og tók þátt í söngkeppni MA fyrir stuttu,  þar vað hún í þriðja sæti af yfir tuttugu keppendum. Auðvitað er amma montin af ömmustelpunni sinni sem samdi lagið og textan sjálf og bæði söng og spilaði á píanóið. Ég hlakka til að hitta hana þegar hún kemur heim í fermingu Odds Vilbergs og í páskafríið.  Já, það er heilmikið sem stendur til hjá Ásakórsfjölskyldunni því Oddur Vilberg er að fermast næsta sunnudag og það verður aldeilis gleðilegt þá helgina að hitta alla ættingjana og gleðjast saman í fermingarveislunni hans.  Hann heldur nánast til í Bláfjöllum þessa dagana og fer þangað með strætó eftir skóla og leikur sér þar í miklum loftköstum á bretti – okkur mömmu hans til mikillar hrellingar og ekki síst heldur maður niðri í sér andanum þegar vinirnir setja á fésið myndir af honum á miklu flugi Við þökkum fyrir hvern dag sem hann kemur óbrotinn heim.  Ragnar Fannberg litli bróðirinn lætur sér sem betur fer ennþá duga að vera í Karate og kominn í handbolta, enda ennþá bara sex ára en alveg að verða sjö.  Nú eru afmæli barnabarnanna minna, allra fiskanna í mars,  að detta inn. Ragna Björk átti afmæli þann 10. mars, svo er Karlotta á morgun 19. marz, og Guðbjörg mín daginn eftir, þann 20.mars, Ragnar Fannberg rekur svo lestina  þann 26. mars og þá er stutt í Freyju sem leist betur á að vera hrútur en fiskur og fæddist  5. apríl.  Hver getur svo kvartað yfir því að ekkert sé að gerast.  Allir ljósgeislarnir mínir að eiga afmæli og sá sem bíður fram í ágúst með afmælið sitt, er að fermast núna. 

Jæja ég ætla að enda þetta pár með því að fletta aðeins upp í bókinni sem ég keypti á bókamarkaðnum um dagin, en hún heitir Þúsund kyrrðar  spor. 

“Æfðu þig í hamingjunni, það er mikillvægasta þjálfunin

Vingjarnleikinn leiðir til hamingjunnar. 

 


Comments

One response to “Sólin skín og lundin mín léttist með degi hverjum.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *